Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2017 Forsætisráðuneytið

679/2017. Úrskurður frá 26. apríl 2017

Úrskurður

Hinn 26. apríl 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 679/2017 í máli ÚNU 16110001.

Kæra og málsatvik

Með erindi þann 3. nóvember 2016 kærði A meðferð Hagstofu Íslands á beiðni um aðgang að gögnum um útreikning vísitölu neysluverðs frá mars 2016 til september 2016.

Í kæru kemur fram að af lestri fréttartilkynningar frá Hagstofunni, dags. 29. september 2016, megi vera ljóst að vísitala neysluverðs hafi verið of lágt skráð á tímabilinu. Kærandi gæti hagsmuna aðila sem hafi tekið vísitölutryggð lán á tímabilinu og hafi lent í beinu fjárhagslegu tjóni vegna mistakanna. Til að meta áhrif mistakanna sé nauðsynlegt að hafa til viðmiðunar hver vísitalan hefði átt að vera með réttu. Kærandi hafi því haft samband við Hagstofu Íslands og óskað eftir upplýsingum um það hver vísitala neysluverðs hefði verið ef mistökin hefðu ekki átt sér stað. Kæru fylgdi afrit af samskiptum kæranda og starfsmanns Hagstofunnar í kjölfar beiðninnar. Kærandi gerir þær kröfur að Hagstofunni verði gert að afhenda sér eftirfarandi gögn:

  1. Öll þau gögn sem útreikningar Hagstofu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar byggja á, vegna tímabilsins mars 2016 til september 2016.

  2. Gögn sem sýna rétt reiknaða vísitölu neysluverðs til verðtryggingar fyrir tímabilið mars 2016 til september 2016.

Kærandi byggir rétt sinn til aðgangs á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Ekki fáist séð að takmarkanir 6.-10. gr. laganna eigi við um gögnin. Þá hafi Hagstofan ekki gefið skýringar á því hvers vegna undirgögn vísitölunnar verði ekki afhent. Kærandi telur ótrúverðugt að Hagstofan hafi ekki gögn sem sýni rétt reiknaða vísitölu neysluverðs fyrir tímabilið. Í frétt á heimasíðu stofnunarinnar sé tilgreint hver áhrifin hefðu verið á vísitölu í september 2016. Af því megi ætla að Hagstofan hafi að minnsta kosti upplýsingar um rétta vísitölu fyrir mánuðinn. Loks áréttar kærandi að verulegir almannahagsmunir standi til þess að almenningur hafi aðgang að upplýsingunum. Fjöldi lánasamninga grundvallist á vísitölu neysluverðs og nokkrar fjármálastofnanir hafi tilkynnt um að verðtryggðir samningar verði leiðréttir. Einstaklingar hafi ekki tækifæri til að sannreyna hvort slíkar leiðréttingar séu réttar. Þá verði einstaklingar sjálfir að hafa upplýsingar til að krefja aðrar fjármálastofnanir um leiðréttingar. Hagstofa Íslands beri lagalega skyldu til að birta vísitölu neysluverðs, skv. 11. gr. laga nr. 12/1995. Sú lagaskylda geti ekki verið uppfyllt með birtingu rangrar vísitölu.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Hagstofu Íslands með bréfi, dags. 7. nóvember 2016, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að í trúnaði.

Í umsögn Hagstofunnar, dags. 17. nóvember 2016, kemur fram að Hagstofan birti ekki ný gildi fyrir vísitölu neysluverðs fyrir tímabilið mars til september 2016. Vísitalan sem birt var gildi áfram þrátt fyrir að villa hafi fundist sem olli því að hún var vanmetin á tímabilinu. Hagstofan hafi greint frá villunni og útskýrt umfang hennar eins og kostur var. Upplýsingar sem stofnunin birti í fréttum um málið og þær sem komi fram í talnaefni á vef Hagstofunnar dugi kæranda til að komast að þeirri niðurstöðu sem hann leitar að. Þær upplýsingar sem kærandi fari fram á falli hins vegar ekki undir opinbera hagskýrslugerð og séu til þess fallnar að valda óvissu um opinberar niðurstöður sem í gildi séu. Vafi leiki á því hvort Hagstofunni sé heimilt að birta leiðrétt gildi fyrir vísitölu neysluverðs, en lög um vexti og verðtryggingu hafi ekki að geyma heimild til þess.

Hagstofan mótmælir því að hún hafi að minnsta kosti upplýsingar um það hver vísitalan hafi átt að vera í september 2016, líkt og kærandi heldur fram. Vísitalan hafi hækkað um 0,48% á milli mánaða og húsnæðisliðurinn hafi verið 0,27% hærri í sama mánuði vegna þess að þá hafi komið inn hækkun vegna hliðrunarinnar. Eingöngu sé um einfalda þríliðu að ræða þar sem 0,48-0,27 sé jafnt og 0,21.

Umsögn Hagstofunnar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 29. nóvember 2016, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust þann 12. desember 2016. Þar kemur fram að kærandi telji þá fullyrðingu Hagstofu að hún hafi ekki umbeðin gögn undir höndum fráleita. Það myndi þýða að enginn starfsmaður hennar hafi reiknað rétta vísitölu eftir að mistökin komu í ljós. Slík vinnubrögð væru vítaverð.

Þá stangist fullyrðingin á við upplýsingar í fréttatilkynningu Hagstofunnar að tvennu leyti. Annars vegar komi fram í tilkynningunni að mánaðarbreytingin á milli mánaðanna ágúst og september 2016 hefði verið 0,21% án villunnar í stað 0,48%. Þar sé vísað til þess að birt vísitala í ágúst hafi verið 436,4 stig og 438,5 stig í september. Mismunurinn sé 0,48%. Samkvæmt fullyrðingu Hagstofunnar hafi rétt vísitala í ágúst þá átt að vera rétt reiknuð 438,5 stig / 1,0021 = 437,6 stig. Af þessu leiði að Hagstofan viti að rétt reiknuð vísitala fyrir ágúst 2016 hafi verið 437,6 stig. Kærandi kveðst hafa fengið sendar niðurstöður Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins um mistökin sem staðfesti útreikningana. Hins vegar komi fram í fréttatilkynningunni að áhrif villunnar á allan almenning séu hverfandi og fæstir lántakendur verði varir við breytinguna nema að litlu leyti. Eðli málsins samkvæmt sé ekki hægt að fullyrða slíkt nema hafa þekkingu á umfangi villunnar.

Kærandi gerir þá kröfu að niðurstaða nefndarinnar byggi á því að umbeðin gögn séu til staðar hjá Hagstofunni. Verði niðurstaða nefndarinnar önnur er á því byggt að krafa kæranda feli ekki í sér gerð nýrra skjala. Við útreikning Hagstofu á vísitölunni séu tiltekin gildi færð inn í töflureikni. Reikniformúlur sem séu þegar innbyggðar í skjalinu sjái til þess að niðurstaðan sé sýnd samstundis. Stjórnvaldið þurfi því ekki að útbúa nýtt skjal heldur að breyta forsendum í fyrirliggjandi skjali. Þessar breytingar séu sex tölur og taki því ekki meira en mínútu að framkvæma þær. Töflureiknir vísitölunnar teljist til gagna með vísan til umfjöllunar í frumvarpi til upplýsingalaga.

Kærandi bendir á að Hagstofan hafi áður leiðrétt vísitölu, t.d. vísitölu byggingarkostnaðar í apríl 2011. Báðar vísitölurnar séu notaðar við gerð verðtryggðra samninga og því ekki ástæða til stefnubreytingar. Kærandi efast um að stefnubreytingin standist 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum frá Hagstofu Íslands um það hvernig vísitala neysluverðs hefði reiknast ef ekki hefði komið til mistaka við útreikning hennar á árinu 2016.

Af 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 leiðir að sé þess óskað er skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Af hálfu Hagstofu Íslands hefur skýrlega komið fram að gögn um það hver vísitala neysluverðs hefði orðið án mistakanna séu ekki fyrirliggjandi hjá stofnuninni. Þrátt fyrir að fallast megi á með kæranda að Hagstofu Íslands sé mögulegt að slá þau gögn sem vísitalan styðst við inn í töflureikni, til að fá út hver hún hefði orðið, eru ekki efni til að vefengja þær skýru staðhæfingar stofnunarinnar að niðurstöður slíks útreiknings liggi ekki fyrir hjá henni.

Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál getur réttur almennings til aðgangs að gögnum samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 ekki leitt til þess að stjórnvaldi sé skylt að framkvæma tiltekna útreikninga eða breytingar á skjölum í vörslum þess og afhenda þá beiðanda. Gildir þetta jafnvel þótt ætla megi að útreikningarnir eða breytingarnar krefjist lítillar vinnu. Eins og hér háttar til verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að gögn um það hvernig vísitala neysluverðs hefði reiknast tímabilið mars til september 2016, séu ekki fyrirliggjandi hjá Hagstofu Íslands í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Úrskurðarvald úrskurðarnefndarinnar er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda gögn á tiltæku formi. Vísast um þetta til 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar, og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. laganna að ræða og ber úrskurðarnefndinni að vísa kæru þar að lútandi frá.

Kærandi hefur einnig óskað eftir öllum gögnum sem útreikningar Hagstofu Íslands á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar byggja á vegna sama tímabils. Af gögnum málsins verður ekki séð að Hagstofa Íslands hafi tekið afstöðu til þessa hluta beiðni kæranda. Með vísan til 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 ber Hagstofunni að taka beiðni kæranda að þessu leyti til meðferðar samkvæmt lögunum, hafi svo ekki verið gert.

Úrskurðarorð:

Beiðni kæranda, A, um aðgang að gögnum sem útreikningar Hagstofu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar byggja á vegna tímabilsins mars 2016 til september 2016, er vísað til nýrrar meðferðar hjá Hagstofu Íslands.

Kæru kæranda er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta