Úrskurður nr. 37/2015
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 15. apríl 2015 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 37/2015
Í stjórnsýslumáli nr. KNU15010005
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 10. maí 2013 kærði […] ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. maí 2013, um að taka ekki til meðferðar umsókn hans um hæli á Íslandi og að endursenda hann til Hollands.
Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar um að vísa kæranda til Hollands verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn hans til efnismeðferðar. Til vara gerir kærandi þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir stofnunina að taka umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga nr. 96/2002 um útlendinga til umfjöllunar.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um hæli á Íslandi þann 3. febrúar 2013 á lögreglustöðinni við Hringbraut í Reykjanesbæ. Við leit að fingraförum kæranda í svokölluðum Eurodac gagnagrunni kom í ljós að fingraför kæranda höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Hollandi og á Íslandi.
Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi áður sótt um hæli á Íslandi þann 6. nóvember 2011. Með úrskurði innanríkisráðuneytisins, dags. 18. september 2012, var ákvörðun Útlendingastofnunar frá 26. mars 2012, um að taka mál kæranda ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Hollands, staðfest. Þann 20. nóvember sama ár var kærandi fluttur til Hollands.
Þann 8. mars 2013 beindu íslensk stjórnvöld beiðni til hollenskra yfirvalda á grundvelli 1. mgr. 16. gr. reglugerðar ráðsins nr. 343/2003/EB (eldri Dyflinnarreglugerð) um viðtöku á kæranda. Hinn 12. mars 2013 samþykktu hollensk yfirvöld viðtöku á kæranda á grundvelli e-liðar 1. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar.
Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. maí 2013, var ákveðið að umsókn kæranda, þess efnis að honum yrði veitt hæli á Íslandi sem flóttamanni, skyldi ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og kærandi skyldi sendur til Hollands. Kærandi kærði ákvörðun stofnunarinnar til innanríkisráðuneytisins 10. maí 2013 og tveimur dögum síðar eða 12. maí 2013 óskaði kærandi eftir því að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað á meðan mál hans væri til meðferðar hjá innanríkisráðuneytinu. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 16. júní 2014, var fallist á frestun réttaráhrifa á meðan mál kæranda væri til meðferðar hjá ráðuneytinu.
Þann 3. desember 2014 barst innanríkisráðuneytinu bréf, dags. 28. nóvember 2014, frá talsmanni kæranda þar sem óskað var eftir upplýsingum um gang málsins, sbr. 23. gr. og 23. gr. a laga um útlendinga. Í bréfinu kemur meðal annars fram að biðin eftir niðurstöðu málsins hafi haft slæm áhrif á heilsu kæranda, sbr. meðfylgjandi læknisvottorð.
Þann 1. janúar 2015 tók kærunefnd útlendingamála til starfa, sbr. 3. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, með síðari breytingum. Allar kærur á ákvörðunum Útlendingastofnunar, sem enn biðu afgreiðslu hjá innanríkisráðuneytinu þann 1. janúar sl. og heyra til þeirra ákvarðana sem heimilt er að kæra til kærunefndar útlendingamála, verða afgreiddar hjá kærunefndinni, sem fer nú með úrskurðarvald í samræmi við 3. gr. a og 3. gr. b laga um útlendinga, með síðari breytingum. Þegar kærunefndin tók til starfa hafði innanríkisráðuneytið ekki úrskurðað í máli kæranda og mun kærunefndin því úrskurða í máli þessu.
Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
1. Lagarök
Í máli þessu gilda aðallega ákvæði laga um útlendinga nr. 96/2002, ásamt síðari breytingum, og ákvæði reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga, ásamt síðari breytingum. Auk þess gilda ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar nr. 604/2013, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja henni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Jafnframt ber að líta til ákvæða mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Í d-lið 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga kemur fram að stjórnvöld geti, með fyrirvara um ákvæði 45. gr. laganna, synjað því að taka til efnismeðferðar hælisumsókn ef krefja megi annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Þó kemur fram í 2. mgr. 46. gr. a sömu laga að ekki skuli endursenda flóttamann til annars ríkis hafi hann slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða sérstakar ástæður mæli annars með því. Þá er íslenskum stjórnvöldum heimilt að taka umsókn um hæli til meðferðar, jafnvel þó þau beri ekki ábyrgð á henni, á grundvelli 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.
Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 115/2010 um breytingar á útlendingalögum kemur fram að með 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga sé miðað við að stjórnvöldum sé eftirlátið mat og hafi heimild til að taka mál til efnismeðferðar umfram það sem leiðir af sérstökum reglum, svo sem reglum Dyflinnarreglugerðarinnar.
2. Niðurstaða
Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi dvalið hér á landi frá því í febrúar 2013 eða í rúm tvö ár. Frá þeim tíma hefur mál kæranda verið til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum þrátt fyrir að annað ríki hafi hinn 12. mars 2013 samþykkt viðtöku á kæranda og umsókn hans um hæli á grundvelli eldri Dyflinnarreglugerðarinnar. Ekkert bendir til þess að kærandi hafi átt neinn þátt í þessari töf á afgreiðslu málsins.
Ein af forsendum Dyflinnarsamstarfsins er að þátttökuríkin geti á eins skjótan máta og unnt er ákveðið hvaða ríki teljist bera ábyrgð á umsókn hælisleitanda og komið viðkomandi til þess lands en í forsendum Dyflinnarreglugerðarinnar kemur m.a. fram að markmiðið með samevrópska hæliskerfinu hafi verið að setja fram skýra og framkvæmanlega aðferð til að ákveða hvaða aðildarríki beri ábyrgð á meðferð umsóknar um hæli. Slík aðferð skuli byggja á hlutlægum og sanngjörnum viðmiðum, bæði fyrir aðildarríkið og fyrir viðkomandi einstaklinga. Í forsendunum kemur ennfremur fram að samevrópska hæliskerfið eigi að greiða fyrir skjótri töku ákvarðanna um hvaða aðildarríki teljist bera ábyrgð, þannig að tryggður væri skilvirkur aðgangur að málsmeðferð við veitingu á alþjóðlegri vernd og til að ekki væri stefnt í hættu markmiðinu um skjóta meðferð umsókna um slíka alþjóðlega vernd (4. og 5. forsenda Dyflinnarreglugerðarinnar).
Það er mat kærunefndar að brýnt sé að hraða afgreiðslu hælismála eins og auðið er enda kann langur málsmeðferðartími m.a. að hafa skaðleg áhrif á andlegt sem og líkamlegt ástand hælisleitenda. Ef ákvörðun Útlendingastofnunar yrði staðfest leiddi það til flutnings kæranda til annars lands þar sem hann þyrfti að hefja nýtt hælismál með enn frekari röskun á lífi kæranda og áframhaldandi óvissu.
Að framangreindu virtu og þegar litið er á mál kæranda í heild sinni, er það mat kærunefndar að þrátt fyrir að fyrir liggi staðfesting hollenskra stjórnvalda á ábyrgð þeirra á kæranda og hælisumsókn hans, þá beri eins og hér háttar sérstaklega til, og með vísan til 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga og 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, að flytja ábyrgð á efnislegri meðferð hælisumsóknar kæranda yfir á íslensk stjórnvöld. Byggist þessi niðurstaða kærunefndar á sanngirnissjónarmiðum vegna óhæfilega langrar málsmeðferðar fyrir íslenskum stjórnvöldum í þessu tiltekna máli og er þá sérstaklega litið til þeirrar óvissu sem hún hefur verið til þess fallin að valda kæranda.
Sá dráttur sem varð á afgreiðslu umsóknar kæranda stafaði að verulegu leyti af þörf á að leyst yrði úr ósamræmi í dómaframkvæmd varðandi tiltekin lagaatriði í sambærilegum málum. Að mati kærunefndar haggar það ekki niðurstöðunni í þessu máli.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um hæli til efnislegrar meðferðar.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. maí 2013, í máli […] er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn […] til efnismeðferðar.
The decision of the Directorate of Immigration from 6 May 2013 is vacated. The Directorate of Immigration shall examine the substance of […] application for asylum in Iceland.
Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður
Oddný Mjöll Arnardóttir Vigdís Þóra Sigfúsdóttir