Mál nr. 9/2009: Dómur frá 18. febrúar 2010
Ár 2010, fimmtudaginn 18. febrúar, var í Félagsdómi í málinu nr. 9/2009.
Alþýðusamband Íslands vegna
Félags vélstjóra og málmtæknimanna
gegn
Norðuráli Grundartanga ehf. og
Félagi iðn- og tæknigreina til réttargæslu
kveðinn upp svofelldur
D Ó M U R:
Mál þetta var dómtekið 19. janúar sl. að loknum munnlegum málflutningi.
Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Lára V. Júlíusdóttir og Valgeir Pálsson.
Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, Sætúni 1, Reykjavík, vegna Félags vélstjóra og málmtæknimanna, Stórhöfða 25, Reykjavík.
Stefndi er Norðurál Grundartanga ehf., Grundartanga, Akranesi.
Réttargæslustefndi er Félag iðn- og tæknigreina.
Dómkröfur stefnanda
Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði að stefnandi, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, fari með samningsaðild fyrir Kjartan Ólafsson, kt. 110359-4119, Hans Hafstein Þorvaldsson, kt. 250859-2369, Guðmund M. Karlsson, kt. 100753-2359, Þórarin Val Sverrisson, kt. 181055-2009, Jón Friðrik Jónsson, kt. 120453-3359, Hörð Hallgrímsson, kt. 041062-3209, Óskar Guðmundsson, kt. 251059-6169, Vilhjálm Sigurðsson, kt. 031053-4639, Eystein Gústafsson, kt. 100754-3479, Jón Sigurjónsson, kt. 230546-4019, Kára Stefánsson, kt. 080952-4499 og Andra Þór Kristjánsson, kt. 090577-5069, við gerð kjarasamnings við stefnda, Norðurál Grundartanga ehf., vegna starfa þeirra í álbræðslu stefnda á Grundartanga.
Þá er þess krafist að stefndi, Norðurál Grundartangi ehf., verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu, að mati Félagsdóms.
Dómkröfur stefnda
Að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda.
Að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.
Ekki eru hafðar uppi kröfur af hálfu réttargæslustefnda enda engar kröfur gerðar á hendur honum.
Málavextir
Stefnandi varð til við sameiningu Vélstjórafélags Íslands og Félags járniðnaðarmanna á árinu 2006. Stefnandi er eina fag- og stéttarfélag vél- og málmtæknimenntaðra manna á landsvísu og eina stéttarfélagið sem semur bæði fyrir vélstjóra og vélfræðinga. Stefndi, Norðurál Grundartangi ehf., á og rekur álbræðsluverksmiðjuna á Grundartanga. Félagið starfar á grundvelli fjárfestingasamnings við ríkisstjórn Íslands, sbr. lög nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga.
Vegna uppbyggingar álbræðslunnar á Grundartanga, var gert svokallað „Samkomulag um meginreglur varðandi gerð kjarasamninga“, dags. 18. nóvember 1997, milli Norðuráls hf., nú Norðuráls Grundartanga ehf., annars vegar, og Sveinafélags málmiðnaðarmanna á Akranesi, Verkalýðsfélags Akraness, Verkalýðsfélagsins Harðar, Verkalýðsfélags Borgarness, Verslunarmannafélags Akraness og Rafiðnaðarsambands Íslands, hins vegar, um skipan verkalýðsmála í væntanlegri álbræðslu Norðuráls hf. á Grundartanga í Hvalfirði. Samkomulagi þessu var ekki markaður sérstakur gildistími, en í því er hins vegar vísað til framangreinds fjárfestingasamnings Norðuráls hf. og ríkisstjórnar Íslands, en gildistími þess samnings er til 31. október 2018.
Í c-lið kafla samkomulagsins, sem ber yfirskriftina „Forsendur samkomulagsins“, segir m.a.: „Hin væntanlega álbræðsla á Grundartanga er, að því er væntanlega starfsmenn varðar, á félagssvæði ofangreindra stéttarfélaga. Norðurál skuldbindur sig til þess að láta félagsmenn stéttarfélaganna ganga fyrir um ráðningu nýrra starfsmanna að því tilskildu að þeir uppfylli þær kröfur sem Norðurál gerir, enda sé (sic) félögin opin nýjum starfsmönnum óháð búsetu.“
Í 1. grein samkomulagsins segir svo m.a.: „Stéttarfélögin munu standa sameiginlega að gerð kjarasamnings, vinnustaðasamnings, sem gilda mun milli allra starfsmanna sem eru félagar í stéttarfélögunum og Norðuráls.“ Síðar í ákvæðinu segir: „Vinnustaðasamningur er kjarasamningur í skilningi 4. mgr. 5. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938, sbr. lög nr. 75/1996 um breytingu á þeim.“
Í 3. grein samkomulagsins segir jafnframt að gildistími fyrsta vinnustaðasamningsins milli aðila samkomulags þessa skuli miðast við að hann falli úr gildi sex árum eftir að fullur rekstur hefst í 60.000 tonna álbræðslunni, sem áætlað er að verði um áramót 1998/1999, þ.e. um áramótin 2004/2005. Það sé sameiginlegt markmið aðila að stefnt skuli að því að þeir vinnustaðasamningar sem á eftir fari skuli gerðir til fimm ára hið minnsta í hvert skipti.
Núgildandi kjarasamningur, milli Norðuráls ehf. og þeirra stéttarfélaga sem að samningnum standa, nú Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Vesturlands, Verslunarmannafélag Reykjavíkur, Félag iðn- og tæknigreina og Rafiðnarsamband Íslands, er með gildistíma frá 1. janúar 2005 til og með 31. desember 2009. Um gildissvið þessa samnings er m.a. vísað til framangreinds samkomulags um meginreglur og tekið fram að samkomulagið skuli teljast hluti kjarasamningsins.
Í grein 4.02.1 kjarasamnings starfsmanna Norðuráls hf. segir að félagið skuldbindi sig til að láta þá, sem eru fullgildir félagsmenn í hlutaðeigandi verkalýðsfélögum og samböndum, hafa forgangsrétt til ráðningar til þeirra starfa sem um ræðir í 1. kafla samningsins.
Með bréfi til Vélstjórafélags Íslands, dags. 5. desember 2003, óskuðu ellefu þar tilgreindir starfsmenn hjá stefnda eftir inngöngu í Vélstjórafélagið. Í sama bréfi var þess óskað að félagið færi með samningsumboð, fyrir hönd starfsmannanna, við gerð næstu kjarasamninga við fyrirtækið. Þessi ósk, um að gerður yrði kjarasamningur milli Vélstjórafélagsins og stefnda, vegna þessara ellefu starfsmanna, var borin undir stefnda. Með svarbréfi stefnda 21. maí 2004, var erindi félagsins hafnað, með vísan til þess að í gildi væri bindandi samkomulag við sex stéttarfélög, sbr. áður tilvísað samkomulag um meginreglur. Hafi þau stéttarfélög skuldbundið sig til þess að standa að gerð vinnustaðasamnings sem muni gilda fyrir alla sem séu félagar í umræddum stéttarfélögum, enda hafi félagsmenn þessara stéttarfélaga forgang til starfa. Skyldi þetta fyrirkomulag gilda milli þessara aðila meðan fjárfestingarsamningur Norðuráls við ríkisstjórn Íslands væri í gildi eða a.m.k. til ársins 2018. Vélstjórafélagið fylgdi málinu ekki frekar eftir í það sinnið.
Með bréfi stefnanda, dags. 27. apríl 2009, til áðurgreindra stéttarfélaga, sem nú standa að kjarasamningnum við stefnda, var því lýst yfir að félagið hefði í hyggju að gera kjarasamning fyrir félagsmenn sína hjá Norðuráli, þegar núgildandi kjarasamningur yrði endurnýjaður um næstu áramót. Var óskað eftir samstarfi við stéttarfélögin og boðaði stefnandi til sameiginlegs fundar allra félaganna af þessu tilefni. Félag iðn- og tæknigreina og Verkalýðsfélag Akraness lýstu því yfir að þau myndu ekki fallast á samningsrétt stefnanda þegar samningar væru lausir. Varð því ekki úr boðuðum fundi.
Með bréfi stefnanda, dags. 12. maí 2009 til stefnda, var þess á ný óskað að stéttarfélagið kæmi að gerð kjarasamnings fyrir félagsmenn sína í álveri stefnda á Grundartanga. Með svarbréfi stefnda 29. júní sama ár var erindinu hafnað á ný, með sömu rökum og áður. Stefnandi telur sig því ekki eiga annarra kosta völ en að sækja viðurkenningu á samningsrétti sínum með málshöfun þessari fyrir Félagsdómi.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi krefst þess í málinu að viðurkenndur verði réttur hans til gerðar kjarasamnings, fyrir hönd 12 félagsmanna hans er starfa í álbræðslu stefnda á Grundartanga. Allir þessir starfsmenn stefnda séu, og hafi verið, félagsmenn í stefnda (sic) um nokkurt skeið. Í dag starfi alls 34 félagsmenn stefnanda í álbræðslu stefnda á Grundartanga.
Byggt er á því að stefnanda sé tryggður ótvíræður og skilyrðislaus réttur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 til gerðar kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna sinna, en í ákvæðinu segi eftirfarandi:
„Stéttarfélög eru lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna, enda hafi félagið í samþykktum sínum ákveðið að láta starfsemi sína taka til slíkra málefna.“
Samkvæmt 2. gr. laga stefnanda sé tilgangur félagsins að semja um kaup og kjör félagsmanna og gæta hagsmuna þeirra, vinna að atvinnumálum og bættu vinnuumhverfi félagsmanna og efla faglega og félagslega þekkingu og hæfni félagsmanna.
Gerð kjarasamninga hafi almennt verið talið mikilvægasta hlutverk hvers stéttarfélags. Þá sé reglan um samningafrelsið ein af grunnstoðum samningaréttar og beri að túlka allar undantekningar frá henni þröngt. Í máli þessu standi hvorki efni né hagsmunir stefnda, eða annarra, til þess að gerð sé slík undantekning. Það sé því einsýnt að mati stefnanda, að ef meina ætti honum að semja um kaup og kjör fyrir hönd áðurgreindra félagsmanna sinna, fæli það í sér brot gegn 5. gr. laga nr. 80/1938 og lögum stefnanda.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldisins nr. 33/1944, sbr. 12. gr. laga nr. 97/1995, og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, eigi menn rétt á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar á meðal stéttarfélög. Nái sá réttur ekki einvörðungu til þess að vera félagsmaður heldur einnig til þess að láta til sín taka starfsemi félagsins, þar með að fela stéttarfélagi sínu umboð til að gera kjarasamning, sbr. FD XI. bls. 484 (503). Það væri því andstætt mannréttindaákvæðum framangreindra laga, bæði jákvæðu og neikvæðu félagafrelsi, ef niðurstaða dómsins í máli þessu yrði sú að stefnanda væri meinað að gera kjarasamning fyrir þá félagsmenn sína sem starfa hjá stefnda, þegar samningar séu lausir um áramótin 2009/2010. Með þessu væri verið að þvinga félagsmenn stefnanda til að fela öðru stéttarfélagi, í þessu máli Félagi iðn- og tæknigreina (FIT), sem þeir vilji ekki vera félagsmenn í, umboð þeirra til gerðar kjarasamnings fyrir þeirra hönd, en starfssvið félagsmanna FIT í álverinu sé að mestu leyti það sama og hjá félagsmönnum stefnanda.
Að mati stefnanda fæli slíkur aðstöðumunur einnig í sér brot gegn tjáningarfrelsisákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar, með síðari breytingum, að því er varðar umrædda félagsmenn stefnanda. Með því að meina stefnanda að semja um kaup og kjör þeirra, fælist í því raunveruleg þvingun þeirra til að vera í öðru stéttarfélagi en því, sem þeir kjósi að vera félagar í, en fyrir liggi að skoðanir, áherslur, uppbygging og starfsemi stefnanda og FIT, séu ekki þær sömu. Liggi það í hlutarins eðli að teldu starfsmennirnir sig eiga samleið með FIT og vildu fylgja þeim að máli, væru þeir félagsmenn þar, en ekki hjá stefnanda.
Ef meina eigi stefnanda aðkomu að gerð kjarasamninga fyrir félagsmenn sína í álveri stefnda á Grundartanga, færi slíkt jafnframt, að mati stefnanda, gegn jafnræðissjónarmiðum, sbr. m.a. 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 3. gr. laga nr. 97/1995, þ.e. ef heimila eigi einu stéttarfélagi á ákveðnu sviði að semja um kaup og kjör félagsmanna sinna, en neita um leið öðru félagi á sama sviði að gera hið sama. Engin efnisleg rök geti réttlæt slíka mismunun.
Stefndi hafi byggt á því að áðurnefnt samkomulag um meginreglur, frá árinu 1997, veiti þeim félögum, sem nú standi að kjarasamningi starfsmanna Norðuráls, einkarétt til að semja um kaup og kjör fyrir hönd starfsmanna álversins, óháð aðild þeirra að stéttarfélögum. Vilji stefndi meina að þetta samkomulag um meginreglur leiði til þess að honum sé óskylt að semja við stefnanda. Það komi með öðrum orðum í veg fyrir að stefnandi geti samið um kaup og kjör fyrir hönd félagsmanna sinna, nú þegar kjarasamningar séu lausir. Þetta fái ekki staðist þar sem stefnandi sé ekki aðili að þessu samkomulagi. Það geti því engar skorður sett lögbundnum rétti hans til gerðar kjarasamnings fyrir hönd sinna félagsmanna. Samkomulagið víki hvorki til hliðar samningsrétti stefnanda né áður tilvísuðum mannréttindaákvæðum.
Það sé svo ekki rétt hjá stefnda að í samkomulaginu sé kveðið á um að önnur stéttarfélög fái ekki komið að kjarasamningsgerð starfsmanna álversins allt til ársins 2018. Í samkomulaginu sé aðkoma nýrra stéttarfélaga ekki útilokuð og þar segi alls ekki að forgangsréttur hvað þetta varðar, ef forgangsrétt megi kalla, gildi allt til ársins 2018. Í núgildandi kjarasamningi sé í grein 4.02.1 einvörðungu talað um forgangsrétt félagsmanna til starfa í álverinu á gildistíma samningsins en þar sé ekki minnst á forgangsrétt einstakra stéttarfélaga til gerðar kjarasamninga. Á þessu sé að mati stefnanda grundvallarmunur.
Ef lögmætur og gildur forgangsréttur þeirra stéttarfélaga, sem nú standi að kjarasamningi starfsmanna álvers stefnda, teljist vera fyrir hendi í málinu þá geti hann einvörðungu bundið hendur stefnanda meðan kjarasamningur sé í gildi. Gildistíma kjarasamningsins í samkomulaginu sé ekki markaður gildistími til 2018, eins og stefndi hafi haldið fram. Hið rétta sé að samkvæmt 3. grein samkomulagsins sé kveðið á um að stefnt skuli að því að kjarasamningar skuli hafa fimm ára gildistíma, að liðnum þeim fyrsta, sú sé og raunin, því núgildandi kjarasamningur gildi til fimm ára, frá 1. janúar 2005 til 31. desember 2009. Það sé fjárfestingarsamningur milli Norðuráls og Ríkisstjórnar Íslands, sem sé með gildistíma til ársins 2018 en ekki umræddur kjarasamningur. Ljóst sé því af öllu framansögðu að umrætt samkomulag um meginreglur, eða núgildandi kjarasamningur, geti á engan hátt girt fyrir að stefnandi fái samið um kaup og kjör félagsmanna sinna, starfsmanna Norðuráls, þegar samningar verði lausir um næstkomandi áramót.
Stefnandi kveðst byggja á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins nr. 33/1944, einkum greinum 65., 73. og 74., með áorðnum breytingum. Einnig 10. og 11. gr. laga nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu. Jafnframt lögum nr. 80/1938, einkum 1. gr. og 1. mgr. 5. gr. laganna. Um málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr. EML. nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda og lagarök
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því að hann sé þegar bundinn af vinnustaðasamningi við stéttarfélög sem taki til framleiðslu-, viðhalds-, skrifstofu- og annarra þjónustustarfa í álveri stefnda að Grundartanga. Félag iðn- og tæknigreina eigi aðild að þessum kjarasamningi vegna starfsmanna í vél- og málmtæknigreinum. Stefndi hafi með gerð kjarasamningsins skuldbundið sig til að viðurkenna Félag iðn- og tæknigreina sem réttan viðsemjanda sinn vegna þessara starfa og undirgengist forgang félagsmanna þess stéttarfélags við ráðningar nýrra starfsmanna.
Kjarasamningur stefnda og stéttarfélaganna sé vinnustaðasamningur í skilningi 4. mgr. 5. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938. Stefndi telji að vinnustaðasamningur um ákveðin störf útiloki önnur stéttarfélög frá því að krefjast samningsaðildar vegna sömu starfa. Það megi m.a. leiða af tilurð 4. mgr. 5. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur, eins og henni hafi verið breytt með lögum nr. 75/1996.
Stefndi byggir á því að hann hafi skuldbundið sig til gerðar vinnustaðasamnings við þau stéttarfélög sem aðild eigi að samkomulagi um meginreglur frá 18. nóvember 1997. Hann verði því ekki með réttu dæmdur til að virða þann samning að vettugi. Réttur stefnanda til samningsaðildar gangi ekki framar þeim skyldum sem stefndi hafi undirgengist á grundvelli kjarasamninga og rétti annarra stéttarfélaga á grundvelli sömu samninga.
Stefndi telur að kjarasamningurinn sé nauðsynlegur til að tryggja uppbyggingu og rekstraröryggi álvers stefnda á Grundartanga. Með honum sé samið um öll almenn störf verkafólks og iðnaðarmanna í framleiðslu- og viðhaldsstörfum og eigi það einnig við um þau störf sem starfsmenn stefnda, sem tilgreindir séu í kröfugerð stefnanda, sinni. Kjarasamningurinn tryggi að öll stéttarfélög, sem aðild eigi að samningnum, komi til kjaraviðræðna með sameiginlega samninganefnd og nýr samningur sé borinn sameiginlega undir atkvæði allra félagsmanna sem hann taki til. Kjarasamningurinn hafi einnig að geyma ákvæði sem tryggi óslitinn rekstur álversins en hlutaðeigandi stéttarfélög hafi skuldbundið sig með samningnum að grípa ekki til vinnustöðvana, þ.m.t. samúðarverkfalla, né annarra aðgerða sem raskað gætu starfsemi álversins. Á móti njóti félagsmenn stéttarfélaganna forgangsréttar við ráðningar og hærri launataxta en kveðið sé á um í almennum kjarasamningum. Viðurkenning á kröfu stefnanda um samningsaðild grafi undan gildi vinnustaðasamningsins og þar með því rekstraröryggi sem samningurinn tryggi. Vinnustaðasamningurinn sé þess eðlis að hagsmunir stefnda af því að halda öllum framleiðslu- og viðhaldsstarfsmönnum innan samningsins eigi að ganga framar rétti sömu starfsmanna til að fela öðru stéttarfélagi samningsaðild.
Stefndi byggir jafnframt á því að forgangsréttur félagsmanna FIT útiloki gerð kjarasamnings við annað stéttarfélag um sömu störf.
Við gerð samkomulags um meginreglur árið 1997 og vinnustaðasamnings í janúar 1998 hafi einungis eitt stéttarfélag vélvirkja verið starfandi á Grundartanga, þ.e. Sveinafélag málmiðnaðarmanna á Akranesi (SMA). Sama hafi átt við þegar samningurinn var framlengdur í apríl 2005 en þá hafði Félag iðn- og tæknigreina tekið yfir samningsaðildina eftir sameiningu við SMA. Því liggi fyrir að ekki var gengið gegn rétti annarra stéttarfélaga á svæðinu með samþykkt forgangsréttar félagsmanna SMA og síðar FIT við ráðningar nýrra starfsmanna.
Félagssvæði Félags járniðnaðarmanna, sem einnig hafi átt aðild að Samiðn, sambandi iðnfélaga, hafi ekki náð til Grundartanga, enda annað Samiðnarfélag með starfsemi á því svæði. Það hafi fyrst verið haustið 2006, með sameiningu Félags járniðnaðarmanna og Vélstjórafélags Íslands í nýtt félag, Félag vélstjóra og málmtæknimanna (VM), að til varð annað félag vélvirkja á svæðinu. Stefndi hafni því að stofnun VM eigi sjálfkrafa að leiða til þess að nýtt stéttarfélag geti krafist viðurkenningar á samningsaðild gagnvart stefnda og þannig grafið undan forgangsrétti félagsmanna FIT og gildandi vinnustaðasamningi.
Vélvirkjar, sem ráðnir hafi verið til stefnda, hafi frá upphafi verið félagsmenn í Sveinafélagi málmiðnaðarmanna á Akranesi, síðar FIT. Við ráðningu til starfa hafi umræddir starfsmenn samþykkt félagsaðild að stéttarfélagi sem njóti forgangsréttar samkvæmt vinnustaðasamningi stefnda. Félagsgjöld hafi verið dregin mánaðarlega af launum starfsmanna og skilað ásamt öðrum gjöldum til viðkomandi stéttarfélags. Stefndi hafi aldrei samið við vélvirkja um félagsaðild að VM eða skilað félagsgjöldum til þess félags. Stefndi byggi á því að umræddir vélvirkjar séu því félagsmenn FIT og bundnir af þeim vinnustaðasamningi sem FIT hafi gert við stefnda. Því sé ekki hægt að samþykkja að annað stéttarfélag fari samhliða með samningsaðild fyrir sömu starfsmenn.
Stefndi hafnar því að erindi Vélstjórafélags Íslands, dags. 5. desember 2003, sem vísað sé til í stefnu, hafi nokkra þýðingu. Vélstjórafélagið hafi á þeim tíma einungis verið félag vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða en hafi ekki náð til vélvirkja.
Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. l. nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Athugasemdir réttargæslustefnda
Réttargæslustefndi kveður mál þetta ekki lúta að réttindum réttargæslustefnda sem slíkum, en með málsókn þessari krefjist stefnandi viðurkenningar á að fara með samningsaðild fyrir hönd 12 nafngreindra einstaklinga við gerð kjarasamnings við stefnda. Málum virðist vera blandað í hve ríkum mæli stefnandi hafi efnt til þessarar málsóknar að höfðu samráði við þessa einstaklinga, sbr. meðfylgjandi yfirlýsingar. Áhorfsmál sé því um gildi málflutningsumboðs stefnanda í þessum efnum. Á þessu sé vakin athygli án þess þó að álitaefni þetta lúti að réttindum réttargæslustefnda.
Þá skuli áréttað að samkvæmt fyrirliggjandi eyðublaði af skriflegum ráðningarsamningum, sem muni vera í samræmi við starfssamninga starfsmanna, hafi hinir nafngreindu einstaklingar tekið afstöðu til þess að um réttindi þeirra fari samkvæmt réttindum félagsmanna réttargæslustefnda með því að merkja við réttargæslustefnda sem stéttarfélag. Viðurkenning á rétti stefnanda til gerðar kjarasamnings muni því að óbreyttu ekki hafa áhrif á réttarstöðu þessara einstaklinga nema ef fram komi ósk um breytingar á ráðningarsamningi af hálfu hvers og eins, eftir atvikum í kjölfar uppsagnar ráðningarsamnings viðkomandi.
Frá því sé réttilega greint í stefnu að réttargæslustefndi standi í nafni Sveinafélags málmiðnaðarmanna á Akranesi, auk annarra stéttarfélaga og Rafiðnaðarsambandsins, að sérstöku samkomulagi sem gert hafi verið við stefnda hinn 18. nóvember 1997. Samkomulag þetta lúti að meginreglum varðandi gerð kjarasamninga milli þessara tilgreindu aðila sem þeir hafi komist að samkomulagi um. Af hálfu réttargæslustefnda standi ekki annað til en að efna samningsskuldbindingar sínar samkvæmt þessu samkomulagi til loka gildistíma þess, hinn 31. október 2018. Krafa stefnanda um viðurkenningu á samningsaðild fyrir hönd nafngreindra einstaklinga hafi ekki áhrif á skuldbindingargildi yfirlýsinga réttargæslustefnda samkvæmt nefndu samkomulagi né annarra er að því standi.
Áréttað skuli einnig að þó stefnanda verði játað samningsumboð fyrir hönd þeirra einstaklinga sem dómkrafa stefnanda tilgreini, feli það, eitt og sér, ekki í sér rétt stefnanda til handa aðildar að þessu samkomulagi. Hvorki réttargæslustefndi né önnur stéttarfélög, sem hafi staðið að gerð samkomulagsins 1997 verði knúin til þess að standa að gerð kjarasamnings með stefnanda, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938, á forsendum þess samkomulags með dómsniðurstöðu í þessu máli. Álitaefni er lúti að þessu samkomulagi sé ekki úrlausnarefni dómsmáls þessa. Slíkt sé sjálfstætt úrlausnarefni.
Niðurstaða
Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 2. tl. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.
Stefnandi, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, krefst þess að viðurkennt verði að stefnandi fari með samningsaðild fyrir Kjartan Ólafsson, kt. 110359-4119, Hans Hafstein Þorvaldsson, kt. 250859-2369, Guðmund M. Karlsson, kt. 100753-2359, Þórarin Val Sverrisson, kt. 181055-2009, Jón Friðrik Jónsson, kt. 120453-3359, Hörð Hallgrímsson, kt. 041062-3209, Óskar Guðmundsson, kt. 251059-6169, Vilhjálm Sigurðsson, kt. 031053-4639, Eystein Gústafsson, kt. 100754-3479, Jón Sigurjónsson, kt. 230546-4019, Kára Stefánsson, kt. 080952-4499 og Andra Þór Kristjánsson, kt. 090577-5069, við gerð kjarasamnings við stefnda, Norðurál Grundartanga ehf. vegna starfa þeirra í álbræðslu stefnda á Grundartanga.
Í 5. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur segir að stéttarfélög séu lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna, enda hafi félagið í samþykktum sínum ákveðið að láta starfsemi sína taka til slíkra málefna. Í 2. gr. laga stefnanda er fjallað um tilgang félagsins og segir þar að tilgangur félagsins sé m.a. að semja um kaup og kjör félagsmanna og gæta hagsmuna þeirra.
Samkvæmt starfssamningum sem liggja frammi í málinu réðust tíu af þeim tólf einstaklingum, sem stefnandi krefst samningsumboðs fyrir, til starfa hjá stefnda á tímabilinu 2. maí 2007 til 1. nóvember 2009 og voru þá skráðir félagsmenn réttargæslustefnda, Félags iðn- og tæknigreina. Tveir þeirra voru ekki skráðir félagsmenn réttargæslustefnda, Guðmundur Marteinn Karlsson, sem hóf störf 20. maí 2007 og er ekki skráður félagsmaður neins félags, svo og Jón Friðrik Jónsson sem hóf störf 22. júní 2009 og er skráður félagsmaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur.
Í málinu liggur ekki fyrir úrsögn ofangreindra félagsmanna réttargæslustefnda úr því félagi. Ekki liggur heldur frammi yfirlýsing Jóns Friðriks Jónssonar um úrsögn úr Verslunarmannafélagi Reykjavíkur. Hins vegar liggja frammi inntökubeiðnir nokkurra þessara manna í Vélstjórafélag Íslands: Kjartans Ólafssonar frá 9. júlí 1989, Guðmundar Marteins Karlssonar frá 11. júlí 1977, Þórarins Vals Sverrissonar frá 18. nóvember 1987, Harðar Hallgrímssonar frá 19. október 1989, Eysteins Gústafssonar frá 27. mars 1973 og Kára Stefánssonar frá árinu 1972. Þá sótti Vilhjálmur Sigurðsson um inngöngu í stefnanda 9. nóvember 2009. Inngöngubeiðnir annarra liggja ekki frammi. Allar þessar inngöngubeiðnir, utan inngöngubeiðni Vilhjálms Sigurðssonar í stefnanda, eru mun eldri en starfssamningar þeirra við stefnda. Inngöngubeiðnir í stefnanda vegna annarra starfsmanna liggja ekki fyrir í málinu.
Í samræmi við ákvæði starfssamninga hefur stefndi, samkvæmt gögnum máls, staðið skil á félagsgjöldum þessara einstaklinga til þess stéttarfélags sem þeir óskuðu eftir að vera í við ráðningu, þ.e. réttargæslustefnda, eins og fram kemur í starfssamningum sem liggja frammi í málinu. Var félagsgjöldum af Jóni Friðrik Jónssyni og Guðmundi Marteini Karlssyni einnig skilað til þess félags.
Starfsmenn hafa aldrei tilkynnt stefnda um úrsögn úr réttargæslustefnda eða um inngöngu í nýtt félag. Yfirlýsing þeirra frá 2. nóvember 2009 þar sem þess er óskað að stefnandi fari með samningsaðild fyrir þeirra hönd verður hvorki túlkuð sem úrsögn úr réttargæslustefnda né tilkynning um inngöngu í nýtt félag.
Undir flutningi málsins var upplýst að félagsgjöld af þessum mönnum hefðu verið send áfram til stefnanda og átti það að sýna fram á að mennirnir væru félagsmenn í stefnanda. Stefndi kannaðist ekki við þessa framkvæmd en stefnandi vísaði til bókhaldskerfis lífeyrissjóðanna við innheimtu gjalda og ákveðinnar framkvæmdar um skil á félagsgjöldum milli félaga. Ekki liggur fyrir í málinu neinn samningur um slík skil milli stéttarfélaga eða hvaða heimild byggt er á við framsendingu þessara greiðslna og getur stefnandi ekki byggt kröfu sína um viðurkenningu á samningsaðild við stefnda á þessu atriði.
Í málinu liggur fyrir bréf tiltekinna starfsmanna hjá stefnda til stefnanda, dags. 5. desember 2003, þar sem þeir óska eftir inngöngu í stefnanda. Enginn þeirra starfsmanna sem það undirrita eru meðal þeirra sem nú er óskað eftir samningsumboði fyrir. Hefur bréf þetta því ekki þýðingu í þessu máli.
Samkvæmt framansögðu hefur ekki verið sýnt fram á að þeir starfsmenn stefnda sem stefnandi krefst samningsumboðs fyrir séu félagsmenn í stefnanda.
Stefndi er þegar bundinn af kjarasamningi við réttargæslustefnda. Í kjarasamningnum er tekið fram að aðilar hafi undirritað hinn 18. nóvember 1997 samkomulag um meginreglur varðandi gerð kjarasamninga þar sem m.a. er kveðið á um það að stefndi viðurkenni hlutaðeigandi stéttarfélög sem viðsemjendur sína og að stéttarfélögin lýsi því yfir að þau muni standa sameiginlega að gerð kjarasamnings sem gildi vegna starfa í þágu stefnda. Það samkomulag telst hluti kjarasamningsins. Í starfssamningi stefnda við starfsmenn er tekið fram að starfssamningurinn sé gerður í samræmi við kjarasamning Norðuráls og verkalýðsfélaga, dags. 10. janúar 1998, sem teljist hluti starfssamnings þessa.
Réttargæslustefndi er stéttarfélag sem gerir kjarasamninga fyrir sína félagsmenn við stefnda um sömu störf og stefnandi. Stefndi er bundinn í kjarasamningi að forgangsrétti félagsmanna réttargæslustefnda til starfa, en í gr. 4.02.1 segir að félagið skuldbindi sig til að láta þá sem eru fullgildir félagsmenn í hlutaðeigandi verkalýðsfélögum og samböndum hafa forgangsrétt til ráðningar til þeirra starfa, sem um ræðir í 1. kafla samningsins, enda séu þeir hæfir til þess starfs, sem um er að ræða og hafi tilskilin réttindi þar sem þeirra er krafist. Vegna þessa forgangsréttarákvæðis er stefndi í raun bundinn af því að viðurkenna aðeins eitt stéttarfélag í hverri starfsgrein á viðkomandi félagssvæði, sbr. og C-lið í umræddu samkomulagi frá 18. nóvember 1997 um meginreglur varðandi gerð kjarasamninga.
Með vísan til þess sem að framan greinir verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda í málinu.
Samkvæmt þessum úrslitum málsins verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðst 300.000 krónur.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Norðurál Grundartanga ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Alþýðusambands Íslands vegna Félags vélstjóra og málmtæknimanna, í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað.
Eggert Óskarsson
Gylfi Knudsen
Kristjana Jónsdóttir
Lára V. Júlíusdóttir
Valgeir Pálsson