Hoppa yfir valmynd
13. júní 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Vinna við fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Innan Stjórnarráðsins hefur verið unnið að því að undirbúa fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks samkvæmt þingsályktun Alþingis þar að lútandi. Innanríkisráðuneytið hefur umsjón með verkefninu en einstakir verkþættir eru á ábyrgð mismunandi ráðuneyta, eftir því sem við á.

Viðfangsefnum sem nú er ólokið eru eftirfarandi eftir ábyrgðarsviðum ráðherra:

Á verksviði innanríkisráðherra:

  • Framkvæmd og eftirlit innanlands, sbr. 33. gr. samningsins

Á verksviði félagsmálaráðherra:

  • Að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar, sbr. 19. gr. samningsins
  • Virðing fyrir heimili og fjölskyldu, sbr. 23. gr. samningsins
  • Hæfing og endurhæfing, sbr. 26. gr. samningsins
  • Vinna og starf, sbr. 27. gr. samningsins

Á verksviði heilbrigðisráðherra:

  • Að fatlað fólk, þ.m.t. börn, fái haldið frjósemi sinni til jafns við aðra, sbr. b- og c-lið, 1. mgr. 23. gr. samningsins

Framkvæmd og eftirlit innanlands

Hvað varðar vinnu við mótun fyrirkomulags við framkvæmd og eftirlit innanlands, sbr. 33. gr. samningsins, þá mun innanríkisráðuneytið á næstu dögum kynna á vefsíðu sinni drög að frumvarpi sem tekur á þeim skuldbindingum. Frumvarpið er enn fremur samið með hliðsjón af tilmælum sem íslenska ríkið hefur fengið um að koma á fót sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun (e. National Human Rights Institution) sem uppfylli svokölluð Parísarviðmið.

Lögræðislögum breytt á síðasta ári

Á síðasta ári voru gerðar breytingar á lögræðislögum. Innanríkisráðuneytið hefur móttekið ítarlega greinargerð frá Geðhjálp um að breytingarnar séu ekki fyllilega í samræmi við inntak samningsins um réttindi fatlaðs fólks, m.a. varðandi nauðungarvistun. Ráðuneytið hefur átt einn fund með fulltrúum Geðhjálpar um athugasemdir samtakanna og vinnur nú að mati á þeim með hliðsjón af þeim skuldbindingum sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur í för með sér á þessu sviði. Niðurstaða mun liggja fyrir síðar í sumar.

Stefnt að fullgildingu næsta vetur

Innanríkisráðuneytið væntir þess að öll ráðuneyti hafi lokið undirbúningsvinnu næsta vetur. Þá verður hægt ljúka fullgildingu samningsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta