JK - Ræður: Vígsla þjálfunarhúss, Reykjalundi - jan 2002
Ávarp Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra,
við vígslu þjálfunarhúss á Reykjalundi
4. janúar 2002
Forseti Íslands – biskup og aðrir góðir gestir.
Ég hef oftsinnis orðið var við að mjög margir muna eftir því þegar forveri minn dansaði línudans til styrktar því glæsilega mannvirki sem hér er risið. Þetta var þegar landssöfnunin Sigur lífsins var að hefjast í Sjónvarpi.
Þá eins og svo oft áður sýndi þjóðin að SÍBS og Reykjalundur skipa sérstakan sess í huga hennar.
Þetta er af því SÍBS og Reykjalundur eru táknmyndir þjóðarinnar um sigur lífsins – lifandi dæmi um það hvernig við getum í sameiningu stutt sjúka til sjálfsbjargar.
Það var kjörorðið sem forvígismenn SÍBS höfðu að leiðarljósi í óeigingjörnu hugsjónastarfi sínu í upphafi og þetta er í raun veigamikið markmið sem við höfum sett okkur með allri þeirri heilbrigðisþjónustu og endurhæfingu sem við veitum og höfum sameinast um að veita.
Þeir skilja það best sem hingað hafa komið hve mikilvæg sú þjónusta er sem hér er veitt.
Hugmyndafræðin sem Reykjalundur byggir á er þekkt víða um lönd, endurhæfingin með því besta sem þekkist, og árangurinn ómetanlegur bæði fyrir þann sem í hlut á, og okkur hin, já raunar fyrir samfélagið allt.
Markmiðið með endurhæfingunni hér hefur ávalt verið að sjá til þess að sjúklingurinn nái aftur eins góðri líkamlegri, andlegri og félagslegri færni og kostur er. Meðferðin er sniðin að þörfum hvers og eins og er bæði í formi hópmeðferðar og einstaklingsmeðferðar. Mikil áhersla er lögð á fræðslu sjúklinga til að undirstrika að heilbrigðir lífshættir stuðla að góðri heilsu. Þetta hefur verið kjarninn í starfseminni hér.
Sú glæsilega aðstaða sem hér hefur verið byggð upp af miklu stórhug er í einu orði sagt bylting borið saman við þá aðstöðu sem einu sinni þótt prýðileg, en var barn síns tíma.
Þessari byltingu má líkja við þær breytingar sem við höfum svo oft orðið vitni að, að verða á sjúklingnum frá því hann kemur hér inn til endurhæfingar, og þar til hann heldur út í lífið á nýjan leik.
Hversu oft höfum við ekki séð skyldmenni, vini eða kunningja, sem hafa komið hér lasnir og veikburða, vonlausir um nokkurn tíma að ná fullum bata. Og hversu oft höfum við ekki orðið vitni að því þegar við hittum þetta fólk aftur hve dvölin á Reykjalundi hefur gert mönnum gott. Við þekkjum öll þessi dæmi.
Á þeim tæpu 57 árum sem liðin eru frá því SÍBS hóf rekstur vinnuheimilis SÍBS að Reykjalundi hafa tugir þúsunda manna notið hér bestu hugsanlegu endurhæfingar eftir slys og sjúkdóma. Stór hluti þeirra hefur orðið virkur í þjóð-og atvinnulífi á ný. Starf ykkar hefur verið ómetanlegt.
Fyrir ekki löngu síðan gerðu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og Reykjalundur með sér þjónustusamning um reksturinn hér á Reykjalundi og var samningurinn upphaflega til fjögurra ára. Samkvæmt honum greiðir ríkið um þrjá milljarða króna fyrir þjónustu sem veitt er hér á samningstímanum, eða 751,5 milljónir króna á ári í fjögur ár.
Samningurinn felur í sér að á Reykjalundi verða að jafnaði 165 til 175 sjúklingar til meðferðar á þeim níu sviðum sem hér eru starfrækt.
Það er von mín að þessi samningur verði þegar upp er staðið báðu til góðs, en ég veit miðað við þá rækt sem hér er lögð við sjúklingana að hann verður þeim til góðs.
Ágætu gestir.
Þetta þriggja hæða 2700 fermetra hús, þessar tvær sundlaugar, heiti potturinn, íþróttasalurinn stóri, æfingasalir og búningsklefar – allt ber vitni um stórhug, þrautseigju og þor.
Þetta er áþreifanlegur vitnisburður um virðinguna, sem þeir sem hér eru í forsvari, bera fyrir viðfangsefni sínu – að þjóna þeim sem sjúkir eru. Hér blasir hvarvetna við hve vel menn vilja gera við þá sem hingað leita.
Ég óska Reykjalundi og SÍBS hjartanleg til hamingju, og þjóðinni sem ég von að fjölmenni hér á morgun.