Hoppa yfir valmynd
16. mars 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 642/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 642/2021

Miðvikudaginn 16. mars 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 28. nóvember 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 24. september 2021 um að fyrri endurreikningur tekjutengdra bóta vegna ársins 2021 skyldi standa óbreyttur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2020 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 421.694 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu með bréfum Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. og 22. maí 2021. Kærandi andmælti niðurstöðu endurreikningsins með tölvubréfi 28. júní 2021 og með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 24. september 2021, var kæranda tilkynnt um að fyrri endurreikningur skyldi standa óbreyttur.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. nóvember 2021. Með bréfi, dags. 30. nóvember 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Viðbótargögn frá kæranda bárust úrskurðarnefnd 22., 24. og 25. janúar 2022 og voru þau send Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. janúar 2022. Með bréfi, dags. 21. janúar 2022, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. janúar 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 31. janúar 2022 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. febrúar 2022. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að óskað sé eftir að úrskurðarnefnd velferðarmála taki til skoðunar og úrskurði um álitaefni er varði meðhöndlun Tryggingastofnunar ríkisins á frítekjumarki, tekjum og tekjufrádrætti.

Í erindi Tryggingastofnunar sé tekið fram að frítekjumark sé ekkert og að kærandi njóti ekki sérstaks frítekjumarks til frádráttar launatekjum. Óskað sé eftir að úrskurðarnefnd úrskurði hvort kærandi eigi rétt á slíku frítekjumarki og ef hann eigi ekki rétt á því, hvers vegna það sé. Lögum samkvæmt eigi fólk að hafa 100.000 kr. í sérstakt frítekjumark á mánuði vegna atvinnutekna. Í erindi kæranda til Tryggingastofnunar, dags. 30. júní 2021, hafi hann reiknað 1.300.000 kr. frítekjumark inn í jöfnuna, og niðurstaðan hafi verið sú að réttindi hans umfram tekjur væru 316.862 kr. Miðað við þann útreikning hafi ekki átt að skerða bætur.

Kærandi hafi í útreikningi sínum dregið 843.200 kr. frá vegna sakarkostnaðar hjá sýslumanni sem ríkisféhirðir hafi látið falla á hann samhliða því sem honum hafi verið greiddar 2.690.000 kr. í laun á árinu 2020.

Kærandi fari fram á að nefndin skoði samantekt Tryggingastofnunar og úrskurði um hvort hún sé rétt lögum samkvæmt. Einnig sé þess óskað að farið verði yfir, ef samantekt sé röng, hver skekkjan sé í krónum talið og hvaða reglur hafi verið brotnar.

Í erindi Tryggingastofnunar sé fjallað um tekjuforsendur. Þar sé fjallað um að það eigi að „horfa til“ þeirra tekna sem aflað hafi verið á bótaárinu og í því samhengi vísað í skilgreiningu tekna samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og að stofnuninni beri að horfa til niðurstöðu álagningar skattyfirvalda. Kærandi geti ekki séð að lögin geri ráð fyrir einhliða viðmiði bótaupphæðar við álagningu skattyfirvalda, enda sé það varla lögboðinn grunnur bótaréttinda. Lögin virðist ekki alhæfa að bætur skuli eingöngu miðast við uppgefnar tekjur samkvæmt skattframtali heldur við það hvað bótaþeginn hafi raunverulega fengið margar krónur í tekjur á bótaárinu. Kærandi skilji lögin þannig að það sé hlutverk Tryggingastofnunar að kanna hvaða krónur bótaþeginn fái frá öðrum í tekjur eða aðrar greiðslur og miða beri bótaréttinn við það. Til að sannreyna hvað bótaþeginn fái mikið greitt frá öðrum séu stofnuninni gefnar víðtækar heimildir til að afla upplýsinga, sbr. breytingalög nr. 8/2014. Þetta virðist vera nokkuð skýrt. Útborgaðar krónur til bótaþega frá öðrum en Tryggingastofnun komi til frádráttar eða lækkunar krónutölu bóta frá stofnuninni.

Til samanburðar séu greiðslur til bótaþega úr lífeyrissjóðum notaðar af Tryggingastofnun til að reikna bætur út frá þeim krónum sem lífeyrissjóður greiði bótaþeganum á viðkomandi ári en taki ekkert mið af því hvernig lífeyrissjóður viðkomandi hafi rýrnað eða hækkað í gegnum tíðina. Því síður sé tekið mið af því hvernig lífeyrissjóðurinn sé skráður í hinum og þessum gagnaskráningum í óviðkomandi kerfum. Það séu bara útborgaðar krónur hvers mánaðar eða árs sem gildi, enda lifi bótaþegarnir á krónum en ekki á lagaskilgreiningum eða gagnaskráningum. Lögin séu skýr um það.

Varla verða lögin skilin öðruvísi en svo að löggjafinn skilgreini „tekjur“ sem þær krónur sem bótaþegi fái í sinn vasa á árinu, bæði uppgefið samkvæmt skattskýrslu en einnig mögulega í öðru formi eða af öðrum ástæðum. Stofnuninni beri að skoða hvers konar frávik geti haft áhrif á þær krónur sem bótaþegi hafi sannarlega fengið greiddar eða mögulega tapað á viðkomandi bótaári. Nettógreiðsla til bótaþega á árinu ráði síðan bótagreiðslum frá Tryggingastofnun. Kærandi sjái ekki að neitt annað geti haft áhrif á bótaupphæð en að bætur einfaldlega lækki, fái bótaþeginn peninga til framfærslu annars staðar en hjá Tryggingastofnun.

Tilgangurinn með þessum teygjanlegu tekjureglum sé væntanlega vegna skyldna Tryggingastofnunar við bótaþegana sem séu tryggðar samkvæmt lögunum. Markmið laganna sé að tryggja að þeir sem lögin taki til geti framfleytt sér og lifað sjálfstæðu lífi eins og það sé orðað í lögunum. Því beri Tryggingastofnun að skoða allar tekjur bótaþega heildstætt og kynna sér aðstæður þeirra, skoða stöðu og réttindi þeirra heildstætt eins og lög nr. 8/2014 kveði á um en ekki eingöngu „horfa til“ tekna í skattframtali. Engin slík skoðun virðist hafa farið fram í máli kæranda heldur hafi blindandi verið farið eftir skráningu tekna í skattframtali.

Svar Tryggingastofnunar við erindi kæranda, dags. 30 júní 2021, hafi ekki borist fyrr en 24. september 2021. Stofnunin hafi lögum samkvæmt mjög ríka leiðbeiningar-, rannsóknar- og upplýsingaskyldu til að ganga úr skugga um að bætur séu greiddar í samræmi við tilgang laganna. Það sé því ekki nóg að Tryggingastofnun „horfi til“ tekna sem aflað hafi verið á bótaárinu samkvæmt skattframtali. Lögin virðast skýr um að þær krónur sem bótaþeginn hafi sannanlega fengið greiddar samkvæmt skattframtali eða með öðrum sannanlegum hætti eigi að vera grundvöllur bóta. Skattstjóri eða hans skráningar séu hvorki hluti af bótakerfinu né lögum um almannatryggingar. Þrátt fyrir að það beri að „horfa til“ skattframtala sem mikilvægra tekjuskráninga, séu þau skjöl ekki grundvöllur bóta heldur ákvæði laga um almannatryggingar.

Að ætla bótaþega að fara að tala við Skattinn til að fá breytingu á uppgefnum tekjum á skattframtali sé langt frá því sú leið sem bótaþegi geti farið til að fá leiðréttar bætur frá Tryggingastofnun. Þessar tvær stofnanir séu algerlega ótengdar og ekkert lagasamband þar á milli. Tryggingastofnun geti varla vísað bótaþegum á Skattinn til að stofnunin geti reiknað leiðréttar bótagreiðslur á forsendum leiðréttra skattframtala til að tryggja niðurstöðu í samræmi við þær krónur sem bótaþegi hafi sannanlega fengið greiddar á árinu í samræmi við leiðrétta skattskýrslu. Lög um almannatryggingar geri ekki ráð fyrir því.

Eins og komi fram í erindi kæranda til Tryggingastofnunar, dags. 30 júní 2021, hafi hann fengið 1. mars 2020 greiddar 2.690.000 kr. frá C og að frádreginni 1.151.010 kr. staðgreiðslu hafi verið greiddar út 1.538.990 kr.

Þann 27. febrúar 2020 hafi Sýslumaðurinn á B gefið út 843.200 kr. kröfu á kæranda sem hann hafi greitt þann 3. mars 2020 með launatekjum sem eftir hafi verið frá C. Þá hafi staðið eftir 695.790 kr. Krafa sýslumanns hafi verið gefin út í tengslum við greiðsluna frá C, enda sé ríkisféhirðir með alla þessa fjármuni og upplýsingar í sinni umsjá. Ríkið hafi átt endurkröfurétt á kæranda og því verið í fullum rétti til að skuldajafna þessa skuld þegar hann hafi óvænt fengið greidd laun. Krafa Tryggingastofnunar hafi því verið send út samhliða því sem hann hafi fengið greitt frá C og um hafi verið að ræða aðfararhæfa kröfu.

Heildarsamantekt tekna kæranda, frádráttur og yfirlit tekna umfram frádrátt sé að finna í greinargerð, dags. 30. júní 2021. Þar komi fram að niðurstaða um réttindi umfram tekjur séu 316.862 kr. ef hann hefði fengið 1.300.000 kr. frítekjumark og ef krafa sýslumanns sé tekin gild sem sannanleg lækkun tekna.

Kærandi telji að Tryggingastofnun hafi við bótaútreikning átt að miða við að frá útborguðum launum yrði dregin greiðsla til sýslumanns, þ.e. draga 843.200 kr. frá 2.690.000 kr. sem geri samtals 1.846.800 kr.

Staðgreiðsla hafi verið reiknuð af allri upphæðinni 1.151.010 kr. þó að svo virðist að þegar fólk sé að skuldajafna eigi bara að greiða skatt af mismuninum.

Samkvæmt kröfu Tryggingastofnunar skuli kærandi að auki endurgreiða 421.694 kr. samkvæmt endurreikningi, dags. 20 maí 2021, sem tengist líklega bæði rugli með lífeyrisjóðsgreiðslur til kæranda þar sem Tryggingastofnun hafi greitt honum í nokkur ár greiðslur lífeyrissjóðs sem hafi síðan verið endurgreiddar í einni greiðslu árið 2020, og launatekjum.

Ljóst sé að krafa Tryggingastofnunar hafi gríðarleg áhrif á fjárhag kæranda, enda séu greiðslur úr lífeyrissjóði eftir skatta einungis um 25.000 kr.

Það sé mat kæranda að útreikningar Tryggingastofnunar og niðurstöður í bréfum, dags. 20. maí og 24. september 2021, séu ómarktækir og þarfnist endurskoðunar með skiljanlegum og sundurliðuðum rökstuðningi og tilvitnun í lög.

Kærandi óski eftir heildaráliti úrskurðarnefndar um bæði erindi Tryggingastofnunar, með áherslu í fyrsta lagi á hvort afgreiðsla á frítekjumarkinu standist. Í öðru lagi hvort það standist að miða við uppgefnar tekjur samkvæmt skattframtali 2.690.000 kr. eða hvort stofnuninni sé skylt að líta til hinna ýmsu ákvæða laga um almannatryggingar þar sem kveðið sé á um skyldur stofnunarinnar við bótaþega um að tryggja þeim lágmarksframfærslu og í þessu tilfelli miða við þær raunverulegu krónur sem kærandi hafi sannanlega fengið greiddar en ekki skráningu í skattframtali.

Í athugasemdum kæranda, dags. 31. janúar 2022, kemur fram að þrátt fyrir að greinargerð Tryggingastofnunar virðist mjög vönduð geti kærandi ekki á neinn hátt áttað sig á innihaldinu.

Kvörtun kæranda hafi varðað þá ákvörðun Tryggingastofnun að hafa mögulega ekki skoðað mál hans nægilega þar sem niðurstaðan hafi verið sú að kærandi ætti að greiða ríkinu meira til baka en það sem hann hafi aflað sér með launaðri vinnu.

Enn standi ósvöruð þau álitamál, sem kærandi hafi kvartað undan, sem sé annars vegar sundurliðaður útreikningur réttinda hans þegar tekið hafi verið fullt tillit til lögbundinna frítekjumarka og hins vegar sú fjárhæð sem stofnunin hafi miðað við útreikninga, fjárhæð sem hann hafi sannarlega ekki fengið greidda út þar sem hann hafi verið endurkrafinn um málskostnað sem ríkið hafi lagt út fyrir hann á sínum tíma.

Þessi hugtök og álitamál, sem kærandi hafi kvartað undan, ættu að vera útskýrð í greinargerð stofnunarinnar á þann máta að ólöglærðir einstaklingar geti skilið.

Í greinargerð stofnunarinnar sé til dæmis vitnað í lög um hvað teljist til tekna og sé þar til dæmis skautað á að því er virðist stöðluðu orðalagi svo sem: „A-liðar 1. gr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum“. Kærandi spyr hverjar þessar undantekningar og takmarkanir séu.

Einnig sé í greinargerðinni lagt upp með að stofnuninni sé óheimilt að líta fram hjá tekjuupplýsingum í skattframtölum og það sé staðfest af úrskurðarnefnd og dómstólum. Einhver dómur um tiltekið mál geti varla verið bindandi niðurstaða fyrir mál kæranda. Reikni Tryggingastofnun skerðingar á réttindum vegna tekna sem sannarlega hafi aldrei borist þar sem greiðandinn hafi með aðfararhæfum hætti haldið eftir hluta uppgefinna launatekna eins og í hans tilfelli, þá sé varla von að þessi niðurstaða um skerðingar réttinda geti staðist. Tryggingastofnun hafi lagt á hann skerðingar upp á rúmar 400.000 kr. vegna ákvörðunar ríkisféhirðis og/eða C.

Í reglugerð um frítekjumark sé frítekjumark skilgreint þannig: „Með frítekjumarki sé í þessari reglugerð átt við fjárhæðir tekna sem hafi ekki áhrif á bætur.“ Kærandi geti ekki séð að útreikningar og greinargerð Tryggingastofnunar séu í samræmi við þessa fullyrðingu.

Niðurstaðan sé sú að kærandi telji að enn vanti skiljanlegar útskýringar á þeim álitamálum sem kvartað hafi verið undan, auk þess sem greinargerð Tryggingastofnunar virðist innihalda órökstuddar og ósannaðar fullyrðingar og yfirlýsingar eins og kærandi hafi bent á.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2020.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 99/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Um áhrif tekna á ellilífeyri sé vísað til 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem komi fram í skattframtölum eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum.

Í 9. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar komi fram að atvinnutekjur séu endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu samkvæmt 1. tölul. A-liðar og B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt sem og greiðslur sem komi í stað slíks endurgjalds.

Í 12. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. sé við útreikning á greiðslum samkvæmt 17.–19. gr. og 21.–23. gr. laganna, sbr. einnig 13. gr. laga um félagslega aðstoð, heimilt að telja atvinnutekjur til tekna bótaþega einungis í þeim mánuði þegar þeirra sé aflað. Skuli Tryggingastofnun ríkisins við endurreikning bótafjárhæða, sbr. 7. mgr., gera samanburð á útreikningi heildargreiðslna hvers mánaðar, annars vegar miðað við 1/12 af atvinnutekjum ársins og hins vegar miðað við atvinnutekjur í þeim mánuðum sem þeirra sé aflað. Beita skuli þeirri reglu sem leiði til hærri greiðslna.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Málavextir séu þeir að allt árið 2020 hafi kærandi hafi verið með ellilífeyri og tengdar bætur. Tryggingastofnun hafi gert tillögu að tekjuáætlun vegna ársins 2020 þar sem gert hafi verið ráð fyrir að á árinu væri kærandi með 625.800 kr. í launatekjur og 216.768 kr. í lífeyrissjóðstekjur. Engar athugasemdir hafi borist frá kæranda og hafi því verið greitt samkvæmt tekjuáætluninni frá 1. janúar 2020 til 30. apríl 2020. Við reglubundið eftirlit Tryggingastofnunar þann 14. apríl 2020 hafi komið í ljós misræmi á milli tekjuáætlunar kæranda og upplýsinga úr staðgreiðsluskrá Skattsins. Tekjuáætlun kæranda hafi því verið leiðrétt af stofnuninni og í nýrri tekjuætlun hafi á grundvelli atvinnutekna kæranda í byrjun árs 2021, verið gert ráð fyrir að á árinu væri hann með 29.590.000 kr. í launatekjur, 216.768 kr. lífeyrissjóðstekjur og 384 kr. í vexti og verðbætur. Kærandi hafi ekki fengið greitt á grundvelli þessarar tekjuáætlunar þar sem hann hafi skilað inn nýrri tekjuáætlun í kjölfarið.

Í innsendri tekjuáætlun kæranda þann 15. apríl 2020, ásamt fylgiskjölum, hafi verið gert ráð fyrir að tekjur hans á árinu væru 2.690.000 kr. í launatekjur, 216.768 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 384 kr. í fjármagnstekjur. Greitt hafi verið út frá þessari áætlun frá 1. maí til 31. október 2020.

Kærandi hafi skilað inn nýrri tekjuáætlun þann 15. október 2020. Sú áætlun hafi verið óbreytt fyrir utan að lífeyrissjóðstekjur hafi verið hækkaðar í 1.216.43 kr. Greitt hafi verið samkvæmt þessari áætlun frá 1. nóvember til 31. desember 2020.

Við endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2020 beri Tryggingastofnun að líta til tekna við útreikning bóta. Þá sé stofnuninni skylt að endurreikna greiðslur á grundvelli tekna eins og þær séu skráðar á skattframtali þegar upplýsingar um þær liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda. Við þann endurreikning hafi komið í ljós mismunur á milli þeirra tekna sem gert hafi verið ráð fyrir í tekjuáætlun og þeirra tekna sem fram komi á skattframtali. Samkvæmt skattframtali kæranda hafi kærandi verið með 2.690.000 kr. í launatekjur, 1.043.982 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 2.487 kr. í fjármagnstekjur.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2020 hafi því verið sú að kærandi hafi á árinu fengið greiddar 4.177.877 kr. en hefði átt að fá greiddar 3.408.823 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 421.694 kr., að teknu tilliti endurgreiddrar staðgreiðslu.

Rétt sé að taka fram að við uppgjör stofnunarinnar á tekjuárinu 2020 hafi réttindi kæranda verið reiknuð í samræmi við reiknireglu um mánaðarskiptingu atvinnutekna, en hún feli í sér að atvinnutekjur hafi eingöngu áhrif í þeim mánuði sem þeirra sé aflað. Þannig hafi launatekjur kæranda allar komið til áhrifa í febrúar með þeim afleiðingum að ekki hafi verið neinn greiðsluréttur frá Tryggingastofnun í þeim mánuði. Við mat á því hvaða reiknireglu sé beitt sé ávallt horft til þess hvaða regla hafi hagfelldari áhrif á réttindi lífeyrisþega og sú regla hafi því verið valin. Þannig séu réttindi kæranda á grundvelli mánaðarskiptingar atvinnutekna á árinu 2020 alls 3.408.823 kr. en hefðu verið 2.835.275 ef atvinnutekjum hefði verið dreift jafnt á árinu.

Tryggingastofnun hafi farið ítarlega yfir forsendur hinnar kærðu ákvörðunar og telji ekki ástæðu til þess að breyta henni.

Rétt sé að taka fram að um misskilning sé að ræða að kærandi hafi ekki notið frítekjumarks atvinnutekna við útreikning á réttindum. Tekið hafi verið tillit til þess við útreikning á réttindum kæranda fyrir þann mánuð sem atvinnutekjurnar höfðu áhrif á, þ.e. að fjárhæð 100.000 kr. Athygli skuli vakin á því að ekki skipti máli þó að allt frítekjumark ársins hefði verið notað við útreikning réttinda hans í febrúarmánuði, en það hefði leitt til sömu niðurstöðu.

Einnig sé rétt að taka fram að sú staðreynd að hluti atvinnutekna kæranda á árinu hafi farið í að greiða skuldir hafi ekki áhrif á réttindi hans til greiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar eða lögum um félagslega aðstoð. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum sé Tryggingastofnun bundin við þær upplýsingar. Telji kærandi að skattframtal hans hafi ekki verið rétt geti hann leitað til skattyfirvalda til að fá skattframtalið leiðrétt og óskað svo eftir endurreikningi Tryggingastofnunar.

Að lokum vilji Tryggingastofnun taka fram að við meðferð kærumálsins hafi komið í ljós að erindi kæranda, dags. 28. júní 2021, hafi aldrei verið svarað. Í því erindi komi fram skýr vilji hans til þess að fá kröfuna fellda niður eða lækkaða. Samráðsnefnd Tryggingastofnunar um meðferð ofgreiðslna hafi því tekið málið til meðferðar og óskað eftir frekari gögnum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2020 og innheimtu ofgreiddra bóta.

Kærandi fékk greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2020. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með tilteknum undantekningum. Atvinnutekjur og lífeyrissjóðstekjur eru tekjustofnar sem hafa áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Samkvæmt 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar skal til grundvallar bótaútreikningi leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins. Í 12. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar kemur fram að þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. 16. gr. sé við útreikning á greiðslum heimilt að telja atvinnutekjur til tekna bótaþega einungis í þeim mánuði þegar þeirra sé aflað. Í þeim tilvikum skuli Tryggingastofnun við endurreikning bótafjárhæða, sbr. 7. mgr., gera samanburð á útreikningi heildargreiðslna hvers mánaðar, annars vegar miðað við 1/12 af atvinnutekjum ársins og hins vegar miðað við atvinnutekjur í þeim mánuðum sem þeirra er aflað. Beita skuli þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna. 

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar skal ellilífeyrir lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn fellur niður. Þá segir að ellilífeyrisþegi skuli hafa 300.000 kr. almennt frítekjumark við útreikning ellilífeyris og 1.200.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna.

Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Samkvæmt gögnum málsins sendi Tryggingastofnun kæranda tekjuáætlun í upphafi árs 2020 þar sem gert var ráð fyrir 625.800 kr. í launatekjur og 216.768 kr. í lífeyrissjóðstekjur. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá áætlun og voru bótaréttindi því reiknuð og bætur greiddar út í samræmi við þær tekjuforsendur frá 1. janúar til 30. apríl 2020. Í kjölfar samtímaeftirlits Tryggingastofnunar við staðgreiðsluskrá í apríl 2020 kom í ljós að kærandi var með hærri launatekjur á árinu. Var í kjölfarið útbúin ný tekjuáætlun, dags. 14. apríl 2020, þar sem gert var ráð fyrir 29.590.000 kr. í launatekjur, 384 kr. í vexti og verðbætur og óbreyttum lífeyrissjóðstekjum. Kærandi var upplýstur um áætlaða kröfu að fjárhæð 1.098.048 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu fyrir framangreint tímabil. Kæranda var ekki greitt samkvæmt þessari áætlun þar sem hann lagði fram breytta tekjuáætlun 15. apríl 2020 þar sem launatekjur voru lækkaðar í 2.690.000 kr. en gert ráð fyrir óbreyttum lífeyrissjóðstekjum og fjármagnstekjum á árinu. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 28. apríl 2020, var beiðni kæranda um breytingu á tekjuáætlun samþykkt og hann upplýstur um inneign að fjárhæð 123.268 kr. sem hafi verið lögð inn á bankareikning hans. Greitt var samkvæmt þessari áætlun frá 1. maí til 31. október 2021.

Kærandi lagði fram breytta tekjuáætlun 15. október 2021 þar sem lífeyrissjóðstekjur voru hækkaðar í 1.216.431 kr. en aðrar tekjur voru óbreyttar. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 27. október 2020, var beiðni kæranda um breytingu á tekjuáætlun samþykkt og hann upplýstur um áætlaða ofgreiðslu að fjárhæð 258.926 kr. Bótaréttindi voru því reiknuð og bætur greiddar út miðað við þær forsendur út árið 2020. Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2020 reyndust tekjur kæranda á árinu vera 2.690.000 kr. í launatekjur, 1.043.982 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 2.487 kr. í fjármagnstekjur. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins leiddi í ljós að hann hafði fengið ofgreitt í bótaflokkunum ellilífeyrir, heimilisuppbót og orlofs- og desemberuppbætur, samtals að fjárhæð 421.964 kr., að teknu tillit til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Samkvæmt framangreindu reyndust tekjur kæranda vera hærri á árinu 2020 en gert hafði verið ráð fyrir í upphaflegri tekjuáætlun fyrir árið 2020. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur. Ástæða þess að endurkrafa myndaðist á hendur kæranda er sú að launatekjur og lífeyrissjóðstekjur hans voru vanáætlaðar í tekjuáætlun. Eins og áður hefur verið greint frá hafa umræddir tekjustofnar áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt.

Ágreiningur málsins varðar þann tekjulið í skattframtali kæranda þar sem fram koma upplýsingar um launatekjur. Kærandi gerir athugasemdir við að stofnunin hafi ekki tekið tillit til þess að hann hafi einungis fengið hluta af umræddum launatekjum þar sem ríkið hafi átt endurkröfurétt á kæranda og að Tryggingastofnun beri við útreikninga á tekjutengdum bótum að miða við þær tekjur sem einstaklingar fái raunverulega í sína vasa. Auk þess gerir kærandi athugasemdir við að hann hafi ekki notið frítekjumarks vegna umræddra launatekna.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að kærandi hafi fengið greiðslur frá vinnuveitanda í febrúar 2020 og að hluti þeirra tekna hafi farið í greiðslu skulda. Tryggingastofnun er ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtast á framtali bótaþega, enda kveður 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar skýrt á um að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli stofnunin endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Að þessu virtu fellst úrskurðarnefnd ekki á kröfu kæranda um að eingöngu verði litið til hluta launatekna hans á árinu 2020 í ljósi þess ófrávíkjanlega skilyrðis að við endurreikning skuli leggja til grundvallar álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Engin heimild er til þess að taka tillit til skulda við endurreikning bóta samkvæmt 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, en fyrir liggur að Tryggingastofnun hefur nú til skoðunar hvort tilefni sé til að lækka eða fella niður kröfu á hendur kæranda með vísan til 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Hvað varðar athugasemdir kæranda um að hann hafi ekki notið frítekjumarks vegna atvinnutekna á árinu 2020, þá bendir úrskurðarnefndin á að samkvæmt 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar skal til grundvallar bótaútreikningi leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins. Í 12. mgr. 16. gr. sömu laga kemur fram að þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. 16. gr. sé við útreikning á greiðslum heimilt að telja atvinnutekjur til tekna bótaþega einungis í þeim mánuði þegar þeirra sé aflað og í þeim tilvikum skuli Tryggingastofnun við endurreikning bótafjárhæða, sbr. 7. mgr., gera samanburð á útreikningi heildargreiðslna hvers mánaðar, annars vegar miðað við 1/12 af atvinnutekjum ársins og hins vegar miðað við atvinnutekjur í þeim mánuðum sem þeirra sé aflað. Beita skuli þeirri reglu sem leiði til hærri greiðslna. Eins og fram kemur í gögnum málsins framkvæmdi Tryggingastofnun framangreindan samanburð og var það hagstæðari niðurstaða fyrir kæranda að notast við undantekningarákvæði 12. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og naut kærandi því frítekjumarks launatekna í febrúarmánuði þar sem umræddar tekjur féllu allar til í þeim mánuði og var það hagstæðari niðurstaða fyrir kæranda. Ekki er því fallist á framangreinda málsástæðu kæranda.

Kærandi gerir auk þess athugasemdir við að Tryggingastofnun taki ekki tillit til þess við endurreikning að greiðslur úr lífeyrissjóði geti ýmist rýrnað eða hækkað og að rétt væri að miða við þær tekjur sem greiðsluþegi fái í heild sinni í vasann. Eins áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtast á framtali bótaþega, sbr. 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum ársins 2020.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta