Hildur Rúna Hauksdóttir - Ákvæðin þrjú
Athugasemdir við þrjár tillögur stjórnarskrárnefndar forsætisráðherra
Fyrst vil ég undirritaður minna á um 100 innsendar athugasemdir frá almennum borgurum og félagasamtökum vegna fyrstu (og einu) áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndarinnar. Flestar þeirra snerust um að virða ætti afgerandi niðurstöðu úr þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. okt. 2012 um að leggja bæri tillögur Stjórnlagaráðs til grundvallar að nýrri stjórnarskrá. Nefndin tók ekki mið af þessum fjölmörgu ábendingum og áskorunum og er það miður.
Í grein í Fréttablaðinu (*) þann 5. mars sl. spyr lagaprófessor við Harvard háskóla að því hvort Alþingi hunsi fullveldi íslensku þjóðarinnar og þá með hvaða rétti? Hann segir í greininni og vísar þar til Þjóðfundar 2010, niðurstöðu Stjórnlagaráðs og þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012: “Ef lýðræði er vald þjóðar, og ef fullveldi lýðræðisþjóðar byggist á vilja þjóðarinnar, þá er þessi aðferð og þessi stjórnarskrá eins gild og ósvikin og stjórnarskrár annarra ríkja heimsins.” Í niðurlagi greinarinnar lýsir hann furðu sinni á framferði Alþingis: “Þjóðir heims líta hver til annarrar í leit að hugmyndum. Afrek íslensku þjóðarinnar, sem samdi stjórnarskrá með opinni og gegnsærri aðferð, hefur veitt milljónum manna innblástur. Þeir eru þó mun fleiri sem furða sig á andstöðu Alþingis.”
Nú stöndum við frammi fyrir því að taka afstöðu til þriggja viðbótarákvæða við gömlu lýðveldisstjórnarskrána. Ljóst er að ákvæðin þrjú eru í veigamiklum atriðum frábrugðin sambærilegum ákvæðum í tillögum Stjórnlagaráðs og ganga mun skemur. Auk þess ber nokkuð á lagatæknilegu orðalagi sem erfitt getur verið að skilja til fullnustu. Auðlindaákvæðið undanskilur t.a.m. auðlindir sem háðar eru einkaeignarrétti. Þannig munu opinberar eigur í umsjá sveitarfélaga, háhitasvæði, vatnsuppsprettur og fallvötn væntanlega vera undanskildar og alls ekki víst að almenningur átti sig á því. Auk þess virðist áhersla vera lögð á að ákvæðinu sé ekki ætlað að raska gildandi lögum um stjórn fiskveiða, þjóðendur og fl. Í greinargerð er tekið fram að ákvæðið muni “ekki sjálfkrafa raska þeim óbeinu eignarréttindum sem kunna að felast í afnota- eða hagnýtingarrétti sem þegar kann að hafa verið stofnað til gagnvart landsréttindum og auðlindum sem samkvæmt frumvarpinu munu teljast í þjóðareign…”
Verður því að álykta sem svo að verið sé að festa núverandi fyrirkomulag í sessi þó ólíklegt megi teljast að raunverulegur vilji kjósenda sé á þann veg.
Samkvæmt breytingarákvæði til bráðabirgða þarf fyrst samþykki minnst 2/3 hluta atkvæða á Alþingi og því næst meiri hluta gildra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu, þó minnst atkvæði 40 af hundraði allra kosningabærra manna. Ljóst er að verulegar líkur eru á því að kosningaþátttaka muni koma í veg fyrir samþykkt þessara þriggja frumvarpa, þó svo að meirihluti kjósenda kunni að vera þeim fylgjandi. Vísað er til þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslum 2010, 2011og 2012 sem var á bilinu 49% til 75%. Kosningaþátttaka þyrfti að vera yfir 80% til að jafnræði væri með kjósendum og hlýtur slíkt að teljast ólýðræðislegt.
Að lokum vil ég hvetja Alþingi til að virða rétt og vilja þjóðarinnar að semja og samþykkja nýjan samfélagssáttmála. Er það þjóðin eða er það Alþingi sem er fullvalda?
Hildur Rúna Hauksdóttir