Innanríkisráðherraflutti ávarp í tengslum við opnun sýningar um kjarnorkuárásirnar á Hírósíma ogNagasaki
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarpaði síðdegis í gær gesti við athöfn í Listasafni Reykjavíkur, í tengslum við opnun fræðslu- og ljósmyndasýningar um kjarnorkusprengjurnar sem varpað var á Hírósíma og Nagasaki árið 1945 og afleiðingar þeirra. Sýningin er haldin í Borgarbókasafni Reykjavíkur við Tryggvagötu og eru þar sýndir munir frá atburðunum, ljósmyndir og fræðsluefni.
Innanríkisráðherra, sem flutti ávarp fyrir hönd utanríkisráðherra, minnti á að nú væru 67 ár frá því kjarnorkusprengjunum var varpað á Hírósíma og Nagasaki. „Það er ekki langt síðan. Einhvern veginn finnst manni að þessi hræðilegi og glæpsamlegi gjörningur eigi að vera hluti af fjarlægri fortíð. En á sama tíma skulum við gæta þess að hann hverfi aldrei í gleymskunnar dá. Kjarnorkuárásirnar á Hírósíma og Nagasaki eiga alltaf að fylgja okkur – vera hluti af nútíðinni.“
Ögmundur benti á að sýningunni, sem nú væri opnuð, væri ekki aðeins ætlað að votta þeim virðingu sem létu lífið eða lifðu af, heldur ætti hún að vera okkur og komandi kynslóðum áminning um að það sem gerðist í Hirósíma og Nagasaki fyrir 67 árum mætti aldrei gerast aftur.
Við athöfnina sagði Inosuke Hayasaki, 81 árs gamall Japani, sem lifði af kjarnorkusprenginguna í Nagasaki frá lífsreynslu sinni og eftirleiknum. Einnig fluttu Masayuki Takashima, sendiherra Japans á Íslandi, og Masanobu Chita, forstjóri Nagasaki minningasafnsins(The Nagasaki National Peace Memorial Hall for the Atomic Bomb), erindi. Auður Hauksdóttir, dósent og stjórnarformaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við HÍ, stýrði athöfninni.
- Sjá nánar um sýninguna í Borgarbókasafni Reykjavíkur
- Vefur The Nagasaki National Peace Memorial Hall for the Atomic Bomb Victims