Hungur breiðist út á horni Afríku
Alvarlegur fæðuskortur ógnar lífi fólks í löndum sem kennd eru við horn Afríku. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, birti í gær neyðarákall um fjárhagslegan stuðning til að veita lífsbjargandi aðgerðir í þágu íbúa þessa heimshluta, að fjárhæð 123,7 milljónir bandarískra dala, rúma 17 milljarða íslenskra króna.
Talið er að rúmlega 80 milljónir manna í sjö löndum – Djíbútí, Eþíópíu, Kenía, Sómalíu, Suður-Súdan, Súdan og Úganda – hafi varla til hnífs og skeiðar. Tæplega 40 milljónir manna til viðbótar búa við mikla vannæringu og hafa þurft að selja eigur sínar til að fæða fjölskyldur sínar.
Stríðsátök, loftslagsbreytingar og heimsfaraldur leggjast á eitt um að skapa alvarlegan matarskort í þessum heimshluta sem kann að hafa skelfilegar afleiðingar fyrir líf og heilsu íbúanna.
„Hungur er bein ógn við heilsu og afkomu milljóna íbúa á horni Afríku en sulturinn veikir einnig varnir líkamans og opnar dyr fyrir sjúkdóma,“ segir Tedros Adhanom Ghebreyesus framkvæmdastjóri WHO. Hann segir stofnunina leita til alþjóðasamfélagsins um stuðning við þá tvíþættu ógn sem við að er glíma, veita vannærðu fólki aðstoð og verja það gegn smitsjúkdómum.
Óttast er að komandi regntímabil verði líkt og þau síðustu án úrkomu sem eykur á bjargarleysið. Þegar hafa borist fréttir af dauðsföllum meðal barna og fæðandi kvenna og WHO segir mislinga hafa komið upp í sex löndum af sjö. Einnig berjist ríkin við faraldra kóleru- og heilahimnubólgu sökum versnandi hreinlætis. Hreint vatn er af skornum skammti og stöðugt fleiri flosna upp af heimilum sínar. Margt fólk fer fótgangandi að heiman í leit að matvælum, vatni og beitarlandi fyrir búpening.
Talið er að nú þegar séu um 4,2 milljónir flótta- og farandfólks í löndunum sjö og líklegt að þeim fjölgi eftir því sem fleiri neyðast til að yfirgefa heimili sín.