Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2017 Forsætisráðuneytið

678/2017. Úrskurður frá 26. apríl 2017

Úrskurður

Hinn 26. apríl 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 678/2017 í máli ÚNU 16090009.

Kæra og málsatvik

Með bréfi, dags. 20. september 2016, kærði Norður-Atlantshafslaxsjóðurinn afgreiðslu Sorpurðunar Vesturlands á beiðni, dags. 2. september 2016, um aðgang að upplýsingum. Í kæru var þess krafist að Sorpurðun Vesturlands upplýsti við hve miklu magni laxaafurða stofnunin tók við til urðunar frá fiskeldi á árinu 2016. Til vara var þess krafist að kæranda yrði látin í té skráning um laxaafurðir frá fiskeldi á árinu 2016.

Kærandi bar beiðni sína fram með bréfum, dags. 31. maí 2016 og 25. júlí 2016. Með bréfum, dags. 14. júní 2016 og 2. september 2016, svaraði Sorpurðun Vesturlands því til að umbeðnar upplýsingar lægju ekki fyrir. Í kæru er byggt á því að Sorpurðun Vesturlands beri að veita umbeðnar upplýsingar. Í því sambandi vísar kærandi til 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Kærandi byggir enn fremur á því að um starfsemi Sorpurðunar Vesturlands fari eftir reglugerð nr. 738/2003. Því þurfi stofnunin að skrá gögn og flokka svo sem 11. gr. reglugerðarinnar áskilur. Því geti ekki staðist að umbeðin gögn séu ekki í vörslum stofnunarinnar.

Málsmeðferð

Með bréfi dags. 27. september 2016 var Sorpurðun Vesturlands kynnt kæran og veittur frestur til að koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn Sorpurðunar Vesturlands, dags. 5. október 2016, var tekið fram að stofnunin starfi samkvæmt starfsleyfi frá Umhverfisstofnun. Í starfsleyfinu sé kveðið á um skráningu úrgangs í samræmi við flokkun þágildandi reglugerðar nr. 184/2002. Kerfið geri ekki ráð fyrir sundurgreiningu eftir tegundum þannig að hægt sé að greina úrgang af laxfiski frá öðrum fisktegundum. Upplýsingum um magn laxafurða í úrgangi hefði því ekki verið haldið sérstaklega til haga. Sorpurðun Vesturlands áréttaði að stofnunin hafi viðurkennt upplýsingaskyldu sína og afhent kæranda þau gögn sem til eru.

Umsögn Sorpurðunar Vesturlands var kynnt kæranda með bréfi, dags. 11. október 2016, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust þann 24. október 2016. Kærandi ítrekaði að lagaskylda stæði til að flokka upplýsingar með þeim hætti sem rakið var í kæru. Þá telur kærandi að Sorpurðun Vesturlands geti ekki vikið sér hjá því að veita þessar upplýsingar með því að vísa til flokkunar skráninga ef hægt sé að taka umbeðin atriði saman og afhenda.

Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um það hversu miklu magni af laxaafurðum frá fiskeldi Sorpurðun Vesturlands tók á móti til urðunar á árinu 2016.  Eins og rakið er að framan veitti Sorpurðun Vesturlands kæranda aðgang að yfirliti um úrgangsflokkun á tímabilinu janúar til apríl 2016. Af hálfu stofnunarinnar hefur hins vegar komið skýrt fram að ekki liggi fyrir nánari sundurgreining eftir dýrategundum.

Réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna tiltekins máls, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 20. gr. þeirra laga er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að slíkum gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Af þessu leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda gögn á tiltæku formi. Vísast um þetta til 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar, sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að rengja í þessu tilviki, og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. að ræða og ber úrskurðarnefndinni að vísa kæru þar að lútandi frá.

Nefndin tekur fram að ágreiningur um það, hvort skráning stofnunarinnar á þeim úrgangi sem hún urðar samræmist reglugerð nr. 738/2003, á undir aðra eftirlits- og úrskurðaraðila í stjórnsýslunni. Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar annast Umhverfisstofnun eftirlit með framkvæmd hennar, veitir starfsleyfi fyrir urðunarstaði og hefur eftirlit með því að starfsleyfishafi fari eftir ákvæðum þess.

Úrskurðarorð:

Kæru Norður-Atlantshafslaxsjóðsins, dags. 20. september 2016, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta