Hoppa yfir valmynd
18. mars 2020 Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis, Heilbrigðisráðuneytið

Úrskurður nr. 11/2020

I. Beiðni um undanþágu.

Með tölvupósti, dags. 16. mars 2020, barst heilbrigðisráðuneytinu beiðni frá Námsflokkum Reykjavíkur um undanþágu frá auglýsingu nr. 216/2020, um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar. 

Í beiðninni kemur fram að nemendahópar séu mjög viðkvæmir fyrir breytingum og sumir myndu tæpast eða ekki nýta sér fjarnám. Fámennir nemendahópar auki möguleika á að uppfylla skilyrði um fjarlægð manna á milli. Þá kemur meðal annars fram að áhersla verði lögð á hreinlæti og fjarlægð milli manna. Nám í átaksverkefnum, karla- og kvennasmiðjum verði óbreytt. Þetta séu fámennir hópar, auk þess sem vænta megi að aukin forföll verði vegna ráðstafana í leik- og grunnskólum. Um sé að ræða 15 nemendur í kvennasmiðjum og 8 í karlasmiðju. Nám í Námskrafti verði þannig að nemendur fái heimaverkefni í heimspeki, íslensku og stærðfræði. Hvor Námskraftshópur komi tvisvar í viku í annars vegar list- og verkgreinar og hins vegar stærðfræði. Skiptingin innan hvors hóps verði þá þannig að 4–7 nemendur verði í hvorri námsgrein í einu. Um sé að ræða 30 nemendur alls.

II. Umsagnir.

Heilbrigðisráðuneytið óskaði eftir umsögnum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og sóttvarnasviðs Embættis landlæknis um undanþágubeiðnina. Í umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytisins segir meðal annars eftirfarandi:

„Auglýsing um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar nr. 216/2020, er mjög skýr en fram kemur í 5. gr. hennar að framhalds- og háskólum skal lokað. Fjarkennslu skal sinnt eftir því sem unnt er og samkvæmt nánari ákvörðun menntamálayfirvalda.

Með því að heimila undanþágu frá auglýsingu á skólastarfi vegna farsóttar á þeim grundvelli að nemendur séu viðkvæmir fyrir breytingum og að þeir sem eru í framhaldsskólaverkefninu Námskrafti myndu tæpast eða ekki nýta sér fjarnám mun setja fordæmi fyrir alla þá nemendur sem eru viðkvæmir fyrir breytingum á einn eða annan hátt á landinu og þá um leið setja markmið auglýsingarinnar í hættu.

Með vísan til jafnræðis, þess fordæmis sem ákvörðunin mögulega felur í sér og að markmið auglýsingarinnar gæti verið í hættu leggur mennta- og menningarmálaráðuneytið til að beiðninni verði hafnað. Ráðuneytið gerir umsögn þessa á þeim forsendum sem snýr að menntamálum í landinu en ef umsögn sóttvarnarlæknis er önnur mun ráðuneytið ekki leggjast gegn niðurstöðu hans.“

Af hálfu sóttvarnasviðs Embættis landlæknis kom fram að ekki væru gerðar athugasemdir við umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þá hafi verið tekin afstaða til sambærilegrar beiðni sem lokið var með úrskurði í máli nr. 008/2020. Þar hafi komið fram að þótt beiðnin væri vissulega skiljanleg og hagsmunir verknámsnema umtalsverðir yrði ekki séð af umsókninni að þeir gætu vegið þyngra en þeir almannahagsmunir sem ákvörðun um takmörkun skóla væri ætlað að vernda. Í þeim efnum var meðal annars minnt á að ákvörðunin undanskildi ekki verknám frá lokun framhaldsskóla. Því gæti sóttvarnalæknir ekki mælt með því að undanþágan yrði veitt.

 

III. Niðurstaða.

Í 5. gr. auglýsingar nr. 216/2020 segir að framhalds- og háskólum skuli lokað og fjarkennslu skuli sinnt eftir því sem unnt er og samkvæmt nánari ákvörðun menntamálayfirvalda. Samkvæmt 6. gr. getur heilbrigðisráðherra veitt undanþágu frá takmörkun skólastarfs ef ekki er talin hætta á að slíkt fari gegn markmiðum opinberra sóttvarnaráðstafana.

Við mat á því hvort heimila eigi undanþágu samkvæmt ákvæðinu þarf því meðal annars að líta til þess hvort undanþágan sem slík stefndi í hættu ráðstöfunum til að varna útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins en jafnframt hvort undanþágan yrði fordæmi sem ekki væri unnt að fylgja eftir vegna þess að samþykkt allra sambærilegra tilvika myndi grafa undan framangreindum ráðstöfunum. Þá telur ráðuneytið, í ljósi auglýsingar nr. 217/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, að undanþága yrði almennt ekki veitt nema með þeim skilyrðum sem gilda um takmörkun á samkomum. Að mati ráðuneytisins kemur einkum til greina að veita undanþágur þegar um mjög sérstakar aðstæður er að ræða og að takmörkun á skólahaldi kæmi sérstaklega þungt niður á viðkomandi nemendum, kennurum eða aðstandendum, svo sem í tilvikum þeirra sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Heilbrigðisráðuneytið hefur farið yfir umsóknina og umsagnir umsagnaraðila. Umsóknin er einkum byggð á sjónarmiðum sem eiga við um flest allt verknám en jafnframt er vísað til þess að nemendahópurinn sé almennt viðkvæmur fyrir breytingum án þess að það sé skýrt nánar. Þrátt fyrir að ráðuneytið geti fallist á að takmörkun skólahalds í framhaldsskólum komi almennt þyngra niður á verknámi en bóknámi telur ráðuneytið ekki unnt að veita undanþágu á þeim grundvelli eingöngu, enda kynni það að leiða til þess að veita þyrfti fjölda nemenda sambærilega undanþágu í verknámsskólum um allt land.

Ráðuneytið hefur talið að viðkvæm staða nemenda geti verið grundvöllur fyrir því að undanþága sé veitt, svo sem vegna fötlunar, sbr. úrskurð ráðuneytisins nr. 006/2020. Það eigi þó einungis við í undantekningartilvikum. Af umsókninni verður ekki ráðið að aðstæður í þessu máli séu með sama hætti og í fyrrgreindum úrskurði. Það er því mat ráðuneytisins að það samræmist ekki markmiðum þeirra opinberu sóttvarnaráðstafana sem gripið hefur verið til að veita umbeðna undanþágu. Undanþágubeiðninni er því hafnað.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Námsflokka Reykjavíkur um undanþágu frá auglýsingu nr. 216/2020, um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, er hafnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta