Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 44/2009

Fimmtudaginn 4. febrúar 2010

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 16. desember 2009 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 9. desember 2009. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dagsettu 3. desember 2009, um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Með bréfi, dagsettu 17. desember 2009, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi dagsettu 23. desember 2009.

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 28. desember 2009, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að umsókn hennar um fæðingarstyrk námsmanna hafi verið synjað á þeim forsendum að hún hafi ekki uppfyllt skilyrði um fullt nám á vorönn 2009. Synjunin hafi verið án útskýringa og engin rök hafi verið færð fyrir því hvernig einingafjöldinn var reiknaður út.

Kærandi segir að hún hafi borgað sína skatta og skyldur fram til 1. ágúst 2009 og hafi stundað nær fullt nám í C-háskóla samhliða vinnu. Ekkert tillit hafi verið tekið til stöðu kæranda að þessu leyti.

Á tímabilinu 2006–2007 hafi kærandi starfað sem umsjónarkennari 6. bekkjar B-skóla og samhliða þeirri vinnu verið í D-háskóla í 17 einingum (34 einingar í nýja kerfinu og þar af hafi hún fengið 32 einingar metnar).

Á tímabilinu 2007–2008 hafi kærandi starfað sem stuðningsfulltrúi í 7., 8. og 9. bekk B-skóla og samhliða því verið í C-háskóla í 52 einingum (86,6% námi).

Á tímabilinu 2008–2009 hafi kærandi starfað sem umsjónarkennari 2. bekkjar B-skóla og samhliða því verið í C-háskóla í 50 einingum (83,3% námi).

Á tímabilinu 2009–2010 hafi kærandi verið atvinnulaus en verið í C-háskóla í 50 einingum (83,3% námi).

Kærandi tekur fram að vorið 2009 hafi hún veikst af lungnabólgu og verið frá vinnu í fimm vikur. Sökum þess hafi hún neyðst til að segja sig úr einum áfanga í C-háskóla þar sem hann hafi krafist rannsókna utanhúss sem hún hafi ekki getað sinnt. Þessi áfangi hefði gefið henni sex einingar sem hefði þýtt að hún hefði verið með 26 einingar í stað 20 á vorönninni, samtals 56 einingar fyrir veturinn (93,3% nám).

Kærandi segir jafnframt að í reglum Vinnumálastofnunar teljist fullt nám vera 75–100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Kærandi hafi fengið óskýr svör frá Fæðingarorlofssjóði og ekki neina útreikninga sem sýndu hvernig námsprósenta hennar hefði verið reiknuð. Þetta þýði að hún fái ekki greiddar 113.903 kr. á mánuði í námsstyrk heldur geti hún sótt um að fá 49.702 kr. í styrk sem sé ekki öruggt að hún fái þar sem hún hafi mætt miklu mótlæti af hálfu Vinnumálastofnunar og Fæðingarorlofssjóðs.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dagsettri 16. nóvember 2009, sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í þrjá mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 20. desember 2009. Með umsókn kæranda hafi fylgt námsferilsáætlun frá C-háskóla, dagsett 16. nóvember 2009, og vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dagsett 11. nóvember 2009. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr Þjóðskrá.

Fæðingarorlofssjóður hafi með bréfi til kæranda, dagsettu 3. desember 2009, synjað henni um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi. Í bréfinu hafi verið tiltekið að kærandi teldist ekki hafa uppfyllt skilyrðið um að hafa stundað fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrðið á vorönn 2009. Hafi kæranda verið bent á að hún ætti rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að skv. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eigi foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að áætlaður fæðingardagur barns kæranda hafi verið þann 20. desember 2009 og því hafi verið, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, horft til tímabilsins frá 20. desember 2008 fram að fæðingardegi barnsins.

Í námsferilsáætlun frá C-háskóla, dagsettri 16. nóvember 2009, komi fram að kærandi hafi lokið 14 einingum á vorönn 2009 og fengið sex einingar metnar vegna náms í stærðfræði. Á haustönn 2009, væntanlegri fæðingarönn barnsins, hafi kærandi verið skráð í 30 einingar.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að í kæru komi fram að kærandi hafi þurft að skrá sig úr einum sex eininga áfanga á vorönn 2009 vegna veikinda. Því hafi verið haft samband símleiðis við nemendaskrá C-háskóla þann 23. desember 2009. Í símtalinu hafi verið staðfest að þær sex einingar sem kærandi fékk metnar vegna náms í stærðfræði á vorönn 2009 hafi ekki verið vegna náms á vorönn 2009 við C-háskóla heldur hefði verið um að ræða eldra nám frá D-háskóla sem hefði verið skráð inn á þessa önn í júlí 2009. Hvað varði sex eininga áfangann sem kærandi hafi vitnað til í kæru, sem hún hafi þurft að segja sig úr vegna veikinda vorið 2009, þá hafi nemendaskrá staðfest að kærandi hafi verið skráð í þennan áfanga en sagt sig úr honum strax við upphaf annar eða þann 4. janúar 2009.

Jafnframt bendir sjóðurinn á að þegar um sé að ræða nám við háskóla teljist 30 einingar á önn vera 100% nám og því teljist 22–30 einingar á önn vera fullt nám samkvæmt ffl. Með hliðsjón af þeim gögnum og upplýsingum sem hafi legið fyrir um námsframvindu kæranda líti Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns. Kærandi hafi einvörðungu stundað 14 eininga nám á vorönn 2009 sem geri um 46,7% nám þá önn. Kærandi sé svo í fullu námi haustönn 2009 sem telji fjóra mánuði.

Loks bendir sjóðurinn á að hvorki í lögum um fæðingar- og foreldraorlof né í reglugerðum sem settar hafa verið með stoð í þeim sé að finna undanþágu um að mögulegt sé að leggja saman meðaltal tveggja anna við mat á fullu námi.

Með vísan til alls framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldris í fullu námi hafi verið réttilega synjað með bréfi, dagsettu 3. desember 2009. Að lokum bendir Fæðingarorlofssjóður á að kærandi eigi þess í stað rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni hinn 3. desember 2009.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá fæddist barn kæranda hinn Y. desember 2009. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. er því tímabilið frá Y. desember 2008 fram að fæðingu barnsins. Samkvæmt yfirliti frá C-háskóla, dagsettu 16. nóvember 2009, lauk kærandi 14 einingum við skólann á vorönn 2009. Auk þess kemur þar fram að kærandi fékk metnar sex einingar úr fyrra námi inn á þá önn. Verða þær einingar ekki taldar inn í heildarfjölda eininga þeirrar annar, enda námið ekki stundað þá önn. Samkvæmt gögnum málsins skráði kærandi sig úr sex eininga áfanga þann 4. janúar 2009, eða áður en meðganga hennar hófst. Með vísan til framangreinds telst kærandi einungis hafa lokið 14 einingum á vorönn 2009. Jafnframt fengust þær upplýsingar frá C-háskóla að kærandi hafi upphaflega verið skráð í 40 einingar á haustönn 2009, en hún hafi sagt sig úr tíu einingum og lokið tíu einingum þá önn.

Fullt nám við C-háskóla er 30 einingar á önn. Fullt nám í skilningi ffl. er samkvæmt því 22–30 einingar, sbr. 4. mgr. 7. gr. ffl. Þegar af þeirri ástæðu að kærandi telst ekki hafa lokið fullu námi á vorönn 2009 er óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi uppfylli ekki skilyrði ffl. um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A, um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta