Föstudagspóstur 10. nóvember 2023
Heil og sæl,
Nú er hver dagur myrkari en sá á undan og erfiðara og erfiðara að koma sér undan hlýrri sæng á morgnana. Við látum okkur hafa það samt og auðvitað hjálpar að það er alltaf nóg um að vera í utanríkisþjónustunni.
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra ítrekaði ákall um tafarlaust vopnahlé af mannúðarástæðum, óhindrað aðgengi neyðarbirgða og að alþjóðalög væru virt í þeim hryllilegu átökum sem nú eiga sér stað fyrir botni Miðjarðarhafs.
Ísland leggur sitt af mörkum til að bregðast við neyðinni á Gaza. Við höfum stóraukið stuðning við @UNRWA sem skilar sér beint til þeirra sem mest þurfa. Við ítrekum ákall um tafarlaust vopnahlé af mannúðarástæðum, óhindrað aðgengi neyðarbirgða og að alþjóðalög séu virt. https://t.co/7ZyaZCTd9y
— Bjarni Benediktsson (@Bjarni_Ben) November 8, 2023
Byrjum svo yfirferð yfir viðburði vikunnar hjá sendiskrifstofum Íslands hjá vinum okkar á Norðurlöndunum.
Bryndís Kjartansdóttir sendiherra Íslands í Stokkhólmi bauð Íslendingum sem starfa í sænskum tölvuleikjaiðnaði í embættisbústað sendiráðsins. Áhugaverðar umræður sköpuðust um helstu tækifæri og áskoranir í iðnaðinum á Íslandi og í Svíþjóð.
Miklar annir voru í afgreiðslu vegabréfa hjá sendiráðinu í Kaupmannahöfn.
Aðalræðisskrifstofa Íslands í Færeyjum auglýsir upplestur Jóns Kalmans Stefánssonar sem hitar upp fyrir Bókadaga í Norðurlandahúsinu þann 16. nóvember næstkomandi í tilefni af degi íslenskrar tungu.
Sendiherra Íslands í Finnlandi, Harald Aspelund og Sigrún Bessadóttir sendiráðsfulltrúi, sóttu fund um stafræn ferðaskilríki sem sendiráð Litháen í Helsinki stóð fyrir.
Landamæraeftirlit og vegabréf voru áfram á dagskránni hjá Harald en hann heimsótti einnig landamæramiðstöðina Vaalima og kynnti sér aðstæður og störfin sem þar fara fram.
Á miðvikudag var fyrrum forseti Finnlands Martti Ahtisaari borinn til grafar. Harald Aspelund var viðstaddur og vottaði forsetanum fyrrverandi virðingu fyrir hönd íslenskra stjórnvalda.
Færum okkur svo yfir á meginlandið.
Sendiherra Íslands í Berlín, María Erla Marelsdóttir, opnaði nýja íslenska sýningu „Hliðstæðar víddir II“ fyrir fullu húsi í Felleshus ásamt Ásdísi Spanó sýningarstjóra.
Þetta er seinni hluti verkefnisins en fyrri hlutinn var sýndur á sl. ári. Boðið var upp á fjölbreytta dagskrá, verkefni Kjartans Ólafssonar Calmus Waves kynnt og gjörningurinn Skriða eftir Gunnhildi Hauksdóttur og Borgar Magnason sýndur. Auk þessara listamanna voru Elín Hansdóttir og Kolbeinn Hugi Höskuldsson viðstödd opnunina og kynntu verk sín.
Um er að ræða samstarfsverkefni við KÍM og Skapandi Ísland / Business Iceland þar sem samtals 25 listamenn og hönnuðir eru kynntir. Viðburðurinn stendur fram í miðjan janúar á næsta ári.
María Erla var einnig viðstödd kynningu nýútkominnar bókar Ragnars Jónassonar og Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra „Reykjavík“ á þýsku í Köln síðastliðið föstudagskvöld. Rúmlega 650 manns mættu á upplesturinn sem var sérútgáfa af hinni vinsælu LitCologne bókmenntahátíð.
Þá tók hún einnig þátt í þýsku jarðhitaráðstefnunni sem haldin var í Essen. Þar kynntu Grænvangur, Orkuveita Reykjavíkur, GEORG og Arctic Green Energy framsæknar tæknilausnir í jarðhitamálum. Í ræðu sinni lagði sendiherra áherslu á jarðhita sem grunn fyrir velferð og áframhaldandi tækniframfarir.
Seinna fór svo fram orkuráðstefnan Charge Energy Konferenz í Berlín og lauk þeirri ráðstefnu með verðlaunaafhendingu í húsnæði norrænu sendiráðanna í Berlín undir nafninu Charge Energy Awards. Bauð sendiherra gesti velkomna og voru veitt verðlaun í nokkrum mismunandi flokkum, þar á meðal fyrir framúrskarandi árangur á sviði markaðssetningar í orkumálum. Tóku Grænvangur og HS Orka þátt í pallborðsumræðum, en íslensku fyrirtækin Orkusalan, Landsnet, Veitur og Orkubú Vestfjarða voru einnig á ráðstefnunni.
Útgáfutónleikar GusGus á nýjustu hljómplötu þeirra "DANCEORAMA" fara fram á tónlistarhátíðinni Glass Danse í Astra Kulturhaus Berlin á morgun.
Í tilefni af því efndi sendiráðið til leiks þar sem tveir heppnir þátttakendur fengu miða á tónleikana.
Sturla Sigurjónsson sendiherra í London var viðstaddur hásætisræðu Karls Bretakonung í lávarðadeild þingsins. Í ræðunni kynnti hann áform ríkisstjórnarinnar um lagasetningu á næstu mánuðum.
Sturla Sigurjónsson sendiherra og Eliza Reid forsetafrú heimsóttu bás Íslands á ferðaráðstefnunni World Travel Market, þá stærstu í ferðaþjónustuheiminum, sem tugþúsundir manns heimsækja ár hvert.
Fjárfestingar á Íslandi með hliðsjón af norðurslóðum var umfjöllunarefni á annari fjölmennri ráðstefnu í London. Sturla Sigurjónsson, sendiherra, var á meðal þátttakenda.
Í sendiráði Íslands í París er talið niður í menningarhátíðina Les Boréales sem haldin verður 15. - 26. nóvember næstkomandi Ísland verður í heiðurssæti á hátíðinni og fjöldi íslenskra listamanna koma fram.
Aðalráðstefna UNESCO hófst í París í vikunni og stendur yfir til 22. nóvember með þátttöku 194 aðildarríkja. Lilja D. Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra flutti ræðu fyrir hönd Íslands og var haldin sameiginleg norræn móttaka sem sótt var að aðalframkvæmdastjóra UNESCO Audrey Azouley. Fastanefnd og landsnefnd Íslands bauð upp á alíslenskt skyr sem vakti mikla lukku og rann ljúft niður í gesti!
🇮🇸 Minister of Culture Lilja Alfredsdóttir at the General Policy Debate at #UNESCOGC: "Iceland is firmly committed to continue playing an active role in contributing to @UNESCO's work and thereby working towards the common good" 🔗https://t.co/JN2GH1WbP0 pic.twitter.com/yNQRV6S5pF
— L’Islande à Paris 🇮🇸 (@IcelandinParis) November 9, 2023
Thanks to all attendees of the #Nordic reception at the 42nd General Conference @UNESCO, including Director-General @AAzoulay, and ADG PAX @akobII, who delivered an address. We enjoyed some great music, Nordic cuisine including #Icelandic skyr & wonderful company!
— L’Islande à Paris 🇮🇸 (@IcelandinParis) November 10, 2023
🇸🇪🇩🇰🇫🇮🇫🇴🇮🇸🇳🇴🇦🇽 pic.twitter.com/yKd7wQFJeE
Pólskir háskólanemar heimsóttu sendiráð Íslands í Varsjá og þar var ferðamannaiðnaðurinn á Íslandi til umræðu.
Bregðum okkur þá til Afríku.
Hildigunnur Engilbertsdóttir forstöðumaður sendiráðsins í Kampala og Sveinn H. Guðmarsson verkefnastjóri heimsóttu mannréttindafrömuðinn Hassan Shire á skrifstofu samtakanna Defend Defenders sem hefur það markið að efla, styrkja og verja starf fólks í mannúðarstörfum í Austur-Afríku og á Horni Afríku.
It was a pleasure to meet @Hassan_shire and his team to learn more about how @DefendDefenders promotes, protects and strengthens the work of human rights defenders #HRDs in Uganda 🇺🇬 and the region 🌍. https://t.co/M5SUwhCpO8
— Hildigunnur (Hilda) Engilbertsdóttir (@HildigunnurE) November 8, 2023
Stýrifundur nýrra samtaka Nkhotakota Basic Services Programme (KKBSP) sem fjármögnuð eru af sendiráði Íslands í Lilongwe fór fram í Nkhotakota héraði í vikunni.
Inga Dóra Pétursdóttir forstöðumaður sendiráðins í Lilongwe hitti Jean Sendeza, jafnréttisráðherra Malawi og átti með henni góðan fund um samvinnu Malawi og Íslands á sviði jafnréttismála. Irma Erlingsdóttir forstöðumaður Jafnréttisskóla GRÓ var einnig viðstödd fundinn og kynnti sex mánaða nám á framhaldsstigi sem Háskóli Íslands býður malavískum nemendum upp á.
Þá hélt sendiráð Íslands í Lilongwe í samstarfi við UN Women viðburðinn "Fostering Women and Girls' Voices and Agency: A Feminist Dialogue" sem vakti heilmikla lukku.
Yfir til Norður-Ameríku
Fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York fékk góða heimsókn sendinefndar þingmanna að heiman.
Delighted to welcome a parliamentary delegation from 🇮🇸 @Althingi to @IcelandUN. Always important to touch base and engage in discussions with our elected representatives, not least during these testing times. pic.twitter.com/h5BRehkWrF
— Jorundur Valtysson 🇮🇸 (@jvaltysson) November 6, 2023
Sendiráðið í Washington fékk líka heimsókn, frá bandarískum háskólanemendum sem voru í borginni til þess að taka þátt í Model UN viðburði á vegum Georgetown Háskólans. Nemendurnir komu allstaðar að í Bandaríkjunum og þótti starfsfólki sendiráðsins mjög gaman og fræðandi að spjalla við þau um utanríkisstefnu Íslands, loftslagsaðgerðir og jafnrétti kynjanna.
Today we received a group of college students participating in the 51th National Collegiate Security Conference #ModelUN run by Georgetown Int. Relations Association. Good discussion & excellent questions about Iceland's foreign policy, climate action & gender equality 🇮🇸🇺🇸🌍 pic.twitter.com/HrzOzWUfKw
— Iceland in US 🇮🇸 (@IcelandInUS) November 3, 2023
Endum í Asíu.
Sendiráð Íslands í Japan stendur fyrir námskeiði í íslensku í tilefni af degi íslenskrar tungu sem fram fer í næstu viku.
Ragnar Þorvarðarson sendiráðunautur í Tókýó tók þátt í pallborðsumræðum þar sem leyndardómar fjölbreytileikans og mikilvægi hans fyrir samfélög voru til umfjöllunar.
『〜北欧2国から学ぶ〜ダイバーシティを取り込み、新たなアイディアを創発する方法』のタイトルで弊大使館よりラグナルも登壇し、パネルディスカッションを行いました。ダイバーシティが社会や人々にとって重要なのか、その秘訣を事例などから紐解きました🌈 #アイスランド #フィンランド #北欧 https://t.co/UFy75BMVL9 pic.twitter.com/ALyX9TkGSA
— 駐日アイスランド大使館 (@IcelandEmbTokyo) November 10, 2023
Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra í Tókýó tók þátt í fundum Lögfræðingafélags Íslands en meðlimir þess heimsóttu Japan og kynntu sér japanskt réttarkerfi.
アイスランド法律家協会が日本に来日し、最高裁での戸倉三郎裁判長、国会では土屋品子復興大臣との会談、西村あさひ法律事務所との意見交換など、非常に充実した交流を果たしました🇯🇵🇮🇸 https://t.co/xVoRkMjgvU
— 駐日アイスランド大使館 (@IcelandEmbTokyo) November 9, 2023
Þórir Ibsen sendiherra í Peking átti fund með íslenskum fyrirtækjum sem tóku þátt í CIIE vörusýningunni í Shanghai, og ræddi við þau um viðskiptaumhverfið í Kína.
Fulltrúar 10 íslenskra fyrirtækja tóku þátt í CIIE vörusýningunni í Shanghai, auk Íslandsstofu og sendiráðsins í Peking. CIIE er stærsta vörusýning sem haldin er árlega í Kína
#Iceland is well represented at the #CIIE in Shanghai. Number of new #Icelandic companies joined the #BusinessIceland pavilion this year. The pavilion of the high-tech prosthetic innovator @OssurCorp always catches attention & @controlant
— Thorir Ibsen (@ThorirIbsen) November 7, 2023
exhibits in the Nordic start-up section pic.twitter.com/5PIqNYNHmN
Lagalisti vikunnar er eftir sem áður í boði sendiráðs Íslands í Póllandi sem hefur að þessu sinni tekið saman lista af íslenskum Júróvisjón lögum sem kepptu í undankeppnum en komust ekki áfram í aðalkeppnina.
Við minnum að endingu á Heimsljós, fréttaveitu okkar um mannúðar- og þróunarmál en þar var í vikunni sagt frá mannúðarráðstefnunni í París þar sem Martin Griffiths, mannúðarstjóri Sameinuðu þjóðanna hvatti til þess að hlé yrði gert á yfirstandandi átökum á Gaza og varð að ósk sinni því um svipað leyti var greint frá samþykkt stjórnvalda í Ísrael á daglegu fjögurra klukkustunda hléi á bardögum.
Góða helgi!
Upplýsingadeild