Mál nr. 48/1995
ÁLITSGERÐ
KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA
Mál nr. 48/1995
Forsendubrestur: Kattahald.
I. Málsmeðferð kærunefndar.
Með bréfi, dags. 6. apríl 1995, beindu A og B, hér eftir nefnd álitsbeiðendur, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við C, hér eftir nefnd gagnaðili, um kattahald gagnaðila í fjölbýlishúsinu X.
Álit kærunefndar í því máli, nr. 13/1995, er dags. 12. júlí sl. Komst kærunefnd þar að þeirri niðurstöðu að gagnaðila bæri ekki að fjarlægja kött sinn úr húsinu.
Með bréfi, dags. 31. júlí 1995, beindu álitsbeiðendur sama erindi til kærunefndar og var það lagt fram á fundi nefndarinnar 3. ágúst.
Í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús var samþykkt að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum. Kærunefnd hafa ekki borist athugasemdir frá gagnaðila. Kærunefnd fjallað um málið 6. þ.m. og var það að því búnu tekið til úrlausnar.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.
Ágreiningsefnið er köttur gagnaðila. Krefjast álitsbeiðendur þess að kötturinn verði fjarlægður úr húsinu.
Í fyrrnefndu áliti kærunefndar frá 12. júlí sl. er rakið hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir að ofnæmisvakar bærust frá kettinum. Þar var um að ræða þrif á stigagangi og annarri sameign, auk yfirlýsingar gagnaðila um að kettinum yrði haldið alfarið innan íbúðar gagnaðila. Í niðurstöðu segir síðan:
"Ef einsýnt er að áðurnefndar ráðstafanir nægi ekki og einkenna um kattaofnæmi gæti áfram hjá barni álitsbeiðanda þrátt fyrir þær, getur komið til endurskoðunar á þessari afstöðu nefndarinnar."
Álitsbeiðendur hafa nú óskað eftir nýju áliti kærunefndar þar sem heilsufar dóttur þeirra hafi ekkert batnað þrátt fyrir framangreindar ráðstafanir.
Í bréfi álitsbeiðenda kemur fram, að þau eigi tvö börn sem bæði séu astmaveik. Þriggja ára drengur þeirra hafi nýlega greinst með astma en ekki enn með ofnæmi. Átta ára dóttir þeirra hafi haft astma frá eins árs aldri. Hún hafi verið greind með ofnæmi fyrir köttum í október 1994. Barnið hafi þurft á lyfjum að halda undanfarin ár en álitsbeiðendur hafi getað sinnt lyfjagjöf eftir leiðbeiningum lækna. Fjölskyldan hafi flutt í núverandi húsnæði í febrúar 1993 og síðan þá hafi dóttirin haft þrálátan ofnæmishósta og fengið andþrengsli af og til. Áður en hún hafi greinst með ofnæmi fyrir köttum hafi leigjandi álitsbeiðenda í kjallara hússins haft ketti sem nú hafi verið komið fyrir annars staðar.
Ítrekað hafi verið reynt að fá gagnaðila til að fjarlægja kött sinn eftir að ofnæmið greindist hjá barninu en án árangurs. Fram kemur að af hálfu álitsbeiðenda hafi allt verið gert til að gæta heilsu barnanna að þessu leyti. Þannig séu þau ekki með teppi, engar dúnsængur, reyki ekki og haldi heimilinu hreinu.
Köttur gagnaðila hafi eitt sinn sloppið fram á gang hússins. Dóttir álitsbeiðenda hafi fyrst orðið vör við hann og afleiðingin hafi verið sú að hún hafi veikst. Nokkrum dögum áður en álitsbeiðni þessi sé rituð hafi fjölskyldan komið heim úr ferðalagi og hafi barnið þá fengið astmakast en hins vegar verið við góða heilsu í ferðinni.
Álitsbeiðendur leggja fram nýtt læknisvottorð, dags. 2. ágúst sl., sem nánar er komið að hér að neðan.
III. Forsendur.
Samkvæmt 13. tl. A-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús þarf samþykki allra eigenda til ákvörðunar um að halda megi hunda og/eða ketti í húsinu. Þegar hús skiptist í aðgreinda hluta nægir samþykki þeirra eigenda sem hafa sameiginlegan inngang, stigagang eða annað sameiginlegt húsrými.
Óumdeilt er að á fundi húsfélagsins fyrir nokkrum árum var bókað að framvegis mætti ekki koma með ketti til dvalar í húsinu en þeir kettir sem fyrir væru mættu vera á meðan þeir lifðu.
Kærunefnd vísar til álits nefndarinnar frá 12. júlí sl. um að kattahald gagnaðila hafi verið samþykkt á fundi húsfélagsins í gildistíð eldri laga, um fjölbýlishús og samþykkið ekki bundið við neinn ákveðinn árafjölda. Það skilyrði núgildandi laga um að samþykki allra íbúðareigenda þurfi til að halda kött, feli í sér íþyngjandi ákvæði gagnvart þeim sem héldu kött fyrir 1. janúar 1995 og gera enn. Þar sem gilt samþykki liggi fyrir, verði ekki talið að taka þurfi málið fyrir á ný til samþykktar eða synjunar í húsfélagi vegna gildistöku hinna nýju ákvæða, nema forsendur fyrir samþykkinu séu verulega breyttar.
Í læknisvottorði, dags. 21. júní sl., sem lá fyrir í máli nr. 13/1995 kemur fram að barn álitsbeiðenda hafi "sannað ofnæmi fyrir köttum og ofnæmispróf hafa verið jákvæð". Þá hafi barnið verið með astma og þurft að vera í meðferð vegna þess.
Í vottorði sama læknis, dags. 2. ágúst sl., sem aflað var vegna málsins segir m.a:
"Ofnæmisvakar frá köttum eru protein og berast þau auðveldlega með skófatnaði og öðrum fatnaði og hafa mikinn hæfileika til að loða við yfirborð, bæði teppi, veggi og annað .... Ofnæmisvakar frá ketti berast auðveldlega með fólki út á stigaganga og eru þar þó kötturinn komi alls ekki út á stigaganginn. Hins vegar hefur fyrri umferð katta ekkert mikilvægi þar sem ofnæmisvakar eyðast smám saman og er álitið að það gerist á um það bil tveimur mánuðum eftir að köttur fer úr húsnæði.
Þar sem köttur er í fjölbýlishúsi er alltaf um endurnýjun á ofnæmisvakanum að ræða og getur það verið nægilegt til að valda einkennum hjá íbúum með kattaofnæmi í sama stigagangi."
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið þykir sýnt, að þær ráðstafanir, sem gripið var til í þeim tilgangi að tryggja að ofnæmisvakar bærust ekki frá íbúð gagnaðila, duga ekki. Krafa álitsbeiðenda byggist á því að heilsa barna þeirra sé í húfi enda sannað að dóttir þeirra sé haldin kattaofnæmi.
Það er álit kærunefndar, með vísan til þess sem hér hefur verið rakið, að forsendur séu brostnar fyrir samþykki því sem fékkst á sínum tíma fyrir kattahaldi gagnaðila, á meðan umræddur köttur lifði. Kærunefnd telur því að álitsbeiðendur eigi kröfu til að húsfundur verði haldinn þar sem ákvörðun um, hvort gagnaðila sé heimilt að halda kött í húsinu, verði borin upp á ný, skv. 13. tl. A-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994.
IV. Niðurstaða.
1. Það er álit kærunefndar að forsendur séu brostnar fyrir samþykki á umræddu kattahaldi gagnaðila að X.
2. Kærunefnd telur að álitsbeiðendur eigi kröfu til þess að haldinn verði húsfundur, þar sem kattahald gagnaðila verði borið upp til samþykktar eða synjunar á grundvelli 13. tl. A-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994.
Reykjavík, 8. september 1995.
Valtýr Sigurðsson
Ingólfur Ingólfsson
Karl Axelsson