Mannanafnanefnd, úrskurður 13. nóvember 2009
FUNDARGERÐ
Ár 2009, föstudaginn 13. nóvember, var haldinn símafundur í mannanafnanefnd. Mætt voru Kolbrún Linda Ísleifsdóttir, Ágústa Þorbergsdóttir og Baldur Sigurðsson. Neðangreint mál var tekið fyrir:
Leiðrétting á úrskurði frá 23. júní 2004.
Isabella – Beiðni um endurupptöku máls nr. 79/2001.
Í máli nr. 79/2001 var sótt um endurupptöku á úrskurði mannanafnanefndar frá 7. júlí 1999, þess efnis að ritmyndin Isabella væri tekin á mannanafnaskrá. Mannanafnanefnd synjaði þá beiðni um endurupptöku.
Árið 2004 var málið endurupptekið að nýju og hafði þá ritmyndin Isabella unnið sér hefð í íslensku máli, sbr. vinnulagsreglur mannanafnanefndar frá 7. september 2000. Mannanafnanefnd láðist að geta þess í úrskurðarorði að um væri að ræða ritmynd af Ísabella en ekki sjálfstætt eiginnafn, sbr. úrskurðarorð í gerðabók mannanafnanefndar frá 23. júní 2004: „Beiðni um eiginnafnið Isabella er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá“.
Að gefnu tilefni er umrætt úrskurðarorð leiðrétt:
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Isabella (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá sem ritmynd eiginnafnsins Ísabella (kvk.).
--------------------------------------------
Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið.