Nr. 286/2018 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 12. júlí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 286/2018
í stjórnsýslumáli nr. KNU18050006
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 4. maí 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari Egyptalands (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. apríl 2018, um að synja umsókn hennar um ótímabundið dvalarleyfi hér á landi.
Af greinargerð kæranda má ráða af hún krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt ótímabundið dvalarleyfi.
Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi hér á landi þann 13. desember 2017. Með hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. apríl 2018, var umsókn kæranda synjað. Ákvörðun Útlendingastofnunar var tilkynnt kæranda þann 23. apríl 2018 og barst kæra ásamt sjónarmiðum kæranda til kærunefndar þann 4. maí sama árs. Kæranda var veittur frestur til 22. maí sl. til að leggja fram frekari gögn og var sá frestur framlengdur til 1. júní sl. Frekari gögn og upplýsingar bárust frá kæranda þann 15. og 23. maí sl.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að kærandi hafi fyrst fengið útgefið dvalarleyfi hér á landi fyrir maka útlendings þann 15. júní 2012 með gildistíma til 1. september sama árs. Það leyfi hafi verið endurnýjað fimm sinnum, síðast með gildistíma til 23. desember 2017. Þann 13. desember 2017 hafi kærandi lagt fram umsókn til Útlendingastofnunar um ótímabundið dvalarleyfi. Með þeirri umsókn hafi kærandi lagt fram yfirlýsingu varðandi kunnáttu sína í íslensku. Í yfirlýsingunni hafi m.a. komið fram að kærandi hafi ekki náð að ljúka 150 klukkustundum af námi í íslensku áður en hún hafi lagt fram umsókn sína um ótímabundið dvalarleyfi. Með vísan til 58. gr. laga um útlendinga og 14. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 taldi stofnunin ljóst að kærandi hefði ekki lokið áskildu námi í íslensku og var umsókn hennar um ótímabundið dvalarleyfi því synjað.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Með kæru til kærunefndar fylgdu athugasemdir kæranda. Segir þar m.a. að kærandi hafi lesið á vefsíðu Útlendingastofnunar að hægt væri að gera undanþágu frá skilyrði um ástundun íslenskunáms ef viðkomandi legði fram bréf þar sem gerð væri grein fyrir ástæðum þess af hverju ástundun væri ófullnægjandi. Kærandi hafi sent Útlendingastofnun slíkt bréf ásamt skjölum varðandi umsókn hennar um ótímabundið dvalarleyfi. Kærandi hafi þó fengið synjun á umsókn sinni og því hafi hún kært ákvörðun stofnunarinnar. Kærandi hyggist stunda íslenskunám og sækja námskeið varðandi veitingu íslensks ríkisborgaréttar í desember 2018. Þá tekur kærandi fram að hún sé móðir þriggja barna og sjái um umönnum þeirra. Hún hafi gengið í gegnum erfiða tíma vegna fæðingar á syni sínum. Um hafi verið að ræða einhver læknamistök og sonur hennar verið undir eftirliti heilbrigðisstarfsfólks í tvö ár. Með tölvupósti til kærunefndar, þann 15. maí sl., lagði kærandi fram læknaskýrslu frá Landspítalanum þar sem kemur fram að kærandi hafi gengist undir aðgerð þann 4. desember 2014.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um ótímabundið dvalarleyfi, sbr. 58. gr. laga um útlendinga.
Í 58. gr. laga um útlendinga er fjallað um ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laganna er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis eru m.a. þau útlendingur hafi sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga, sbr. c. liður 1. mgr. síðastnefnds ákvæðis. Samkvæmt 9. mgr. 58. gr. setur ráðherra í reglugerð nánari ákvæði um ótímabundið dvalarleyfi, þar á meðal um námskeið í íslensku fyrir útlendinga. Skal kveðið á um lengd námskeiðs, lágmarkstímasókn og vottorð til staðfestingar á þátttöku. Einnig er heimilt í reglugerð að kveða á um undanþágu frá þátttöku í námskeiði fyrir útlendinga sem náð hafa viðhlítandi þekkingu á íslensku og um próf því til staðfestingar. Þá er leyfilegt í reglugerð að kveða á um undanþágur frá skyldu til þátttöku í námskeiði og um gjald vegna þátttöku í námskeiði eða prófi.
Í 14. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 er fjallað nánar um námskeið í íslensku vegna umsóknar um ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal umsækjandi um ótímabundið dvalarleyfi hafa sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga hjá námskeiðshaldara sem mennta- og menningarmálaráðuneytið viðurkennir, að lágmarki samtals 150 stundir. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar er m.a. kveðið á um að heimilt sé að víkja frá ákvæðum 1. mgr. um þátttöku í áðurnefndu námskeiði ef umsækjandi hefur náð viðhlítandi þekkingu í íslensku og leggur fram vottorð því til staðfestingar, ef umsækjandi hefur náð 65 ára aldri og hefur búið hér á landi í a.m.k. sjö ár eða ef hann af líkamlegum eða andlegum ástæðum er ófær um að taka þátt í slíku námskeiði, eða ef umsækjandi getur lagt fram sönnur fyrir því að hann hafi lokið námi á grunnskóla-, framhaldsskóla- eða háskólastigi á íslensku sem gefur tilefni til að ætla að viðkomandi hafi öðlast fullnægjandi færni í íslensku.
Líkt og rakið er í hinni kærðu ákvörðun er ljóst af gögnum málsins að kærandi hefur ekki sótt námskeið í íslensku í samræmi við ákvæði 58. gr. laga um útlendinga og 14. gr. reglugerðar um útlendinga. Hefur kærandi gefið þær skýringar að hún hafi ekki haft tíma til að sækja slíkt námskeið vegna anna við umönnum barna sinna og þá hafi hún og sonur hennar glímt við veikindi. Geta þessar aðstæður kæranda ekki fallið undir þær undantekningar sem kveðið er á um með tæmandi hætti í 14. gr. reglugerðar um útlendinga. Er því ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði c-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga og því ekki heimilt að veita henni ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt framangreindu verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.
Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki gilt dvalarleyfi hér á landi. Til þess að kærandi eigi rétt á áframhaldandi dvöl á landinu þarf hún að sækja um endurnýjun dvalarleyfi sínu innan 15 daga frá móttöku þessa úrskurðar. Leggi kærandi ekki inn umsókn um dvalarleyfi til Útlendingastofnunar innan þess frests ber henni að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hún yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa henni, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Anna Tryggvadóttir Gunnar Páll Baldvinsson