Hoppa yfir valmynd
12. mars 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 58/2013

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

Miðvikudaginn 12. mars 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 58/2013:

 

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með ódagsettri kæru, mótt. 30. október 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 16. október 2013, á umsókn hans um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 10. maí 2013. Umsókn kæranda um sérstakar húsaleigubætur var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 12. ágúst 2013, með þeim rökum að kærandi og kona hans hafi ekki uppfyllt skilyrði um sérstakar húsaleigubætur þar sem umsókn þeirra hafi einungis verið metin til fimm stiga. Með bréfi þjónustumiðstöðvar var hins vegar tilkynnt að kærandi og kona hans væru komin á biðlista eftir félagslegri leiguíbúð. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs með bréfi, dags. 21. ágúst 2013. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 16. október 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Velferðarráð staðfesti mat starfsmanna þjónustumiðstöðvar á stigagjöf vegna umsóknar um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur, sbr. matsblað með reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur.

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 16. október 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með ódagsettu bréfi, mótt. 30. október 2013. Með bréfi, dags. 31. október 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun á umsókn kæranda. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 25. nóvember 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 28. nóvember 2013, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 28. janúar 2014, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi kveðst hafa sótt um félagslega leiguíbúð frá árinu 2004 en umsókn hans hafi aldrei verið samþykkt. Kærandi eigi 15 ára gamalt barn sem búi hjá móður sinni. Barnið hafi ekki viljað búa hjá honum þar sem hann búi í herbergi. Kona kæranda sé nú ólétt og þau búi saman í litlu herbergi. Kærandi kveðst eiga við heilsufarsvanda að stríða en hann hafi farið í heilaskurðaðgerð á árinu 2011 og geti því ekki fengið sér aukavinnu.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé frá B og hafi flutt til Íslands árið 1997. Hann eigi son með fyrri konu sinni. Kærandi eigi von á barni í lok árs 2013 með núverandi konu sinni. Hann sé í vinnu en árið 2001 hafi hann orðið fyrir heilablæðingu. Hann hafi tvisvar farið í aðgerð vegna þessa og verið í rannsóknum vegna veikindanna. Reykjavíkurborg vísar til 3. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík en þar komi fram að þær séu ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og annarra félagslegra erfiðleika. Í 4. gr. reglnanna komi fram skilyrði fyrir því að umsókn öðlist gildi. Fullnægi umsækjandi skilyrðum 4. gr. raðist umsóknir í forgangsröð eftir ákveðnum matsviðmiðunum þar sem meðal annars sé höfð hliðsjón af núverandi húsnæðisaðstæðum, heilsufari, félagslegum aðstæðum og tekjum, sbr. 6. gr. reglnanna. Í 7. gr. komi fram að þegar fyrir liggi að umsækjandi fullnægi skilyrðum 4. gr. reglnanna, leiguhúsnæði falli að skilgreiningu skv. 3. gr., skilyrði laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, sé fullnægt og viðkomandi sé metinn til níu stiga þegar um sé að ræða einstakling/hjón/sambúðarfólk, sé heimilt að bjóða viðkomandi sérstakar húsaleigubætur.

Samkvæmt mati starfsmanna þjónustumiðstöðvar hafi kærandi og kona hans fengið samtals fimm stig við útreikning á matsblaðinu. Sumir þættir hafi ekki verið háðir mati eins og stig vegna tekna en aðrir þættir hafi verið það, svo sem húsnæðisstaða og félagslegur vandi. Þau hafi verið metin til eins margra stiga og unnt hafi verið vegna húsnæðisstöðu eða til þriggja stiga. Þá hafi þau verið metin með nokkurn félagslegan vanda sem samsvari tveimur stigum en þau hafi ekki fengið nein stig vegna tekna þar sem tekjur þeirra hafi verið hærri en 2.743.234 kr. á ári. Önnur atriði hafi ekki átt við, svo sem staða umsækjanda, staða maka, börn umsækjanda, sérstakar aðstæður barna og félagsleg endurhæfing. Hvað varði stig vegna tekna sé ekki heimilt að veita undanþágu frá þeim viðmiðum sem þar séu sett. Tekjur kæranda samkvæmt álagningarskrá 2013 vegna tekna ársins 2012 hafi verið 2.994.388 kr. árið 2012. Samkvæmt matsviðmiðunum fái umsækjandi ekkert stig fari árstekjur hans yfir 2.743.234 kr. Það hafi verið mat velferðarráðs að staðfesta bæri mat þjónustumiðstöðvar um núll stig vegna tekna. Hvað varði stigagjöf vegna félagslegs vanda hafi aðstæður kæranda og konu hans verið metnar til tveggja stiga eða að um nokkurn félagslegan vanda væri að ræða. Til nokkurs félagslegs vanda teljist til dæmis miklir fjárhagsörðugleikar, langvarandi atvinnuleysi og lítið stuðningsnet. Til að vera metinn til fjögurra stiga í félagslegum vanda þurfi að vera um að ræða langvarandi og mikinn félagslegan vanda. Þau viðmið hafi mótast í framkvæmd að til langvarandi og mikils félagslegs vanda teljist meðal annars félagsleg einangrun, takmörkuð félagsleg færni, ekkert stuðningsnet og sértækir erfiðleikar, svo sem háalvarleg veikindi sem hafi afgerandi áhrif á aðstæður viðkomandi eða meðferðarmál eða barnaverndarmál. Það hafi verið mat velferðarráðs að meta bæri aðstæður kæranda til tveggja stiga hvað varðaði félagslegar aðstæður.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík frá 1. mars 2004, með síðari breytingum.

Kærandi sótti um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg. Aðstæður kæranda voru metnar til samtals fimm stiga, þriggja vegna húsnæðisstöðu og tveggja vegna félagslegs vanda. Umsókn kæranda um húsaleigubætur var synjað á þeim grundvelli að aðstæður hans hafi einungis verið metnar til fimm stiga en í b-lið 7. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík sé gerð krafa um 11 stig eða meira. Af gögnum málsins má þó ráða að umsókn kæranda um félagslega leiguíbúð hafi verið samþykkt og hann settur á biðlista eftir íbúð. Samkvæmt 6. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur raðast umsóknir í forgangsröð eftir ákveðnum matsviðmiðum, sbr. fylgiskjal 1 með reglunum, fullnægi umsækjandi skilyrðum 4. gr. reglnanna, þar sem meðal annars sé höfð hliðsjón af núverandi húsnæðisaðstæðum, heilsufari, félagslegum aðstæðum og tekjum. Við lok greiningar séu reiknuð stig fyrir hvern þátt fyrir sig og útkoman skráð á biðlista sem hafður sé til hliðsjónar við úthlutun húsnæðis. Að framangreindu virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að ágreiningur í máli þessu lúti fyrst og fremst að stigagjöf vegna aðstæðna kæranda.

Í fylgiskjali 1 með reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík er að finna matsviðmið um forgangsröðun umsókna eftir félagslegu leiguhúsnæði Félagsbústaða hf. og sérstökum húsaleigubótum. Aðstæður umsækjenda eru metnar til stiga á bilinu 0-5. Aðstæður sem eru metnar eru staða umsækjanda, staða maka, tekjur á ársgrundvelli, börn og félagslegar aðstæður, þ.e. húsnæðisstaða, sérstakar aðstæður barna, félagslegur vandi umsækjanda/fjölskyldu og félagsleg endurhæfing.

Úrskurðarnefndin tekur undir með Reykjavíkurborg að staða umsækjanda, sbr. 1. gr. matsviðmiðs, eigi ekki við í máli kæranda enda er hann hvorki ellilífeyrisþegi né hefur komið fram að hann sé 75% öryrki eða með skerta starfsgetu vegna sjúkdóms eða örorku undir 75%. Þá hefur ekkert komið fram um að maki kæranda sé í slíkri stöðu, sbr. 2. gr. matsviðmiðs. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá voru tekjur kæranda árið 2012 samtals 2.890.201 kr. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að tekjur kæranda hafi réttilega verið metnar til núll stiga, sbr. 3. gr. matsviðmiðs, en ekkert stig er veitt fyrir tekjur þegar árstekjur eru hærri en 2.743.234 kr.

Húsnæðisaðstæður kæranda voru metnar til þriggja stiga en ekki eru veitt fleiri stig en þrjú fyrir húsnæðisaðstæður. Ekkert hefur komið fram um að börn kæranda eigi í erfiðleikum og verður því að telja að b-liður 5. gr. matsviðmiðsins eigi ekki við í málinu. Félagslegur vandi kæranda og fjölskyldu hans var metinn til tveggja stiga. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg þarf að vera um langvarandi og mikinn félagslegan vanda að ræða svo félagslegar aðstæður verði metnar til fjögurra stiga. Þau viðmið hafi mótast í framkvæmd að til langvarandi og mikils félagslegs vanda teljist meðal annars félagsleg einangrun, takmörkuð félagsleg færni, framtaksleysi, ekkert stuðningsnet og að um sértæka erfiðleika sé að ræða, svo sem háalvarleg veikindi sem hafi afgerandi áhrif á aðstæður viðkomandi, meðferðarmál eða barnaverndarmál. Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé frá B og hafi flutt til Íslands árið 1997. Hann sé í vinnu en árið 2001 hafi hann orðið fyrir heilablæðingu. Hann hafi tvisvar farið í aðgerð vegna þessa og verið í rannsóknum vegna veikindanna. Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við mat Reykjavíkurborgar á félagslegum aðstæðum kæranda og telur að þær hafi réttilega verið metnar til tveggja stiga. Þá hefur ekkert komið fram um að kærandi taki þátt í markvissri endurhæfingu og verður því að telja að d-liður 5. gr. matsviðmiðsins eigi ekki við í málinu.

Samkvæmt 4. gr. matsviðmiðs er veitt eitt stig þegar barn/börn eru í reglulegri umgengni hjá umsækjanda. Í málinu hefur komið fram að kærandi eigi barn með fyrrverandi konu sinni en ekki liggja fyrir upplýsingar um umgengni hans við barnið. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að Reykjavíkurborg hefði verið rétt að afla upplýsinga um það og taka afstöðu til þess hvort aðstæður væru með þeim hætti að veita bæri stig vegna umgengnis kæranda og barnsins. Líkt og að framan greinir raðast umsóknir í forgangsröð eftir stigagjöf vegna mats á aðstæðum samkvæmt ákveðnum matsviðmiðum, sbr. 6. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið rannsakað nægilega hvort veita ætti kæranda stig vegna umgengnis við barn hans, sbr. 4. gr. matsviðmiðs. Einnig hefur komið fram að kærandi og kona hans áttu von á barni í lok árs 2013 og því rétt að kannað verði hvort veita beri kæranda fleiri stig vegna barna, sbr. 4. gr. matsviðmiðs. Hin kærða ákvörðun verður því felld úr gildi og lagt fyrir Reykjavíkurborg að taka málið til löglegrar meðferðar.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 16. október 2013, þar sem staðfest var mat þjónustumiðstöðvar á stigagjöf vegna umsóknar A um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur er felld úr gildi og lagt fyrir Reykjavíkurborg að taka málið til löglegrar meðferðar.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta