Frumvarp um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum vegna eignarhalds í lágskattaríkjum
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um aðgerðir stjórnvalda til að sporna við skattsvikum vegna eignarhalds í lágskattaríkjum. Frumvarpið felur í sér ýmsar breytingar á skatta- og tollalögum en tilefni þess eru nýlegar upplýsingar um eignir Íslendinga í skattaskjólum og möguleg undanskot frá skatti sem kalla á tafarlaus og afdráttarlaus viðbrögð af hálfu íslenskra stjórnvalda.
Í frumvarpinu eru lagðar til eftirfarandi breytingar:
- Takmörkun á tapsfrádrætti félaga í lágskattaríki.
- Takmörkun á samruna og skiptingu yfir landamæri.
- Flutningar lögheimilis eða eigna til ríkja sem teljast lágskattaríki verði takmarkaðir verulega.
- Endurskoðun á CFC-ákvæðinu, sem fjallar um skattlagningu aðila sem eiga beina eða óbeina eignaraðild að félögum, sjóðum eða stofnunum sem eru heimilisföst í lágskattaríkjum, í átt til frekari skýringar.
- Endurskoðun á upplýsingaskyldu fjármálastofnana og lögmanna.
- Heimild til endurákvörðunar skatts lengd úr sex árum í tíu ár vegna tekna og eigna í lágskattaríkjum sem ekki hefur verið gerð fullnægjandi grein fyrir í skattskilum.
- Fyrningartími sakar lengdur úr sex árum í tíu ár vegna tekna í lágskattaríkjum.
- Aukið aðgengi innheimtumanna að upplýsingum um eignastöðu gjaldenda.
- Efling áhættustjórnunar og aukin greiningarvinna – greiningardeild tollstjóra.
- Hert viðurlög vegna rangrar upplýsingagjafar við innflutning.
Starfshópur gegn skattundanskotum og nýtingu skattaskjóla
Þá hefur fjármála- og efnahagsráðherra skipað starfshóp til að gera tillögur að breytingum á lögum, reglugerðum og verklagsreglum sem saman munu mynda frekari aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda gegn skattaundanskotum og nýtingu skattaskjóla almennt.
Má þar nefna BEPS-verkefnið svokallaða (e. Base Erosion and Profit Shifting), reglur um þunna eiginfjármögnun og takmörkun á frádrætti vegna arðs frá félögum í lágskattaríki.
Grunnurinn að vinnu starfshópsins eru tillögur frá embætti ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og tollstjóra sem svar við beiðni ráðuneytisins um mat á þörf fyrir frekari úrræði þeim til handa til að bregðast við þeim aðstæðum sem nú eru uppi.
Í hópnum sitja:
- Maríanna Jónasdóttir, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneyti, formaður hópsins
- Ingibjörg Helga Helgadóttir, lögfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti
- Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri
- Guðrún Jenný Jónsdóttir, lögfræðingur hjá ríkisskattstjóra
- Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri
- Sigurður H. Ingimarsson, viðskiptafræðingur hjá skattrannsóknarstjóra
- Snorri Olsen, tollstjóri
- Jóhanna Guðbrandsdóttir, lögfræðingur hjá tollstjóra
- Hafdís Ólafsdóttir, lögfræðingur í forsætisráðuneyti
Starfsmenn hópsins eru Benedikt Benediktsson og Steinar Örn Steinarsson. Starfshópurinn skal skila skýrslu með tillögum sínum til ráðherra í síðasta lagi 30. júní nk.
- Frumvarp til laga um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl. (PDF)
- Upplýsingar á vef Alþingis um frumvarp til laga um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.