Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra mælir fyrir frumvarpi um nýja Umhverfis- og orkustofnun

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur mælt á Alþingi fyrir frumvarpi til laga um nýja Umhverfis- og orkustofnun. Stofnuninni er ætlað að hafa með höndum stjórnsýslu á sviði loftslags-, umhverfis- og orkumála og málefna auðlindanýtingar.

Frumvarpið er liður í umfangsmiklum stofnanabreytingum sem unnið hefur verið að í samvinnu við stofnanir ráðuneytisins frá miðju ári 2022. Í þeirri vinnu hefur sérstök áhersla verið lögð á að standa vörð um mikilvæga þekkingu og sérhæfingu starfsmanna stofnanna og að stuðlað verði að enn frekari þekkingaruppbyggingu og nýsköpun. Einnig er rík áhersla á að fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum með sveigjanlegum starfsstöðvum í kjörnum sem dreifast um landið.

Niðurstaða vinnu við endurskipulagningu stofnana er að í stað átta þeirra verði til þrjár öflugri og stærri stofnanir. Áformað er að leggja fram á yfirstandandi löggjafarþingi alls fjögur frumvörp þar sem lagðar eru til stofnanabreytingar. Frumvarp það sem nú liggur fyrir felur í sér tillögu um samruna Orkustofnunar og þess hluta Umhverfisstofnunar er lýtur að umhverfis- og loftslagsmálum. Frumvarpið helst í hendur við frumvarp til laga um nýja Náttúruverndar- og minjastofnun, en framlagning þess hefur nú þegar verið samþykkt í ríkisstjórn. Það frumvarp felur í sér tillögu um sameiningu náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar, Minjastofnunar Íslands, Vatnajökulsþjóðgarðs og Þingvallaþjóðgarðs.

Gert er ráð fyrir að ný Umhverfis- og orkustofnun vinni að megináherslum um að draga úr losun og auka bindingu kolefnis, að tryggja orku til orkuskipta, orkuöryggi og jafnt aðgengi að orku á landsvísu, sem og eflingu hringrásarhagkerfis og að tryggja sjálfbæra nýtingu og heilnæmt umhverfis fyrir íbúa þessa lands. Ávinningur af samruna þeirra verkefna sem hér um ræðir lýtur að faglegum viðfangsefnum, mannauði og þekkingu, fjármagni, innri virkni og þjónustu.

Áhersla er lögð á að ný stofnun sinni vandaðri þjónustu með skilvirkum ferlum, skýrri upplýsingamiðlun og góðri ráðgjöf. Verði frumvarpið að lögum mun fjöldi stöðugilda í stofnuninni verða 115.

„Orku- og loftslagsmál eru stærstu málaflokkar okkar tíma og krefjandi markmið íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum gera kröfu um aukna skilvirkni og einföldun kerfisins.  Með aukinni samþættingu orku- og loftslagsmála væntum við þess að hægt verði að byggja aðgerðir í loftslagsmálum á sterkari gögnum og nýta þekkingu og fjármuni betur,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Frumvarpið felur í sér einfalda og skýra lagaumgjörð með áherslu á málefni nýrrar stofnunar og eðli verkefna. Gert er ráð fyrir að stofnunin taki við þeim mörgu og fjölbreyttu verkefnum og hlutverkum sem Umhverfisstofnun og Orkustofnun sinna í dag skv. fjölda sérlaga. Má þar nefna löggjöf um verndar- og orkunýtingaráætlun, loftslagsmál, hollustuhætti og mengunarvarnir, meðhöndlun úrgangs, stjórn vatnamála, raforku, rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum, orkusjóð o.fl.

Frumvarp til laga um Umhverfis- og orkustofnun

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta