Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 086/2015 - Úrskurður

 

 

Miðvikudaginn 19. ágúst 2015

 

Mál nr. 86/2015

 

A

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

ÚRSKURÐUR

 

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þorsteinn Magnússon lögfræðingur.

Með kæru, dags. 11. mars 2015, kærir A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga tekjuskerðingu bótaréttinda kæranda á árinu 2015 vegna tekna frá Noregi.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru eftirfarandi samkvæmt málsgögnum. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. desember 2014, var kærandi upplýst um að stofnuninni hafi borist upplýsingar frá NAV í Noregi um breytingar á örorkulífeyrisgreiðslum frá 1. janúar 2015. Í bréfinu segir að breytingarnar séu þess efnis að greiðslur frá NAV hækki hjá örorkulífeyrisþegum sem nemi skattafrádrætti sem greiðslurnar hafi áður notið. Vakin var athygli á því í bréfinu að hærri greiðslur frá NAV gætu haft áhrif á útgreiddan lífeyri frá Tryggingastofnun vegna skerðingarákvæða almannatryggingalaga. Einnig segir að breytingarnar hafi mest áhrif á þann hóp lífeyrisþega sem hafi áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna með atvinnuþátttöku í Noregi en lítil sem engin áhrif á þá sem njóti eingöngu grunnlífeyris í Noregi.

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir:

„Vísað er til bréfs frá Tryggingarstofnun, dags. 11.12.2014 (viðlegg 1) og tölvupósts milli mín og Tryggingarstofnunar í febrúar og mars (viðlegg 2), þar sem fram kemur að bætur frá Íslandi geti lækkað við breytingar í Noregi.

Reikningsaðferð minna á bóta í Noregi hefur ekkert breyst. Eingöngu bætt við <<viðbót>> til að koma á móti auknum skatti, eftir formúlu frá skattayfirvöldum hér. Þetta fékk ég staðfest af NAV í Noregi og fullyrt að bréf frá þeim sanni þá fullyrðingu. Þeir ráðlögðu mér að senda ykkur það bréf hér með og biðja um leiðréttingu á þessari skerðingu sem ég fékk sem afleiðingu af þessum breytingum í norsku skattalögum (Viðlegg 3). Það hafa engar breytingar orðið hjá NAV.

Bið hér með um endurskoðun á mínum greiðslum með tilliti til þessa.“

Með bréfi, dags. 17. mars 2015, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins vegna kærunnar. Greinargerð, dags. 17. apríl 2015, barst frá stofnuninni þar sem segir:

 

1. Kæruefni

Kærðar eru breytingar á lífeyrisgreiðslum sem gerðar voru vegna breytinga á norskum örorkulífeyrisgreiðslum frá 1. janúar 2015.

2. Málavextir

Með bréfi NAV, dags. 10. október 2014, var kæranda tilkynnt um fyrirhugaðar breytingar á lífeyrisgreiðslum hans frá Noregi. Tryggingastofnun barst afrit af bréfinu.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 11. desember 2014, var kæranda tilkynnt að fyrirhugaðar breytingar á norskum örorkulífeyrisgreiðslum gætu haft áhrif á greiðslur Tryggingastofnunar frá 1. janúar 2015. Á þeim tíma lá þó ekki fyrir endanlegur útreikningur greiðslna stofnunarinnar.

Greiðsluráætlun 2015 var send kæranda þann 10. janúar 2015. Á ætluninni voru fyrirhugaðar greiðslur á árinu 2015.

Samkvæmt Þjóðskrá hefur kærandi verið búsettur í Noregi frá X. Búsetuhlutfall kæranda er 90.92%. Kærandi hefur fengið greiddan örorkulífeyri frá 1. júní 2002.

3. Lög og reglur

Samkvæmt 4. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar greiðist örorkulífeyrir eftir sömu reglum og ellilífeyrir, sbr. þó 5. mgr. Í 2. mgr. 17. gr. er kveðið á um skerðingu lífeyris ef tekjur fara umfram ákveðin mörk og um framkvæmdina fer skv. 16. gr. almannatryggingalaga. Tekjur skerða einnig tekjutryggingu örorkulífeyrisþega sbr. 3. mgr. 22. gr. almannatryggingalaga.

Til tekna skv. 2. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga teljast tekjur skv. II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Eftirlaun og lífeyrir eru þar á meðal sbr. A-lið 7. gr. laga um tekjuskatt. Í 3. og 4. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga er fjallað um tekjur sem ekki hafa áhrif og örorkulífeyri og tekjutryggingu.

Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009 skulu tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi, sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi. Um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta er nánar fjalla um í fyrrgreindri reglugerð.

Fjárhæðir bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2015 var ákveðin með reglugerð 1221/2014.

4. Niðurstaða

Þann 1. janúar 2015 tóku gildi nýjar reglur um greiðslur örorkulífeyris í Noregi. Örorkulífeyrir er nú skattlagður sem launatekjur, þ.e. skattafríðindi sem lífeyrisgreiðslur höfðu áður notið voru afnumin. Réttindi einstaklinga sem fengu örorkulífeyri frá NAV fyrir 1. janúar 2015 eru endurreiknuð með tilliti til fyrri greiðslna lífeyris. Lífeyrisgreiðslur NAV skiptast ekki lengur í „grunnpensjon“, „tilleggspensjon“ og eftir atvikum „særtilleggspensjon“ heldur heita þær nú aðeins uføretrygd og er það reiknað í samræmi við búsetu og fyrri launatekjur. Þeir sem uppfylla ekki fyrirfram ákveðið lágmark (sem er breytilegt eftir hjúskaparstöðu og búsetuhlutfalli) fá greitt „minsteytelse“ sem ekki hefur áhrif á bætur Tryggingastofnunar þar sem slík greiðsla er sambærileg íslenskum grunnlífeyri. Rétt er þó að benda á að fyrra fyrirkomulag greiðslna kæranda frá Noregi var að stærstum hluta reiknað í samræmi við fyrri launatekjur, þ.e. „tilleggspension“ og greiðslur úr erlendum lífeyrissjóði.

Viðmiðunartekjur kæranda sem liggja til grundvallar útreikningi greiðslna Tryggingastofnunar á árinu 2015 skiptast í lífeyrisgreiðslur frá íslenskum lífeyrissjóði að fjárhæð 172.776 kr., greiðslur frá NAV að fjárhæð 156.612 NOK (2.884.167 kr.) og greiðslur frá öðrum lífeyrissjóði í Noregi að fjárhæð 13.051 NOK (588.723 kr.). Þá eru fjármagnstekjur áætlaðar 77.504 kr. Í bréfi NAV, dags. 10. október 2014, eru tilgreind þau viðmiðunarmörk sem tekjur kæranda þurfa að vera undir til að fá greitt „minsteytelse“. Kærandi er yfir þeim mörkum og fær þ.a.l. ekki greitt „minsteytelse“.

Í samræmi við tekjuáætlun kæranda skiptast mánaðarlegar bætur Tryggingastofnunar í örorkulífeyri að fjárhæð 33.038 kr., aldurstengda örorkuuppbót að fjárhæð 8.260 kr. og tekjutryggingu að fjárhæð 7.171 kr. auk orlofs- og desemberuppbóta.

Nýjar reglur í Noregi höfðu í för með sér að tekjutrygging kæranda lækkaði á milli ára úr 47.341 kr. í 7.171 kr. að teknu tilliti til reglugerða um fjárhæðir bóta. Hins vegar ber að líta til þess að tekjutrygging kæranda á árinu 2014 var reiknuð á grundvelli erlends grunnlífeyris að fjárhæð 16.668 NOK (309.058 kr.), „tilleggspension“ að fjárhæð 73.572 NOK (1.364.172 kr.), annars erlends lífeyris að fjárhæð 32.628 NOK (604.988 kr.) og fjármagnstekna að fjárhæð 81.222 kr. Einungis erlendur grunnlífeyrir hafði ekki áhrif á bætur Tryggingastofnunar. Þannig hækkuðu tekjur kæranda sem hafa áhrif á bætur Tryggingastofnunar á milli ára úr 2.050.385 kr. í 3.723.170 kr.

Nýjar reglur í Noregi hafa einnig í för með sér að Tryggingastofnun er nú ekki upplýst um hvort og þá hvernig greiðslum frá Noregi er skipt. Í ljósi þess að fyrra fyrirkomulag greiðslna kæranda frá Noregi var að stærstum hluta byggt á fyrri launatekjum og nýtt kerfi er nú alfarið byggt á launatekjum telur Tryggingastofnun ljóst að lífeyrisgreiðslur frá NAV, að undanskyldu „minsteytelse“ hafa áhrif á bætur Tryggingastofnunar eins og um væri að ræða greiðslur úr íslenskum lífeyrissjóðum.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 20. apríl 2015, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar tekjuskerðingu bótaréttinda kæranda frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2015 vegna tekna frá Noregi.

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að útreikningur bótaréttinda hennar í Noregi hafi ekki tekið breytingum. Eingöngu hafi verið bætt við þær til að koma á móti auknum skatti eftir formúlu skattyfirvalda þar í landi. Kærandi hafi fengið þetta staðfest með bréfi frá NAV.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að 1. janúar 2015 hafi tekið gildi nýjar reglur um greiðslur örorkulífeyris í Noregi. Örorkulífeyrir sé nú skattlagður sem launatekjur, þ.e. skattafríðindi sem lífeyrisgreiðslur hafi áður notið hafi verið afnumin. Lífeyrisgreiðslur frá NAV í Noregi séu nú reiknaðar í samræmi við búsetu og fyrri launatekjur. Þá segir að nýju reglurnar hafi haft þau áhrif að tekjutrygging kæranda frá Tryggingastofnun hafi lækkað. Áður hafi erlendur grunnlífeyrir ekki haft áhrif á bætur frá Tryggingastofnun en tekjur kæranda sem hafi áhrif á bætur hafi nú hækkað á milli áranna 2014 og 2015 úr 2.050.385 kr. í 3.723.170 kr. Einnig segir að Tryggingastofnun fái ekki lengur upplýsingar frá NAV um hvort og þá hvernig greiðslum frá Noregi sé skipt. Í ljósi þess að fyrra fyrirkomulag greiðslna kæranda frá Noregi hafi að stærstum hluta byggt á fyrri launatekjum og nýtt kerfi sé nú alfarið byggt á launatekjum telji Tryggingastofnun ljóst að lífeyrisgreiðslur frá NAV, að undanskildum einni tegund greiðslna hafi áhrif á bætur eins og um væri að ræða greiðslur frá íslenskum lífeyrissjóðum.

Kærandi fær greiddan örorkulífeyri, aldurstengda örorkuuppbót og tekjutryggingu á grundvelli laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, frá Tryggingastofnun ríkisins. Í máli þessu snýst ágreiningur um hvort tekjur sem kærandi fær greiddar frá NAV í Noregi skuli skerða tekjutryggingu kæranda.

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga um almannatryggingar skal greiða þeim tekjutryggingu sem fá greiddan örorkulífeyri samkvæmt lögunum. Í 3. mgr. sömu greinar segir meðal annars að greiða skuli örorkulífeyrisþega tekjutryggingu til viðbótar lífeyri hans um tiltekna fjárhæð. Einnig segir að hafi lífeyrisþegi tekjur skv. 2. og 4. mgr. 16. gr. skuli skerða tekjutryggingu um 38,35% þeirra tekna uns hún falli niður.

Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar teljast til tekna samkvæmt lögunum tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, með undantekningum. Á grundvelli síðastnefndu laganna skal lífeyrir teljast til tekna, sbr. A-lið 7. gr. Séu lífeyrissjóðstekjur bótaþega umfram ákveðið frítekjumark, sbr. a-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, koma þær til skerðingar á tekjutryggingu örorkulífeyrisþega. Samkvæmt 2. gr. reglugerðar um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, nr. 598/2009, skulu tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi, sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi.

Í 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar er að finna undantekningu frá tekjuskerðingu tekjutryggingar þar sem segir að ekki teljist til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingarvernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur sem Ísland hefur gert samninga við.

Í máli þessu kemur til álita hvort um sé að ræða tekjur sem falla undir framangreindar undantekningarreglur. Samkvæmt gögnum málsins fær kæranda greiddar örorkubætur (uføretrygd) frá NAV í Noregi. Um er að ræða bætur greiddar á grundvelli almannatryggingalaga (folketrygdloven) þar í landi. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun telur Tryggingastofnun ríkisins að tekjur kæranda frá NAV séu sambærilegar greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum hér á landi og telur því að þær skuli skerða tekjutryggingu kæranda. Í greinargerð stofnunarinnar kemur fram að örorkubæturnar séu skattlagðar sem launatekjur og reiknaðar í samræmi við búsetu og fyrri launatekjur. Þá segir að þar sem tekjurnar séu alfarið byggðar á launatekjum skuli þær hafa áhrif á tekjutryggingu kæranda eins og um væri að ræða greiðslur úr íslenskum lífeyrissjóðum. Úrskurðarnefnd fellst á það með Tryggingastofnun. Þegar af þeirri ástæðu telur úrskurðarnefnd að umræddar tekjur falli ekki undir undantekningarreglu 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að staðfesta beri tekjuskerðingu bótaréttinda kæranda á árinu 2015 vegna tekna frá NAV í Noregi.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um tekjuskerðingu bótaréttinda A, , á árinu 2015 vegna tekna frá NAV í Noregi er staðfest.

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

                                                                                                                                          Friðjón Örn Friðjónsson formaður

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta