Hoppa yfir valmynd
10. október 1996 Heilbrigðisráðuneytið

Alþjóðlegur geðheilbrigðisdagur

Ingibjörg Pálmadóttir
heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra


     Alþjóðasamband um geðheilbrigði, með stuðningi frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni hefur undanfarin ár gengist fyrir því að heilbrigðisyfirvöld í hverju landi gerðu 10. október að alþjóðlegum geðheilbrigðisdegi. Fyrir ári síðan staðfesti ég að 10. október ár hvert yrði tileinkaður geðheilbrigðismálum hér á landi. Í tilefni þessa dags hef ég beint þeim tilmælum til Landlæknisembættisins, Sálfræðingafélags Íslands, Geðlæknafélags Íslands, Geðhjálpar, Geðverndarfélags Íslands og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga að minnast þessa dags með því að vekja athygli á málefnum geðsjúkra.
        Í dag stendur samstarfshópur um 10 október, aðilar frá nokkrum félagasamtökum um málefni geðsjúkra, fyrir umfangsmikilli dagskrá undir yfirskriftinni " Ræðum geðsjúkdóma, þekking hjálpar". Þessi áhersla er tímabær þar sem þekking er grunnur að árangri og skilningi á högum geðsjúka.
        Við hér á landi getum verið stolt af því starfi sem unnið er á sviði geðheilbrigðismála. Hér á landi eru reknar öflugar og vel búnar geðdeildir með vel menntuðu starfsfólki og starfandi eru öflug samtök geðsjúkra og aðstandenda þeirra.
        Markmiðið er að veita sem besta þjónustu við þá sem eiga við geðsjúkdóma að stríða og aðstandendur þeirra. Við þurfum stundum að horfa upp á ýmis vandamál á tímum aðhalds í útgjöldum, en ég hef ætíð reynt að koma í veg fyrir að það bitni á þeim sem minnst mega sín. Nú í ár hefur þjónusta við geðsjúka verið bætt. Lokanir deilda og fækkun legurýma hefur verið minni í ár miðað við síðustu ár, og reynt hefur verið að sinna fleirum með dagdeildarúrræðum. Tryggt hefur verið varanlegt fjármagn fyrir stöðu barnageðlæknis á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Þá hef ég á þessu ári beitt mér fyrir sérstakri fjárveitingu til Barna- og unglingageðdeildar. Fjárveitingu til að efla starf deildarinnar og að koma á fót upplýsingamiðstöð fyrir aðstandendur ungra vímuefnaneytenda, í samvinnu við aðra þá aðila, er vinna að málaflokknum. Þegar á heildina er litið er þjónusta við geðsjúka hér á landi að mörgu leyti til fyrirmyndar og fordómar gagnvart geðsjúkum eru minni en víðast hvar annarsstaðar.
        Ég vil einnig minna á ýmis félagasamtök og fyrirtæki sem hafa stutt ötullega við þjónustu geðfatlaðra. Það er mikilvægt í lýðræðisþjóðfélagi að einstaklingar séu virkir þátttakendur og veiti okkur stjórnmálamönnum aðhald og sýni frumkvæði.
        Ég hef í undirbúningi að standa fyrir öflugu fræðsluátaki fyrir starfsfólk heilsugæslunnar sem varðar greiningu, viðbrögð og móttöku á einstaklingum með geðræn vandamál. Tilgangurinn með fræðsluátakinu er að efla heilsugæsluna og gera hana hæfari til að sinna sínu hlutverki. Hluti þeirra sem sækja heilsugæsluna eiga við geðræn vandamál að stríða. Starfsfólk heilsugæslustöðva hefur bent á að viðfangsefni þeirra sé í vaxandi mæli að greina og veita ráðgjöf á þessu sviði. Því er mikilvægt að læknum og hjúkrunarfræðingum sé gert kleift að sinna þessum hluta starfsins vel. Þessi leið að efla frumheilsugæslu við geðsjúka hefur verið reynd í nágrannalöndunum, nú síðustu ár með ágætum árangri.
         Þjóðfélagið í dag breytist hratt, unglingar verða vímuefnum að bráð og í flóknari samfélagsskipan er erfiðara að fóta sig. Við verðum að fylgjast vel með og vera fljót að tileinka okkur nýjustu þekkingu og meðferðarúrræði á sviði geðheilbrigðismála. Til að tryggja að við höldum stöðu okkar í farabroddi hvað varðar baráttu við geðsjúkdóma hef ég um nokkurt skeið haft í undirbúningi að setja á fót starfshóp um stefnumótun í málefnum þeirra sem eiga við geðsjúkdóma að stríða. Sá hópur samanstendur af fagfólki og aðilum frá áhugamanna- og félagsamtökum. Hlutverk þessa starfshóps verður m.a. fólgið í að gera tillögur um áherslur í geðheilbrigðisþjónustu á komandi árum.
         Nýtum daginn vel og minnumst þeirra sem eiga við geðsjúkdóma að stríða og aðstandenda þeirra.

Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta