Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2022

Þörf talin fyrir Covid-19 vottorðin fram á næsta ár

Að þessu sinni er fjallað um:

  • heimsókn utanríkisráðherra til Brussel í vikunni
  • nýjan vinnuhóp sem fjallar um Covid-19 vottorðin
  • breytingar á tilmælum um komu frá 3ju ríkjum
  • fyrirhugaða vottun vegna kolefnisbindingar
  • fund heilbrigðisráðherra ESB sem fulltrúum EFTA-ríkjanna var einnig boðið til
  • heimsókn þingmanna
  • námskeið EFTA-skrifstofunnar um EES-samninginn sem er nú aðgengilegt á vef

Hagsmunir Íslands í brennidepli í heimsókn utanríkisráðherra

Samstarf á vettvangi EES, viðskiptamál og pólitískt samráð um alþjóðamál voru meðal umræðuefna á fundum Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra með fulltrúum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) í vikunni.

„Aðild Íslands að EES-samningnum hefur fært Íslendingum ótvíræðan ávinning á undanförnum áratugum. Aðgangur okkar að 450 milljóna markaðssvæði er ákaflega mikilvægur, en við það bætist margvíslegt annað samstarf sem Íslendingar og aðrir íbúar á EES svæðinu njóta góðs af. Það er auðvitað mikilvægt að eiga góð og uppbyggileg samskipti milli samningsaðila og ég verð vör við velvilja í garð EES samstarfsins hjá þeim sem ég hef hitt. Á fundum mínum hef ég lagt mikla áherslu á tollfrelsi í viðskiptum með sjávarfang og lagði einnig áherslu á þýðingu þess að efla virkt samráð um utanríkispólitísk málefni, til dæmis á sviði alþjóðlegra þvingunaraðgerða. Við höfum nú þegar fundið fyrir auknum skilningi á þessu sjónarmiði,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Þórdís Kolbrún fundaði á miðvikudag með Maros Šefčovič, varaforseta framkvæmdastjórnar ESB sem fer m.a. með málefni EES-samningsins. Auk framkvæmdar samningsins var sérstaklega rætt um áhrif mikilvægra stefnumála á borð við Græna sáttmálann og Stafræna starfsskrá ESB á innri markaðinn og sameiginleg markmið Íslands og ESB. Auk þess var farið yfir undirbúning viðræðna um nýtt samningstímabil Uppbyggingarsjóðs EES. Í því sambandi tók ráðherra sérstaklega upp málefni sem snúa að fríverslun með sjávarafurðir og endurskoðun samnings um viðskipti með landbúnaðarafurðir. Ótryggt ástand í öryggismálum í Evrópu bar einnig á góma og lagði ráðherra áherslu á mikilvægi samráðs við Ísland og hin EFTA-ríkin í EES  þegar kæmi að aðgerðum eins og viðskiptalegum þvingunaraðgerðum.

Á fimmtudag átti utanríkisráðherra svo fund með Valdis Dombrovskis, framkvæmdastjóra viðskiptamála. Á fundinum var rætt um viðskipti Íslands og ESB og hugmyndir Íslands um endurskoðun á núverandi viðskiptaumhverfi, einkum fyrir sjávarafurðir auk þess sem vikið var að endurskoðun samningsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

„Að undanförnu höfum við sótt á um bættan aðgang fyrir sjávarafurðir inn á Evrópu, bæði til að bregðast við breyttum þörfum markaðarins en einnig til að tryggja okkur í samkeppni gagnvart öðrum þjóðum. Ég ítrekaði afstöðu okkar um að tímabært sé að hefja alvarlegar viðræður um fulla fríverslun með sjávarafurðir jafnframt því að leysa þyrfti úr þeim atriðum sem tengjast viðskiptum með landbúnaðarvörur“, sagði Þórdís Kolbrún.  

Einnig átti ráðherra fund með framkvæmdastjóra landbúnaðarmála, Janusz Wojciechowski, þar sem rætt var um stöðu og framkvæmd gildandi samnings Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur og endurskoðun hans.

Í ferðinni kynnti ráðherra sér einnig starfsemi EFTA-skrifstofunnar, Eftirlitsstofnunar EFTA og skrifstofu Uppbyggingarsjóðs EES, í EFTA-húsinu. Tóku forstöðumenn stofnananna á móti henni og ræddu þau helstu mál á vettvangi EES-samstarfsins og í starfsemi stofnananna. Auk þessi heimsótti hún sendiráðið, heilsaði upp á starfsmenn þess og fundaði með sendiherra.

Lagt til að framlengja gildistíma reglna um stafræn vottorð

Fyrr í vikunni var boðað til fundar í vinnuhópi hjá ráðherraráði ESB sem fær það verkefni að endurskoða reglur um starfrænu Covid-19 vottorðin.  Fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins á aðild að hópnum.

Það var 14. júní 2021 sem ráðherraráðið og þingið samþykkti reglugerð 2021/953 um útgáfu Covid -19 vottorðanna og  2021/954 um útvíkkun á notkun vottorðanna fyrir lönd utan Shengen/EU svæðisins. Gerðirnar renna út 30. júní n.k., þ.e. sumrarið 2022, að óbreyttu. Ekki er talið skynsamlegt að láta reglurnar renna sitt skeið því erfitt er að sjá fyrir um þróun faraldursins næstu mánuðina. M.a. minnast menn  áhrifa Delta afbrigðisins sem setti allt á hliðina sl. sumar og haust. Þá tekur langan tíma, a.m.k. fjóra mánuði að setja slíkar reglur að nýju sem þurfa samþykkt þingsins og ráðsins  og koma þarf þeim í framkvæmd. Í ljósi þessa er lagt  til að gildistími regluverksins og þar með vottorðanna verði framlengdur um ár eða til 30. júní 2023 en þó með það í huga að vottorðin og takmarkanirnar sem þeim fylgja verði lögð af um leið og staða faraldursins gefur tilefni til.

Auk þess eru lagðar til tvær breytingar á reglunum sem auðvelda ferðalög fólks á milli landa. Annars vegar að fjölga þeim tegundum prófa sem geta verið grundvöllur Covid-19 vottorða. Nú eru heimilaðar tvær tegundir prófa:  NAAT próf, þ.m.t. RT-PCR og Rapid Antigen Tests en engin önnur antigen próf eins og ELISA. Gert er ráð fyrir að heimila þau próf sem Health Security Committee ( HSC) samþykkir og uppfylla tiltekin skilyrði.  Nefndin mun gefa út lista með heimiluðum tegundum prófa.

Hins vegar að einstaklingar sem taka þátt í rannsóknum (clinical trials) á bóluefnum fái útgefin vottorð. Gert er ráð fyrir að það hjálpi til við að fá fólk til að taka þátt  svo mikilvægum  rannsóknum, en bóluefnin hafa sýnt sig vera besta vörnin gegn Covid sjúkdómnum. Í þessu sambandi var bent á mögulega ógn af hópnum sem fær lyfleysu (placebo) í slíkum rannsóknum.

Stefnt er að því að ljúka þessari vinnu sem fyrst.

Breytingar á tilmælum um komur frá 3ju ríkjum

Hinn 25. nóvember 2021 lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu að breytingum á tilmælum ráðsins nr. 2020/912 um tímabundnar takmarkanir á ónauðsynlegum ferðum yfir ytri landamæri ESB/Schengen og hugsanlegri afléttingu þeirra takmarkana. Ákveðið var að fresta afgreiðslu tillagnanna vegna Ómíkron afbrigðisins. Undanfarnar vikur hafa Frakkar sem fara með formennsku í ráðherraráðinu leitað málamiðlunar sem felur í sér eftirfarandi:

  • Þröskuldur fyrir smitstuðul á undanförnu 14 daga tímabili er hækkaður úr 75 í 100 á hverja 100.000 íbúa. Vikulegt sýnatökuhlutfall verður hækkað úr 300 í 600 á hverja 100.000 íbúa.
  • Bólusetning með bóluefnum sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur samþykkt verður einnig metin gild með þeim fyrir vara þó að aðildarríki geti krafist þess að viðkomandi framvísi einnig PCR prófi. Einnig má krefjast PCR prófs frá einstaklingum, óháð því hvaða bóluefni þeir hafa fengið, hafi þeir ekki gilt Digital Covid Certificate (DCC) meðferðis eða annað sambærilegt vottorð og jafnframt frá einstaklingum með vottorð um fyrri sýkingu.
  • Almennt er för óbólusettra einstaklinga í ónauðsynlegum tilgangi ekki heimil, nema þeir framvísi vottorði um að læknisfræðilegar ástæður liggi þar að baki og eins ef þeir eru með vottorð um fyrri sýkingu, yngra en 180 daga við brottför
  • Börn eldri en 6 ára og yngri en 18 ára geta ferðast með því að framvísa PCR prófi séu þau ekki bólusett.
  • Tilmælin verða endurskoðuð að nýju þann 30. apríl til að meta hvort tilefni sé til að byggja einungis á persónubundu mati og hætta þ.a.l. með sérstakan landalista sem undanskilur ákveðin ríki ferðatakmörkunum.

Tilmælin voru rædd á meðal sendiherra þann 16. febrúar sl. og samþykkt með meirihluta samþykki aðildarríkja. Ísland kom á framfæri þeim sjónarmiðum að ganga ætti lengra við að byggja á persónubundinni nálgun og tilmælin væru heldur ströng, að teknu tilliti til meðalhófs og þess að reynslan hafi sýnt að ferðatakmarkanir hafi haft litla sem enga þýðingu við að takmarka útbreiðslu faraldursins. Þá væri Ísland einnig á þeirri skoðun að heimila ætti óbólusettum einstaklingum frá 3ju ríkjum að ferðast, framvísi þeir PCR prófi. Þá var einnig ítrekað það sjónarmið, sem Ísland hefur lagt áherslu á frá upphafi, að mikilvægt væri að aðildarríki hefðu heimild til að ákveða eigin sóttvarnaraðgerðir á landamærum, teldust þær nauðsynlegar af heilbrigðisástæðum. Einnig var vísað til sérstöðu Íslands hvað varðar landfræðilega legu.  

Vottun vegna kolefnisbindingar – samráð

Til þess að ná markmiðum um kolefnishlutleysi þarf að þróa lausnir til að fjarlægja CO2 úr andrúmsloftinu og binda það varanlega í jörðu eða hafi án þess að valda tjóni á vistkerfum. Stefnt er að því að um miðja öldina muni bæði náttúrulegir ferlar og iðnferlar leiða til þess að hundruð milljóna tonna séu bundin á ári. Sem stendur stefnir ekki í að þessi markmið náist. Undanfarin ár hefur dregið úr bindingu með náttúrulegum hætti og iðnferlar eru óverulegir að umfangi. Meiriháttar hindrun í þessu sambandi er skortur á sameiginlegu ESB-viðmiði um hvað séu sjálfbærar aðferðir í þessu efni. Vottun er ekki einföld vegna þess að hætta er á að koltvíoxíð sleppi aftur út í andrúmsloftið auk þess sem mælingar og eftirlit með árangri er ekki einfalt. Þá getur þurft að beita mismunandi mælikvarða eftir því hvort binding er í náttúrulegu ferli eða iðnferli. Samráð af framkvæmdastjórnar ESB um væntanlegar reglur hófst 7. febrúar sl. og stendur fram í maí: https://ec.europa.eu/info/law/better-regulation/have-your-say/initiatives/13172-Certification-of-carbon-removals-EU-rules_en

Aukið samstarf um lýðheilsu

Óformlegur fundur heilbrigðisráðherra ríkja Evrópusambandsins undir formennsku Frakka í ráðherraráði ESB var haldinn í Grenoble 10. febrúar sl. Heilbrigðisráðherrum Íslands, Noregs og Sviss var einnig boðið á fundinn. Fyrir hönd Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra sótti Ásta Valdimarsdóttir ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins fundinn og fulltrúi ráðuneytisins í Brussel.

Dagskrá fundarins var tileinkuð umræðu um framtíð “Public Health Union”,  þörfinni fyrir áframhaldandi samstarfi á svið heilbrigðismála og hvað ESB gæti lagt að mörkum til að koma til móts við bætta lýðheilsu jafnt innan sambandsins sem utan þess. Heimsfaraldurinn hefur beint kastljósinu að mikilvægi heilbrigðismálanna og að styrkja þurfi heilbrigðiskerfi ríkjanna til að þau verði betur í stakk búin til að bregðast við faröldrum framtíðar sem ógna heilbrigði þjóða. Ýmislegt hefur áunnist en gera þarf betur. Olivier Véran heilbrigðisráðherra Frakka opnaði fundinn og gaf tóninn  þegar hann sagði „Health is the heart of Europe“  sem útleggja má  “heilbrigt fólk er hjartað í Evrópu” þó þannig að virða þyrfti sjálfsákvörðunarrétt þjóðanna (respect national prerogative).

Á fundinum var rætt um þau verkfæri sem ESB hefur komið sér upp til að takast á við faraldra á borð við Covid-19. Þar gegnir lykilhlutverki ný Evrópuskrifstofa neyðarviðbúnaðar og viðbragða vegna heilsuógnar (HERA), sem tók til starfa í byrjun ársins. Hlutverk skrifstofunnar er meðal annars að sjá fyrir og undirbúa komu heilsuvár og tryggja aðgengi að nauðsynlegum bóluefnum, lyfjum og lækningabúnaði með birgðahaldi og innkaupum. Þá fær hún einnig heimildir til sameiginlegra innkaupa eins og bóluefnum þegar þörf kallar. Ísland óskar að fá aðild að skrifstofunni og taka þátt í starfsemi hennar. Ekki liggur fyrir hvort og hvernig það verður gert. Í innleggi á fundinum notaði Ísland tækifærið til að koma sjónarmiðum sínum að í þessu samhengi.

Í frétt um fundinn er tekið fram að halda verði áfram því farsæla og öfluga samstarfi og samstöðu sem einkennt hafi vinnuna innan  Evrópusambandsins síðast liðin tvö ár í baráttunni við heimsfaraldurinn. Standa verði vörð um heilbrigði íbúanna. Sérstök áhersla er lögð á sjaldgæfa sjúkdóma, baráttuna við krabbamein og sýklalyfjaónæmi og geðheilbrigðismál þar sem gera má betur. Þörf sé á þverfaglegri nálgun þar sem lögð er áhersla á að flétta heilbrigði/lýðheilsu inn í stefnumörkun á öðrum sviðum samfélagsins en sviði heilbrigðismála.

Þingmenn á ferð

Það er óhætt að segja að mjög hafi dregið úr ferðum milli Reykjavíkur og Brussel síðustu tvö árin. Það voru því ánægjuleg teikn um að nú færi að rofa til þegar hópur þingmanna kom í heimsókn á dögunum. Var þar um að ræða þingmannanefnd EFTA og EES, en í henni eru Ingibjörg Isaksen, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Diljá Mist Einarsdóttir. Mánudaginn 7. febrúar fengu þær m.a. kynningu á störfum sendiráðsins og helstu áherslum við hagsmunagæslu af Íslands hálfu.  Í kjölfarið tók sendinefndin þátt í fundi þingmannanefndar EFTA.

EES-námskeið nú aðgengilegt á vef

Tvisvar á ári heldur EFTA-skrifstofan námskeið um EES-samstarfið. Að þessu sinni var námskeiðið bæði opið fyrir staðarþátttöku og fjarfundarform. Þar var meðal annars fjallað um áhrif EFTA-ríkjanna á löggjöf ESB sem er í mótun, upptöku löggjafar í EES-samninginn og eftirlit með framkvæmda hans. Upptaka er nú aðgengileg á vef EFTA-skrifstofunnar, sjá https://www.efta.int/ og https://www.youtube.com/watch?v=VUNj7GAIaOc

 

***

Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta