Hoppa yfir valmynd
27. mars 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 61/2013

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                     

Fimmtudaginn 27. mars 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 61/2013:

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 11. nóvember 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 18. september 2013, á umsókn hennar um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 11. júlí 2013. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 29. júlí 2013, með þeim rökum að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði c-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík um tekjumörk. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs með bréfi, dags. 14. ágúst 2013. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 18. september 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um undanþágu frá skilyrði c. liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur.

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 18. september 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 11. nóvember 2013. Með bréfi, dags. 14. nóvember 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun á umsókn kæranda. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 3. desember 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 6. desember 2013, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 28. janúar 2014, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi telur að ákvæði c-liðar 1. mgr. 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur um að miða skuli við meðaltal tekna síðastliðinna þriggja ára geti ekki átt við í tilfelli hennar. Kærandi telur ljóst að ákvæðið hafi verið sett fyrir bankahrun og að breyta þurfi umræddu skilyrði í ljósi aðstæðna hér á landi. Kærandi bendir á að aðstæður hennar hafi breyst töluvert mikið á síðastliðnum tveimur árum. Í desember árið 2011 hafi hún misst vinnuna og hafi uppsagnarfresturinn verið út mars 2012. Það hækki tekjumörkin hjá henni fyrir árið 2012 sem sé óraunhæft. Kærandi hafi þegið atvinnuleysisbætur frá apríl 2012 og frá haustinu 2012 hafi hún verið á lágmarkslaunum. Frá apríl 2012 til loka árs 2012 hafi hún verið með 2.303.613 krónur í tekjur. Heildartekjur hennar frá 1. janúar 2013 til 1. nóvember 2013 hafi verið 2.755.752 krónur sem sé undir tekjumörkum. Kærandi kveðst hafa verið á götunni í þrjú ár en hún hafi verið inni á heimili systur sinnar þann tíma. Hún geti ekki verið þar mikið lengur, hún hafi ekki tekjur til að leigja íbúð á frjálsum markaði og hafi hvorki fjármagn né greiðslumat til að kaupa sér íbúð. Hún geti ekki verið á götunni í eitt ár í viðbót til að geta sýnt fram á að tekjurnar sem hún hafi séu undir tekjumörkum.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærumálsins kemur fram að í 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík séu sett fram tiltekin skilyrði í a-e-liðum sem umsækjandi þurfi að uppfylla til að umsóknin taki gildi. Í c-lið sé kveðið á um tekju- og eignamörk og séu eignamörkin 4.381.223 krónur og tekjumörk 3.142.000 krónur miðað við einstakling, auk þess 525.986 krónur fyrir hvert barn á framfæri innan 20 ára. Tekjumörk séu miðuð við meðaltal tekna síðastliðin þrjú ár. Í 5. gr. reglnanna séu undanþáguákvæði frá settum skilyrðum í 4. gr. en heimilt sé samkvæmt b-lið að veita undanþágu frá lögheimili og tekjumörkum, byggða á faglegu mati, sé um mikla félagslega erfiðleika að ræða, sbr. lið 5c í matsviðmiði, sbr. fylgiskjal 1 með reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. Samkvæmt gögnum þeim er legið hafi fyrir velferðarráði hafi meðaltekjur kæranda síðastliðin þrjú ár verið 4.876.848 krónur en tekjumörk miðað við einstakling séu samkvæmt c-lið 1. mgr. 4. gr. reglnanna 3.142.000 krónur auk þess 525.986 krónur fyrir hvert barn á framfæri innan 20 ára. Kærandi sé með eitt barn á framfæri innan 20 ára og tekjur kæranda séu því 1.208.862 krónum hærri en tekjumörkin kveði á um. Þá hafi einnig verið litið til þess að tekjur kæranda síðastliðið ár hafi verið 4.677.794 krónur eða 1.009.808 krónum hærri en tekjumörkin kveði á um. Þá hafi kærandi framvísað skattframtali 2013 vegna tekna 2012 en samkvæmt því hafi tekjur kæranda verið 3.823 krónur og séu tekjur hennar því enn hærri en tekjumörk reglnanna kveði á um. Skilyrði c-liðar 1. mgr. 4. gr. reglnanna séu því ekki uppfyllt.

Eins og rakið sé að framan sé í 5. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík að finna heimildarákvæði er varði undanþágur frá skilyrðum 4. gr. reglnanna. Rétt sé að ítreka að umrætt ákvæði 5. gr. reglnanna sé heimildarákvæði og því ekki skylt að veita umræddar undanþágur. Þau viðmið hafi mótast í framkvæmd að til langvarandi og mikils félagslegs vanda samkvæmt lið 5c í matsviðmiði, sbr. fylgiskjal 1 með reglunum, teljist meðal annars félagsleg einangrun, takmörkuð félagsleg færni, framtaksleysi, ekkert stuðningsnet og sértækir erfiðleikar, svo sem háalvarleg veikindi sem hafi afgerandi áhrif á aðstæður viðkomandi eða meðferðarmál/barnaverndarmál. Velferðarráð hafi því talið að ekki bæri að veita kæranda undanþágu á grundvelli b-liðar 1. mgr. 5. gr. reglnanna.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík frá 1. mars 2004, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur.

Kærandi sótti um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg. Umsókn hennar var synjað á þeim grundvelli að meðalárstekjur hennar síðastliðin þrjú ár hafi verið 4.876.848 krónur og þannig yfir tekjumörkum c-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík, sem hafi verið 3.667.986 krónur fyrir einstakling með barn á framfæri innan 20 ára. Einnig verið litið til þess að tekjur kæranda síðastliðið ár hafi verið 3.823.000 krónur samkvæmt skattframtali 2013 vegna tekna 2012 eða og því hærri en tekjumörkin kveði á um. Þá taldi Reykjavíkurborg að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði b-liðar 1. mgr. 5. gr. um að eiga í miklum félagslegum erfiðleikum og því hafi ekki borið að veita undanþágu frá skilyrðum 4. gr. um tekjuviðmið.

Í 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík er að finna skilyrði fyrir því að umsókn verði metin gild og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í a-e-liðum 1. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 4. gr. eru tekjumörk fyrir einhleyping 3.142.000 krónur og auk þess 525.986 krónur fyrir hvert barn á framfæri innan 20 ára. Samkvæmt c-lið eru tekjumörk miðuð við meðaltal tekna síðastliðin þrjú ár. Í málinu liggja fyrir útprentanir úr álagningarskrá ríkisskattstjóra fyrir 2011-2013 vegna tekna áranna 2010-2012. Samkvæmt því voru tekjur kæranda 5.113.629 krónur árið 2010, 4.677.764 krónur árið 2011 og 3.823.000 krónur árið 2012. Meðalárstekjur kæranda á árunum 2010, 2011 og 2012 voru því 4.538.141 króna. Við afgreiðslu umsóknar kæranda hjá Reykjavíkurborg var hins vegar miðað við að meðalárstekjur kæranda síðastliðin þrjú ár hafi verið 4.876.848 krónur. Úrskurðarnefndin fær þó ekki séð á hvaða tekjuupplýsingum framangreind fjárhæð byggist. Fram hefur komið í málinu að kærandi er einhleyp og hefur eitt barn á framfæri undir 20 ára. Tekjumörk hennar eru því 3.667.986 krónur. Meðalárstekjur kæranda síðastliðin þrjú ár voru þannig nokkuð yfir tekjumörkum c-liðar 1. mgr. 4. gr. reglnanna hvort sem miðað er við þá fjárhæð sem Reykjavíkurborg byggði á eða meðalárstekjur kæranda árin 2010, 2011 og 2012. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði c-liðar 1. mgr. 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík.

Í 5. gr. reglnanna er kveðið á um undanþágur frá skilyrðum 4. gr. um lögheimili og tekjuviðmið. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 5. gr. er heimilt að veita undanþágu frá skilyrði 4. gr. um lögheimili og/eða tekjuviðmið sé umsækjandi samkvæmt faglegu mati ráðgjafa í mjög miklum félagslegum erfiðleikum, sbr. lið 5c í matsviðmiði, sbr. fylgiskjal 1. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg hafa þau viðmið mótast í framkvæmd að til langvarandi og mikils félagslegs vanda samkvæmt lið 5c í matsviðmiði, sbr. fylgiskjal 1 með reglunum, teljist meðal annars félagsleg einangrun, takmörkuð félagsleg færni, framtaksleysi, ekkert stuðningsnet og sértækir erfiðleikar, svo sem háalvarleg veikindi sem hafi afgerandi áhrif á aðstæður viðkomandi eða meðferðarmál/barnaverndarmál. Fram hefur komið af hálfu Reykjavíkurborgar að ekki bæri að veita undanþágu á grundvelli framangreindrar heimildar. Ekki hefur verið nánar rökstutt af hálfu Reykjavíkurborgar hvernig aðstæður kæranda voru metnar, sérstaklega með tilliti til framangreindra sjónarmiða. Þá er í gögnum málsins ekki að finna upplýsingar um aðstæður kæranda hvað þessi viðmið varðar. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að ekki liggi fyrir að aðstæður kæranda hafi verið rannsakaðar með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Hin kærða ákvörðun verður því felld úr gildi og lagt fyrir Reykjavíkurborg að taka málið til löglegrar meðferðar.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 18. september 2013, um synjun á umsókn A um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur er felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka málið til löglegrar meðferðar.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta