Hoppa yfir valmynd
27. mars 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 56/2013

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík
     

 

Fimmtudaginn 27. mars 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 56/2013:

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 29. október 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 2. október 2013, á umsókn hennar um styrk til tryggingar húsaleigu að fjárhæð 300.000 kr.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um styrk til tryggingar húsaleigu að fjárhæð 300.000 kr. hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 13. ágúst 2013. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 16. ágúst 2013, með þeim rökum að umsóknin samræmdist ekki reglum Reykjavíkurborgar. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs með bréfi, dags. 26. ágúst 2013. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 2. október 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um styrk að upphæð kr. 300.000.- þar sem eigi verður talið að aðstæður umsækjanda falli að skilyrðum þeim sem sett eru í 23. gr. reglna um fjárhagsaðstoð varðandi styrk til fyrirframgreiðslu/tryggingu húsaleigu.

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 2. október 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 29. október 2013. Með bréfi, dags. 31. október 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 18. nóvember 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 20. nóvember 2013, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 28. janúar 2014, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst. Með bréfi, dags. 5. mars 2014, var óskað frekari gagna frá Reykjavíkurborg og bárust þau með bréfi, dags. 13. mars 2014.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi kveðst hafa búið hér og þar frá febrúar 2012 en flutt að B þann 1. september 2013. Hana sárvanti aðstoð því hún sé í vanskilum með síðasta mánuð, þurfi að greiða 330.000 kr. þann 1. nóvember 2013. Hún fái tvöfaldar húsaleigubætur og heimilisuppbót þannig þetta ætti að sleppa hjá henni í framtíðinni. Kærandi kveðst vera öryrki vegna bílslysa og geti því ekki verið á þvælingi.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar eru félagslegar aðstæður kæranda raktar með nokkuð ítarlegum hætti. Þá eru rakin ákvæði 23. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Fram kemur í greinargerðinni að það hafi verið mat velferðarráðs að skilyrði 23. gr. reglnanna væru ekki uppfyllt þar sem kærandi hafi ekki þegið fjárhagsaðstoð til framfærslu mánuðinn sem sótt hafi verið um og mánuðinn þar á undan. Kærandi sé 75% öryrki og fái greiddar örorkubætur ásamt greiðslum úr lífeyrissjóði og tekjur kæranda séu því hærri en fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Þá hafi einnig verið litið til þess að kærandi hafi þegar greitt tryggingu vegna húsaleigu en hún hafi fengið lán hjá börnum sínum að fjárhæð 330.000 kr. Hefði styrkur verið veittur á grundvelli 23. gr. reglnanna hefði hann því ekki runnið til greiðslu tryggingar vegna húsnæðis heldur væri verið að greiða skuld kæranda við börn hennar. Í 23. gr. leiðbeininga með reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg komi skýrt fram að styrkur eða lán samkvæmt greininni skuli greiddur beint til leigusala. Þá bendir Reykjavíkurborg á að kærandi hafi fengið úthlutað leiguíbúð hjá Félagsbústöðum hf. þar sem leigufjárhæðin hafi verið mun lægri eða 105.000 kr. á mánuði og ekki hafi verið krafist fyrirframgreiðslu eða tryggingu húsaleigu. Kærandi hafi hafnað því boði og kosið að leigja á almennum leigumarkaði á 165.000 kr. á mánuði auk þess sem krafist hafi verið tryggingar sem samsvaraði tveggja mánaða leigu. Kæranda hafi því staðið til boða húsnæði þar sem leigufjárhæðin hafi verið lægri auk þess sem ekki hafi verið krafist fyrirframgreiðslu eða tryggingu húsaleigu. Með vísan til alls framangreinds hafi velferðarráð synjað kæranda um styrk til fyrirframgreiðslu eða tryggingar húsnæðis að fjárhæð 300.000 kr.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkur frá 1. janúar 2011, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um styrk til tryggingar húsaleigu að fjárhæð 300.000 kr.

Í upphafi bendir úrskurðarnefndin á að í greinargerð Reykjavíkurborgar séu persónulegir hagir kæranda og félagsleg staða hennar rakin með nokkuð ítarlegum hætti. Tekið skal fram að beiðni úrskurðarnefndarinnar til Reykjavíkurborgar um rökstuðning fyrir kærðri ákvörðun er þáttur í rannsókn nefndarinnar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Rannsókn úrskurðarnefndarinnar á að leiða hið sanna og rétta í ljós í máli og er gengið út frá því að umbeðinn rökstuðningur fyrir kærðri ákvörðun sé skrifleg greinargerð um þau sjónarmið sem raunverulega voru ráðandi við úrlausn máls. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að í greinargerð sveitarfélagsins vegna kærumálsins sé einungis rétt að tilgreina upplýsingar um persónulega hagi kæranda og félagslega stöðu að því marki sem byggt var á þeim við mat á því hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði laga og reglna sveitarfélagsins. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Reykjavíkurborgar að gæta að framangreindu þegar óskað er upplýsinga frá sveitarfélaginu við meðferð kærumála hjá nefndinni.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Kærandi sótti um styrk til tryggingar húsaleigu að fjárhæð 300.000 kr. Umsókn hennar var synjað á þeim grundvelli að hún hafi ekki þegið fjárhagsaðstoð til framfærslu mánuðinn sem sótt hafi verið um og mánuðinn þar á undan en tekjur hennar hafi verið hærri en fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Þá var einnig litið til þess að kærandi hafði þegar greitt trygginguna með láni frá börnum sínum og hefði styrkurinn þannig farið til greiðslu skuldar. Enn fremur er vísað til þess að kæranda hafi staðið til boða leiguíbúð hjá Félagsbústöðum hf. þar sem leigan hafi verið mun lægri og þar hafi ekki verið gerð krafa um tryggingu húsaleigu.

Í 23. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er fjallað um styrk eða lán til fyrirframgreiðslu húsaleigu og til tryggingar húsaleigu. Samkvæmt ákvæðinu er Reykjavíkurborg heimilt að veita þeim sem fengið hafa fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglunum í mánuðinum sem sótt er um og í mánuðinum á undan lán eða styrk til fyrirframgreiðslu húsaleigu. Þinglýstur leigusamningur skal liggja fyrir eða önnur staðfesting um að samningur eigi við rök að styðjast og skal leigufjárhæð vera í samræmi við leigu á almennum markaði.

Samkvæmt 11. gr. reglnanna eins og þær voru þegar umsókn kæranda var afgreidd, getur grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings, 18 ára eða eldri, sem rekur eigið heimili, numið allt að 163.635 kr. á mánuði. Þegar kærandi óskaði eftir styrk til að greiða tryggingu vegna húsaleigu fékk hún mánaðarlegar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóði. Naut kærandi því ekki fjárhagsaðstoðar frá Reykjavíkurborg eins og gert er að skilyrði í ákvæðinu. Samkvæmt staðgreiðsluskrá fyrir árið 2012 voru tekjur kæranda í júlí 2013, 199.905 kr. og í ágúst 2013, 181.607 kr. Tekjur kæranda voru því nokkuð yfir þeim viðmiðunarmörkum sem ákvæði 23. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagstoð áskilur, sbr. 11. gr. sömu reglna. Með vísan til framangreinds er það mat úrskurðarnefndarinnar að skilyrði 23. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hafi ekki verið uppfyllt í málinu og kærandi hafi því ekki átt rétt á styrk vegna til greiðslu tryggingar vegna leiguhúsnæðis. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 2. október 2013, um synjun á umsókn A um styrk til tryggingar húsaleigu að fjárhæð 300.000 kr. er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta