Opnað fyrir rafrænar umsóknir á leyfum til að nota starfsheiti í tækni- og hönnunargreinum
Nú er hægt að sækja um leyfi til að nota tiltekin starfsheiti sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum með rafrænum hætti í gegnum Mínar síður Stjórnarráðsins. Breytingin er liður í eflingu á starfrænni stjórnsýslu og hefur í för með sér einföldun fyrir notendur þjónustunnar.
Einföldun leyfisveitinga og regluverks hefur verið eitt af forgangsverkefnum Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Það samræmist áherslum í stjórnarsáttmálanum og er hluti af rafrænni-væðingu Stjórnarráðsins auk þess að fela í sér nýsköpun á sviði opinberrar þjónustu og stjórnsýslu.
Leyfi til að nota starfsheiti sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum eru veitt á grundvelli laga nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni-og hönnunargreinum. Lögin taka til starfsheita arkitekta (húsameistara), byggingafræðinga, grafískra hönnuða, húsgagna- og innanhússarkitekta (húsgagna- og innanhússhönnuða), iðnfræðinga, landslagsarkitekta (landslagshönnuða), raffræðinga, skipulagsfræðinga, tæknifræðinga, tölvunarfræðinga og verkfræðinga.
Þeir einstaklingar sem lokið hafa fullnaðarprófi í einhverri af þessum starfsgreinum geta nú sótt um leyfi til að nota viðkomandi starfsheiti með rafrænum hætti.