Nýr vígslubiskup fær skipunarbréf
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra afhenti í morgun sr. Solveigu Láru Guðmundsdóttur, nývígðum vígslubiskupi á Hólum, skipunarbréf í embættið á skrifstofu vígslubiskups í Auðunarstofu. Viðstaddur var sr. Jón Aðalsteinn Baldvinsson, fráfarandi vígslubiskup, en sr. Solveig Lára tekur formlega við embættinu um næstu mánaðamót.
Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, vígði Solveigu Láru í Hóladómkirkju í gær að viðstöddu fjölmenni. Meðal viðstaddra voru forseti Íslands, innanríkisráðherra, innlendir biskupar og nokkrir erlendir biskupar og fjöldi presta. Tóku hinir erlendu biskupar þátt í athöfninni auk íslensku biskupanna, svo og prestum og leikmönnum.
Kirkjukór Hóladómkirkju og Kirkjukór Möðruvallaklaustursprestakalls sungu við athöfnina. Flutti síðarnefndi kórinn lag Benedikts Hermanns Hermannssonar, sonar sr. Solveigar Láru, við erindi úr Sólarljóðum. Við vígsluna var hinn nývígði vígslubiskup íklædd endurgerð af biskupskápu Jóns Arasonar sem fráfarandi vígslubiskup og kona hans gáfu kirkjunni árið 2007.
Í hátíðarkaffi og samsæti um kvöldið ávörpuðu fjölmargir gestir hinn nývígða biskup. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra færði sr. Solveigu Láru og manni hennar, sr. Gylfa Jónssyni, árnaðaróskir um leið og hann þakkaði sr. Jóni Aðalsteini Baldvinssyni og Margréti Sigtryggsdóttur fyrir þjónustu þeirra undanfarin ár.