Afkoma ríkissjóðs 27 milljörðum betri en áætlað var - horfur um bætta afkomu á árinu
I. Afkoma ríkissjóðs fyrstu sex mánuði ársins er 27 milljörðum króna betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Afkomubatinn skýrist af sterkari tekjuvexti en búist hafði verið við. Þetta kom fram í nýbirtu hálfsársuppgjöri Fjársýslunnar. Er þessi tekjuvöxtur að miklu leyti drifinn áfram af efnahagsbata sem hefur verið umfram væntingar við samþykkt fjárlaga í lok síðasta og árs og gerð fjármálaáætlunar á vormánuðum. Er þetta ekki síst raunin á öðrum fjórðungi ársins.
II. Efnahagsbatinn birtist með skýrum hætti á vinnumarkaði þar sem atvinnuleysi nálgast hratt það stig sem það var á fyrir faraldurinn. Kannanir meðal fyrirtækja benda til þess að lausum störfum hafi fjölgað til muna. Gefur það fyrirheit um að atvinnuleysi kunni að minnka enn frekar. Ferðamönnum hefur fjölgað hratt í sumar. Vísbendingar eru um hraðan vöxt einkaneyslunnar og að hún sé nú orðin meiri en áður en faraldurinn skall á. Þá eru heimilin nú orðin jafn bjartsýn á efnahagshorfur eins og þau voru þegar best lét 2016-2017 samkvæmt væntingavísitölu Gallup og vísbendingar um atvinnuvegafjárfestingu benda til mikils vaxtar eins og bent er á í nýjum Peningamálum Seðlabankans.
III. Halli á rekstri ríkissjóðs var engu að síður 119 milljarðar króna fyrstu sex mánuði ársins, sem er áþekkur halli og á sama tíma í fyrra.
IV. Tekjur ríkissjóðs reyndust 57,8 ma.kr. meiri á fyrri helmingi ársins samanborið við sama tímabil í fyrra. Aukningin er því 16,8% milli ára en skýrist að stórum hluta af áhrifum Covid-19 tengdra frestana skattgreiðsla á innheimtu ríkissjóðs. Leiðrétt fyrir áhrifum frestana voru tekjur ríkissjóðs um 37 ma.kr. hærri en á sama tímabili í fyrra og nemur aukningin um 10%. Tekjur af sköttum og tryggingagjöldum voru 24,6 ma.kr. meiri á fyrri helmingi ársins en gert var ráð fyrir í áætlun fjárlaga. Ef leiðrétt er fyrir áhrifum frestana er tekjuvöxturinn 4,6% milli ára.
V. Ef litið er til einstakra tekjustofna ríkissjóðs skilaði tekjuskattur einstaklinga tæplega 7,5 ma.kr. meiri tekjum á fyrri helmingi ársins en gert var ráð fyrir í áætlun fjárlaga; tekjur af virðisaukaskatti voru 6,8 ma.kr. hærri en gert var ráð fyrir, sem er í samræmi við bjartari efnahagshorfur á árinu sem tekið var mið af við endurmat tekjuáætlunar sl. vor; og raungerst hafa síðan þá; og skattur á fjármagnstekjur var 1,3 milljörðum króna hærri en gert var ráð fyrir.
VI. Gjöld á fyrri hluta ársins námu 508 milljörðum króna. Það er lítillega hærra en áætlað var en gjöld vaxa um 16% milli ára. Aukningu gjalda má einkum rekja til aðgerða sem ráðist hefur verið í til að mæta áhrifum Covid-19. Þannig hafa t.a.m. útgjöld, á milli ára, í sérfræðiþjónustu og hjúkrun aukist um tæp 29% að auki við 11% hækkun til hjúkrunar- og dvalarrýma, útgjöld til lyfjakaupa hækkað um 20% og ríflega 39% meira verið sett í húsnæðisstuðning, svo fátt eitt sé nefnt.
Bættar horfur fyrir árið í heild
VII. Með hliðsjón af afkomuþróuninni sem af er ári og vísbendingum sem felast í endurskoðuðum efnahagsspám eru líkur á að afkoma ríkissjóðs fyrir árið í heild sinni og afkoman á næsta ári verði betri en vænst var í fjármálaáætlun (hefur þá verið tekið tillit til þess að reikningsleg framsetning fjármálaáætlunar er með nokkuð öðrum hætti en í uppgjöri ríkisreiknings frá Fjársýslunni).
VIII. Framvindan á tímabili fjármálaáætlunar gæti því orðið nærri þeim bjartsýnu sviðsmyndum sem birtar hafa verið. Því til viðbótar hefur 35% eignarhlutur ríkissjóðs í Íslandsbanka verið seldur fyrir 55 ma.kr. og verðmæti eigna ríkisins í fjármálafyrirtækjum hækkað verulega.
IX. Að öllu öðru óbreyttu verður lánsfjárþörf ríkissjóðs því minni sem þessu nemur og áhrif faraldursins á skuldahlutföll ríkissjóðs að verða mun minni en óttast var í fyrstu.
X. Útlit er fyrir að skuldastaða ríkissjóðs á mælikvarða laga um opinber fjármál í lok árs 2021 verði um það bil 35% af VLF í stað rúmlega 37% af VLF í gildandi fjármálaáætlun.
XI. Rétt er að minna á að veruleg óvissa ríkir enn sem fyrr um efnahagsframvinduna næstu misseri.