Hoppa yfir valmynd
7. maí 2019 Dómsmálaráðuneytið

Löggæsluáætlun 2019 til 2023

Dómsmálaráðherra birti í dag löggæsluáætlun sem tekur til áranna 2019-2023. Í áætluninni er sett fram almenn stefnumörkun í löggæslumálum þar sem umfang og eðli lögreglustarfsins er skilgreint auk þeirra verkefna sem lögreglunni er ætlað að sinna. Stefnumörkunin byggir á framtíðarsýn og er í samræmi við hlutverk lögreglu samkvæmt lögreglulögum. Áætlunin var unnin í samstarfi við embætti ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra um land allt.

Með löggæsluáætlun og þeim verkfærum og mælikvörðum sem þar birtast verður kostnaður við verkefni lögreglu gagnsærri en áður og það mun auðvelda löggjafanum að úthluta fjármunum innan löggæslumála á eins faglegum forsendum og unnt er. Í áætluninni er þar af leiðandi ekki tekin efnisleg afstaða til fjárveitinga til lögreglu næstu árin.

Áætlunin er sett fram til fimm ára og verður notuð til grundvallar vinnu við fjármálaáætlun næstu ára. Að gildistíma hennar liðnum er ekki gert ráð fyrir að áætlunin verði gefin út að nýju, heldur mun efni hennar nýtast áfram við stefnumótun innan málaflokksins samkvæmt lögum um opinber fjármál, eins og við á um aðra stefnumótun málefnasviða ráðuneytanna.

Árlega verður metið hvernig gengið hefur að ná markmiðum löggæsluáætlunar í samræmi við ákvæði laga um opinber fjármál. Markmiðin eru sett með það að leiðarljósi að ná sem besta mögulega þjónustu- og öryggisstigi, auk þess að stuðla að traustri og heiðarlegri lögreglu.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, dómsmálaráðherra:

„Það gleður mig að kynna löggæsluáætlun í dag en hún á sér langan aðdraganda og hefur verið unnin í góðu samráði við lögregluna um land allt. Áætlunin inniheldur einfalda en mikilvæga mælikvarða og markmið í þjónustu- og öryggisstigi og tryggir að fjárveitingar til lögreglunnar byggi ávallt á faglegum grunni. Með þessu munum við sjá betur hvar þörfin innan löggæslunnar er mest á hverjum tíma og getum brugðist við með markvissari hætti, okkur öllum til heilla.“

Sjá nánar: Löggæsluáætlun .pdf og Athugasemdir við löggæsluáætlun.pdf

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta