Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 42/2013

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

Miðvikudaginn 9. apríl 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 42/2013:

Beiðni A

um endurupptöku

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með erindi, dags. 11. mars 2014, óskað endurupptöku á máli nr. 42/2013 en kveðinn var upp úrskurður í málinu á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þann 26. febrúar 2014. Með úrskurði nefndarinnar var staðfest synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 13. júní-31. júlí 2013 á þeim grundvelli að samkvæmt skattframtali kæranda vegna tekna 2012 átti hann hlutabréf að verðmæti 1.000.000 kr., sbr. 5. mgr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram að hann hafi einungis sótt um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 13. júní-31. júlí 2013 þar sem hann hafi ekki getað sótt um annað tímabil þar sem mál þetta hafi verið í ferli þar til í febrúarlok árið 2014. Kærandi hafi samt sem áður verið atvinnulaus með engar tekjur allt árið 2013. Kærandi eigi ekki lengur hlutabréf í B ehf. en þau séu einnig verðlaus. Með beiðni um endurupptöku fylgi samþykki ríkisskattstjóra á leiðréttingu á framtali og hlutabréfin séu því ekki lengur á framtali kæranda. Kærandi bendir á að sveitarfélögum sé óheimilt að mismuna einstaklingum en Reykjavíkurborg hafi veitt fólki í sömu stöðu, þ.e. í námi með tekjur og bílaeign, fjárhagsaðstoð.

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 13. júní-31. júlí 2013. Umsókn hans var synjað á þeim grundvelli að hann ætti eignir umfram íbúðarhúsnæði og fjölskyldubifreið, sbr. 5. mgr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, en samkvæmt skattframtali 2012 átti kærandi hlutabréf að verðmæti 1.000.000 kr. í B ehf. Kærandi bendir á að móðir hans hafi yfirtekið hlutabréfin en vegna vankunnáttu sinnar hafi hann ekki fært það inn á skattframtal sitt. Samkvæmt fyrirtækjaskrá og skattframtali móður kæranda sé hún eini hluthafi félagsins en það hafi þó ekki verið í rekstri í nokkur ár. Kærandi kveðst hafa óskað leiðréttingar á skattframtali sínu hjá ríkisskattstjóra.

Í 5. mgr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg kemur fram að eigi umsækjandi, maki hans eða sambýlingur eignir umfram íbúðarhúsnæði og eina fjölskyldubifreið, eða hafi hann nýlega selt eignir sínar, skal honum vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða, þótt tekjur hans séu lægri en grunnfjárhæð. Samkvæmt skattframtali kæranda vegna tekna 2012 átti hann hlutabréf að verðmæti 1.000.000 kr. Með beiðni kæranda um endurupptöku fylgdi úrskurður ríkisskattstjóra um kæru vegna álagningar 2013. Kemur þar fram að óskað hafi verið eftir leiðréttingu á skattframtali 2013 þar sem láðist að skrá að hlutabréf í B ehf. hafi verið yfirtekin og var með úrskurðinum fallist á kröfu skattaðila. Í ljósi þess að fallist hefur verið á beiðni kæranda um leiðréttingu á skattframtali hvað varðar hlutabréfaeign hans telur úrskurðarnefndin að fella verði hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Reykjavíkurborg að taka mál kæranda til löglegrar meðferðar.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 2. september 2013, um synjun á umsókn A um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 13. júní-31. júlí 2013 er felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka málið til löglegrar meðferðar.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta