Hoppa yfir valmynd
13. maí 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mestu kjarabætur í langan tíma

Áður en árið er liðið munu þeir lífeyrisþegar sem verst eru settir hafa fengið einhverjar mestu kjarabætur sem um getur í langan tíma. Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra í ávarpi sínu á sambandsstjórnarfundi Landssambands eldri borgara.

Atvinnumál, velferðarmál og kjaramál voru til umræðu á sambandsstjórnarfundi Landssambands eldri borgara í dag, 13. maí. Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, ávarpaði fundinn og ræddi þar áherslur sínar í uppbyggingu öldrunarþjónustu, áform um flutning málaflokksins til sveitarfélaga og um stefnu sína og aðgerðir á sviði almannatrygginga. Fram kom að þegar áætlaðar aðgerðir þessa árs yrðu allar komnar til framkvæmda myndu greiðslur almannatrygginga til lífeyrisþega hækka um 9 milljarða króna á ársgrundvelli eða um rúm 17% miðað við síðasta ár.

Ráðherra ræddi í ávarpi sínu þá gagnrýni sem fram hefur komið um að ríkisstjórnin hafi með aðgerðum sínum í kjölfar samninga Aþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins farið á svig við fyrri yfirlýsingar eða samkomulag ríkisstjórna við aldraða og öryrkja sem fulltrúar Framsóknarflokksins hafa kallað drottinssvik" í opinberri umræðu og sagði:

„Þó ég svo gjarnan vildi og tel að gera þurfi enn betur í að lyfta kjörum lífeyrisþega í þessu landi, ekki síst þeirra sem hafa verstu kjörin, liggur það fyrir að aðgerðir þessarar ríkisstjórnar hafa verið í fullu samræmi við lög, fullu samræmi við þær yfirlýsingar sem ríkisstjórnin hefur gefið og staðreyndin er reyndar sú að aðgerðir þessarar ríkisstjórnar ganga mun lengra en yfirlýsingar fyrri ríkisstjónar gáfu tilefni til. Þær ákvarðanir sem þegar hafa verið teknar af núverandi ríkisstjórn eru þess valdandi að milljarðar króna renna til lífeyrisþega umfram þær skuldbindingar sem fyrri ríkisstjórnir Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks kváðu á um. Fullyrðingar um annað eru beinlínis rangar því hvergi í umræddum yfirlýsingum, hvorki frá 2002 eða 2006 er til dæmis kveðið á um að lægstu bætur almannatrygginga eigi að fylgja hækkun dagvinnutryggingar. Það er ástæða til að halda til haga að á árunum 1995–2007 hefur lágmarkslífeyrir aðeins einu sinni haldið í við lágmarkslaun og það var árið 2007.“

Síðar í ávarpi sínu sagði ráðherra þetta:

„Þótt heildartekjur þessa hóps séu ekki háar er staðreyndin sú að aldrei á síðastliðnum tólf árum hafa tekjur þeirra ellilífeyrisþega sem tilheyra honum og hafa því lægstar tekjurnar verið hærri en þær verða frá og með 1. ágúst. Auk þessa hafa ýmsar aðrar aðgerðir okkar að sjálfsögðu lyft tekjum fjölmargra sem hingað til hafa verið á lægstu bótum almannatrygginga og ég fullyrði því að áður en árið er allt hafi tekjur þeirra verst settu meðal lífeyrisþega fengið einhverjar mestu kjarabætur sem um getur í langan tíma. Um það þurfum við vonandi ekki að deila þegar árið verður gert upp.“

Tenging frá vef ráðuneytisinsÁvarp félags- og tryggingamálaráðherra á samsbandsstjórnarfundinum



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta