Hoppa yfir valmynd
16. maí 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Bifreiðastyrkir hreyfihamlaðra verða endurskoðaðir

Jóhanna Sigurðardóttir félags- og tryggingamálaráðherra boðar endurskoðun á reglugerð um bifreiðamál hreyfihamlaðra en fjárhæðir uppbóta og styrkja hafa ekki hækkað í mörg ár. Þetta kom meðal annars fram í ávarpi hennar á þingi Sjálfsbjargar í dag.

Gestir á þingi SjálfsbjargarÍ ávarpi sínu lýsti ráðherra ánægju með að ábyrgð á lífeyrishluta almannatryggingakerfisins væri nú komin til félags- og tryggingamálaráðuneytisins því í mörgum málaflokkum, ekki síst í málefnum fatlaðra, væri það nánast nauðsyn til að geta unnið vel í þágu hópsins. Hún sagði þetta fela í sér mörg tækifæri sem hún hygðist nýta til að stuðla að úrbótum og nýjungum í málefnum fatlaðra. Ráðherra ræddi almennt um stefnu og nýjungar í málefnum fatlaðra, mikilvægi alþjóðlegra sáttmála og skuldbindinga sem Íslendingar ættu aðild að, áform um flutning málaflokksins til sveitarfélaganna og margt fleira. Af einstökum málum fjallaði ráðherra sérstaklega um bifreiðamál hreyfihamlaðra og sagði:

„Samkvæmt frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi munu bifreiðarstyrkir, svokallaðir hærri styrkir, flytjast til félags- og tryggingamálaráðuneytisins en uppbætur vegna kaupa á bifreiðum og vegna reksturs bifreiða, svokallaðir bensínstyrkir, heyra nú þegar undir það. Þegar þessi mál verða komin að fullu til mín er ég staðráðin í því að endurskoða reglugerð um bifreiðamál hreyfihamlaðra og mun gera það í fullu samráði við Sjálfsbjörgu og Öryrkjabandalag Íslands. Ég veit að fjárhæðir uppbóta og styrkja hafa ekki hækkað í mörg ár og það þarf að endurskoða þann tíma sem líður milli úthlutana og mögulega stytta hann. Ég er reiðubúin að ræða hvort rétt sé að útvíkka skilgreiningu á hugtakinu „hreyfihömlun“ og sömuleiðis að skoða mögulegar breytingar á skilyrðum fyrir styrk sem nú byggjast á því að viðkomandi eða annar heimilismaður hafi ökuréttindi, nokkuð sem getur komið sér illa til dæmis fyrir ungt fólk sem býr á sambýlum. Svo má velta fyrir sér allt öðru fyrirkomulagi, til dæmis að binda greiðslur til hreyfihamlaðra einstaklinga ekki við ökutæki heldur tengja hann einstaklingum sem uppfylla tiltekin skilyrði. Þeim væri þá í sjálfsvald sett hvernig þeir nýttu sér þær greiðslur. Hér leyfi ég mér að hugsa upphátt og þætti gott að heyra ykkar sjónarmið.“

Tenging frá vef ráðuneytisinsÁvarp Jóhönnu Sigurðardóttur á þingi Sjálfsbjargar



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta