Hoppa yfir valmynd
22. júní 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 241/2022 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 241/2022

Miðvikudaginn 22. júní 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 6. maí 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. maí 2022 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn 26. mars 2022. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 3. maí 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. maí 2022. Með bréfi, dags. 10. maí 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 23. maí 2022, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að samkvæmt úrskurði Tryggingastofnunar sé talið að endurhæfing sé ekki fullreynd. Kærandi hafi farið í sína fyrstu endurhæfingu hjá B árið 2009 en hafi verið rekinn þaðan eftir nokkra mánuði fyrir fíkniefnaneyslu. Seinna hafi kærandi farið í endurhæfingu hjá C, hafi klárað þar þrjár annir og hafi svo farið á vinnumarkaðinn í sjö ár.

Árið 2019 hafi kærandi brunnið út í vinnu og hafi tekið sér frí frá vinnu, hann hafi sótt um á D til að vinna með áfallastreitu en D hafi hafnað umsókninni. Veikindaréttur kæranda hafi klárast, […] sem hafi kippt undan honum fótunum og eftir það hafi hann orðið mjög veikur andlega. Kæranda hafi verið sagt upp vinnu þar sem hann hafi ekki stundað hana vegna andlegs ástands. Síðan hafi kærandi farið í endurhæfingu hjá VIRK en fyrstu mánuðina hafi hann verið tekjulaus og vegna þess hafi hann verið mjög kvíðinn í tvo mánuði og átt erfitt með að mæta í endurhæfinguna en stundum hafi hann ekki átt fyrir strætó. Þegar kærandi hafi fengið sína fyrstu greiðslu og hafi séð fram á að geta stundað sína endurhæfingu hafi hann verið rekinn frá VIRK og hafi misst endurhæfingarlífeyrinn.

Kærandi hafi aftur sótt um endurhæfingu hjá VIRK en þar sem hann sé virkur fíkill fái hann ekki neina endurhæfingu hjá VIRK.

Í rúmt ár hafi kærandi verið á fjárhagsaðstoð sem sé 170.000 kr. á mánuði og hann borgi 120.000 kr. í leigu. Kærandi sé við það að missa húsnæðið, hann skrimmti varla og eigi ekki fyrir mat alla mánuði en fái aðstoð frá „E“ eða útvegi sér mat með öðrum leiðum. Peninga- og framtaksleysi hafi verið það slæmt að það hafi tekið kæranda sex mánuði að komast til heimilislæknis. En andlegt ástand, félagsleg staða og orka hindri kæranda í að stunda einhvers konar endurhæfingu eða vera mættur eitthvert á ákveðnum tímum.

Mikill kvíði/félagskvíði og þunglyndi ásamt fíknivanda sé eitthvað sem kærandi hafi þurft að eiga við frá 13-14 ára aldri og hafi hann eytt stórum hluta ævinnar á stofnunum, í endurhæfingu, á áfangaheimilum og stundað allskonar sjálfshjálp.

Kærandi skilji ekki af hverju hann eigi minni rétt á örorkumati en hver annar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun frá 3. maí 2022 þar sem kæranda hafi verið synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með þeim rökum að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Ágreiningur málsins lúti að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Tryggingastofnun krefjist staðfestingar á ákvörðun sinni um að synja kæranda um örorkumat.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eigi þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir séu til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar meti Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sæki um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Í 1. og 2. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð segi:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna.“

Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt, til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti, sbr. 51. gr. laga um almannatryggingar, þar sem segi að bætur, sem ætlaðar séu bótaþegum sjálfum, greiðist ekki ef hlutaðeigandi vanræki að fara að læknisráðum eða neiti að hlíta fyrirmælum um þátttöku í þjálfun eða starfsnámi sem bætt gæti afkomu hans eða búið hann undir nýtt starf.

Kærandi hafi fyrst sótt um endurhæfingarlífeyri í lok árs 2010 og hafi í framhaldinu fengið endurhæfingartímabil samþykkt með bréfi, dags. 11. janúar 2011. Kærandi hafi síðan þá þegið endurhæfingarlífeyri, með hléum, í samtals 25 mánuði, síðast í júlí 2021. Kærandi hafi því ekki lokið rétti sínum til greiðslu endurhæfingarlífeyris samkvæmt 1. og 2. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Langt hlé hafi þó verið á endurhæfingu frá lokum tímabilsins 1. apríl 2015 til 31. júlí 2015, sbr. ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 19. febrúar 2015, þar til umsókn um endurhæfingarlífeyri hafi verið samþykkt á ný þann 2. júní 2021 og hafi niðurstaðan þá verið sú að meta endurhæfingartímabil í þrjá mánuði út frá fyrirliggjandi gögnum.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með umsókn, dags. 26. mars 2022. Þeirri umsókn hafi verið synjað með bréfi, dags. 3. maí 2022, með þeim rökum að ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kærandi hafi óskað eftir frekari rökstuðningi á þeirri ákvörðun, dags. 4. maí 2022. Synjun umsóknar kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, dags. 3. maí 2022, hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 6. maí 2022, og hafi úrskurðarnefnd velferðarmála óskað eftir greinargerð frá stofnuninni, dags. 10. maí 2022.

Við mat á umsóknum um örorkulífeyri styðjist tryggingalæknir við þau gögn sem liggi fyrir hverju sinni. Við örorkumat þann 3. maí 2022 hafi legið fyrir umsókn um örorkulífeyri, dags. 26. mars 2022, læknisvottorð, dags. 22. apríl 2022, ásamt svörum kæranda við spurningalista vegna færniskerðingar, dags. 10. apríl 2022, þjónustulokaskýrsla, dags. 25. júní 2021, og frávísunarbréf frá VIRK, dags. 6. janúar 2022. Þá hafi einnig verið til staðar eldri gögn vegna fyrri umsókna kæranda um endurhæfingarlífeyri.

Í læknisvottorði, dags. 22. apríl 2022, komi fram að kærandi sé greindur með áfallastreituheilkenni, kvíða- og þunglyndisröskun, félagsfælni, ofvirkni og athyglisbrest, fíkniheilkenni af völdum kannabisefna og axlarmeinsemdir. Þá segi nánar um heilsuvanda kæranda að hann sé X ára gamall karlmaður með kvíðaeinkenni, þunglyndi og líklega áfallastreituröskun. Auk þess segi að kærandi sé greindur með athyglisbrest og ofvirkni. Þá segi að kærandi hafi sögu um misnotkun fíkniefna en noti nú einungis kannabis og að honum hafi tvívegis verið vísað frá VIRK. Að lokum segi að kærandi hafi verið óvinnufær frá 1. febrúar 2021 en að búist sé við að færni aukist með tímanum.

Við örorkumatið hafi legið fyrir spurningalisti, dags. 10. apríl 2022, með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi hafi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína, dags. 26. mars 2022. Kærandi lýsi heilsuvanda sínum þannig að hann eigi stundum erfitt með að setjast niður, standa upp, beygja sig og ganga vegna brjóskloss. Þá segist kærandi einnig glíma við þunglyndi, kvíða sem og framtaks- og skipulagsleysi.

Í þjónustulokaskýrslu VIRK, dags. 25. júní 2021, segi að meginástæður óvinnufærni séu geð- og atferlisraskanir af völdum notkunar lyfja og annarra geðvirkra efna sem og truflun á virkni og athygli. Þá segi að kærandi þjáist auk þess af geðlægðarlotum, taugaóstyrk, mikilli streitu og aðlögunarröskunum. Hvað varði þjónustuferil kæranda hjá ráðgjafa VIRK segi að kærandi hafi ekki verið í virku sambandi við meðferðaraðila hjá VIRK á tímabilinu, hafi ekki mætt í skipulagða tíma og ekki látið vita af sér. Að mati VIRK hafi kærandi ekki virst vera tilbúinn í starfsendurhæfingu á þeirra vegum og hafi meðferð hans þar því verið lokið og honum vísað á heilbrigðiskerfið.

Samkvæmt bréfi frá VIRK, dags. 6. janúar 2022, hafi kærandi ekki verið talinn uppfylla skilyrði fyrir þjónustu VIRK þar sem hann hafi ekki skilað niðurstöðum úr fíkniefnaprófi að ósk VIRK. Hafi beiðni kæranda um að hefja starfsendurhæfingu hjá VIRK að nýju því verið hafnað.

Tryggingastofnun hafi ekki talið tilefni til þess að fá álit skoðunarlæknis vegna umsóknar kæranda um örorkulífeyri, dags. 3. maí 2022, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Hafi kærandi því ekki verið boðaður í viðtal hjá skoðunarlækni.

Í athugasemdum með kæru hafi kærandi rakið endurhæfingarsögu sína. Þar segist kærandi hafa farið fyrst í endurhæfingu árið 2009 hjá B en að honum hafi verið gert að hætta vegna fíkniefnaneyslu. Nokkru síðar hafi hann skráð sig í endurhæfingu hjá C og hafi klárað þrjár annir þar. Sú endurhæfing hafi gert honum kleift að fara út á vinnumarkað og halda vinnu í sjö ár. Árið 2019 hafi kærandi farið í veikindaleyfi vegna kulnunar og hafi verið sagt upp eftir að hann hafi lokið veikindarétti sínum. Árið 2021 hafi kæranda verið vísað frá VIRK vegna þátttökuleysis hans í starfsendurhæfingu. Árið 2022 hafi beiðni kæranda um að hefja á ný starfsendurhæfingu hjá VIRK verið hafnað þar sem kærandi hafi ekki skilað niðurstöðum úr fíkniefnaprófi.

Fyrir liggi að kærandi búi við ýmis vandamál af andlegum toga. Svo virðist sem fíkniefnaneysla kæranda hafi komið í veg fyrir að hann ynni á þeim vanda. Endurhæfing kæranda hafi þó áður skilað árangri og að mati Tryggingastofnunar sé ekki útilokað að hún geri það aftur. Kærandi geti því hvorki talist búa við skerta færni til langframa né vera ómeðferðartækur nema vegna viðhorfs síns til eigin vanda. 

Með hliðsjón af framangreindu sé það mat Tryggingastofnunar að starfsendurhæfing sé ekki fullreynd eins og ástandi kæranda sé háttað. Tryggingastofnun telji því rétt að synja umsókn kæranda um örorku, án undangenginnar læknisskoðunar og krefjist staðfestingar á þeirri ákvörðun.

Tryggingastofnun leggi sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skipti máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfi Tryggingastofnun til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst sé í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Telji Tryggingastofnun það því vera í fullu samræmi við öll gögn málsins að synja kæranda um örorkulífeyri, að svo stöddu, þar sem talið sé að enn sé hægt að vinna með heilsufarsvanda kæranda. Sé þá horft til þess hvers eðlis heilsufarsvandi kæranda sé og litið til þeirra endurhæfingarúrræða sem möguleg séu. Kærandi hafi nýtt sér þrjá mánuði af rétti sínum til endurhæfingarlífeyris en heimilt sé að greiða slíkan lífeyri samhliða endurhæfingu í allt að 36 mánuði, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í því sambandi vilji Tryggingastofnun einnig taka fram að mat á því hvort endurhæfing sé fullreynd miðist við læknisfræðilegar forsendur endurhæfingarinnar en ekki önnur atriði eins og til dæmis framfærslu kæranda, búsetu eða aðrar félagslegar aðstæður hans eða það hvort viðkomandi uppfylli ekki einhver önnur skilyrði endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni. Það sjónarmið hafi einnig verið staðfest í mýmörgum úrskurðum úrskurðarnefndarinnar eins og til dæmis í málum nr. 20/2013, 33/2016, 352/2017 og 261/2018.

Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðslan á umsókn kæranda, þ.e. að synja umsókn hans um örorkulífeyrisgreiðslur með þeim rökum að endurhæfing sé ekki fullreynd, sé rétt. Sú niðurstaða sé byggð á faglegum sjónarmiðum sem og gildandi lögum og reglum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. maí 2022 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð F, dags. 22. apríl 2022. Í vottorðinu er greint frá eftirfarandi sjúkdómsgreiningum:

„ACUTE STRESS/TRANS/SITUAT DISTURB

SOCIAL PHOBIAS

MIXED ANXIETY AND DEPRESSIVE DISORDER

DISTURBANCE OF ACTIVITY AND ATTENTION

FÍKNIHEILKENNI AF VÖLDUM KANNABISEFNA

AXLARMEINSEMDIR“

Um heilsuvanda og færniskerðingu nú segir í vottorðinu:

„XX ára maður sem fékk viss burn-out einkenni 2020 og hætti að vinna vegna einkenna. Var vísað þá til Virk, sem hann náði ekki að klára, var vísað frá. Reyndi eitthvað að vinna stopult en ekker unnið frá feb 2021. Kvíðaeinkenni og þunglyndi, ekki sjálfsvígshugsanir. Líklegast til PTSD frá því í æsku. Var misnotaður kynferðislega og líkamlega frá ungaaldri og fram á unglingsár. Fíknisaga um notkun áfengis og örvandi efna, en hættur því nú að virðist en ekki náð að halda sig alveg frá kannabis. Er með ADHD greiningu og hefur verið hjá G geðlækni. Hefur verið að nota lyfið Elvanse og af og til Sobril til að grípa í. Var á esopram en fannst það ekki gagnast sér. Finnur einnig fyrir félagskvíða og á erfitt með að halda rútínu eins og t.d. að mæta í líkamsrækt eða félagstarf vegna þessa.

Var hjá Virk fyrri hluta síðasta árs -var rekinn að lokum úr prófgramminu síðasta haust -er að fá sér af og til kannabis, hefur átt erfitt með að halda sér edrú og gat því ekki sýnt fram á hreint fíkniefnapróf Fékk sendan þjónustulokasamning frá Virk, höfnuðu honum í síðustu umsókn

-Ekki búinn að vinna síðan ca feb 2021 -Verið með einhverja lágmarksframfærslu frá H.

-Einnig hæ axlareinkenni,. með AC luxation á rtg -var tilv. til orthopeds, sé ekki hvort hefur farið enn.“

Lýsing læknisskoðunar er svohljóðandi í vottorðinu:

„Edrú og kemur þokkalega vel fyrir, grannur og nokkuð fölur. Kvíðabragur og dempað geðslag ogg viss uppgjöf í bragði.“

Í vottorðinu segir að kærandi hafi verið óvinnufær frá 1. febrúar 2021 og að búast megi við að færni geti aukist með tímanum. Í athugasemdum segir:

„Vísað frá Virk í tvígang -ég tel hann fyllilega óvinnufæran nú í bili, endurmat e. ár.“

Einnig liggur fyrir læknisvottorð I, dags. 30. mars 2021, vegna umsóknar kæranda um endurhæfingarlífeyri. Í vottorðinu er greint frá eftirfarandi sjúkdómsgreiningum:

„Acute stress/trans/situat disturb

Mixed anxiety and depressive disorder

Social phobias

Lyf/ efni, geðvirk, vandamál / fíkn“

Í sjúkrasögu segir:

„XX árs hraustur kk, saga um fíknivanda og farið í meðferð á J. Engin neysla sl árið. Fór í veikindaleyfi vegna burnout og kvíða/þunglyndi á síðasta ári í hálft ár. Byrjaði í endurhæfingu hjá VIRK sl haust (búinn með 6 mánuði) og gengið vel, mætt í sálfræðitíma og verið að mæta á námskeið, nú á dale carnegie og streitufræðslunámskeið. Byrjaði að vinna á K sl áramót, tekið vaktir þar samhliða endurhæfingunni. Finnst það trufla sig, vaktir þar og námskeið skarast á og hann ekki getað einblínt á endurhæfinguna að hans sögn. Ætlar því að hætta í vinnunni og einblína á endurhæfinguna fram á sumar/haust og þá stefnir hann að því að byrja að vinna aftur.“

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar, sem kærandi lagði fram með umsókn sinni um örorkumat, svaraði hann spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni. Í lýsingu á heilsuvanda nefnir kærandi stoðkerfi, áfallastreitu, geðræn vandamál og útbruna. Af svörum kæranda verður ráðið að hann eigi erfitt með ýmsar daglegar athafnir sökum verkja og auk þess kemur fram að kærandi sé með sjónskekkju og hafi fengið störuflog. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi við geðræn vandamál að stríða með því að tilgreina þunglyndi, oflæti, kvíða, framtaks- og skipulagsleysi.

Í bréfi VIRK, dags. 6. janúar 2022, til L læknis, segir:

„Einstaklingur afþakkar þjónustu VIRK.

Beiðni um starfsendurhæfingu fyrir A er vísað frá. Umsókn A var tekin fyrir þann 15.12.21 og var ákveðið að óska eftir fíkniefnaprófi frá heilsugæslu til að sýna að ekki sé um neyslu að ræða. Ástæða þessa var fyrri saga um neyslu og vanda tengdum henni. Þar sem einstaklingur hefur ekki skilað umbeðnum gögnum er litið svo á að hann afþakki þjónustu VIRK á þessum tímapunkti.“

Í þjónustulokaskýrslu VIRK, dags. 25. júní 2021, segir um þjónustuferil hjá ráðgjafa:

„Samstarf á vettvangi Virk 10/20-06/21. Viðtöl hjá sálfr. 12/20-02/21, stuðningur ráðgjafa Virk. Hindranir andleg líðan.

Einstaklingur var í veikindaleyfi hjá M 04-12/20, reyndi endurkomu í starf í K 01- 03/21, fór þá aftur í veikindaleyfi (eða hætti).

Einstaklingur hefur ekki náð að vera í virku sambandi við meðferðaraðila eða ráðgjafa Virk á tímabilinu.

Boðið stöðumat hjá sálfræðingi Virk 04/21, mætti ekki 05/21 eða 06/21 og lét ekki vita.

Mál skoðað hjá Rýniteymi Virk og eftirfarandi bókað: Samstarf við einstakling frá 10/2020. Ekki hefur náðst upp reglufesta í samstarfi, mætingar stopular í sálfræðivinnu og stuðningi hjá Virk, einstaklingur virðist ekki tilbúinn í starfsendurhæfingu. Líðan slæm, sveiflur í virkni og tilfinningum. Einst. boðið stöðumat sálfr. Virk, mætti ekki í boðuð viðtöl. M.v. þessa stöðu er ekki hægt að veita einstaklingu stuðning á vettvangi Virk. Máli vísað til tilv. læknis, einstaklingur þarf frekari greiningar og meðferð í heilbrigðiskerfi.

Með vísan til framangreinds eru ekki tilefni til að halda máli opnu á vettvangi Virk.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá heimilislækni um þau endurhæfingarúrræði sem væru í boði.

Fyrir liggur að kærandi býr við vandamál af geðrænum toga og að hann hefur verið í endurhæfingu á vegum VIRK í þrjá mánuði á árinu 2021 sem endaði með því að honum var vísað frá VIRK. Auk þess var kærandi í endurhæfingu á árunum 2014 og 2015 og eftir það tímabil fór hann aftur út á vinnumarkaðinn. Í læknisvottorði F, dags. 22. apríl 2022, kemur fram að kærandi hafi verið óvinnufær frá 1. febrúar 2021 og að búast megi við að færni aukist með tímanum. Einnig er greint frá því í vottorðinu að kæranda hafi verið vísað frá VIRK þar sem hann hafi ekki getað sýnt fram á hreint fíkniefnapróf. Í bréfi VIRK, dags. 6. janúar 2022, segir að beiðni um starfsendurhæfingu kæranda hafi verið vísað frá þar sem kærandi hafi ekki skilað umbeðnum gögnum. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af framangreindu að starfsendurhæfing hjá VIRK sé fullreynd en ekki verður dregin sú ályktun af bréfi VIRK og framangreindu læknisvottorði að ekki sé möguleiki á endurhæfingu á öðrum vettvangi. Þá verður ekki ráðið af eðli veikinda kæranda að frekari endurhæfing geti ekki komið að gagni. Einnig liggur fyrir að kærandi hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun í þrjá mánuði á þessu endurhæfingartímabili en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. maí 2022, um að synja kæranda um örorkumat.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkumat, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta