Hoppa yfir valmynd
8. maí 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 65/2012

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 65/2012

 

Ákvörðun húsfundar. Sameiginlegur kostnaður.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 5. desember 2012, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 17. desember 2012, athugasemdir álitsbeiðanda, mótt. 15. janúar 2013, athugasemdir gagnaðila, dags. 22. janúar 2013, og viðbótarathugasemdir álitsbeiðanda, dags. 10. febrúar 2013, lagðar fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 8. maí 2013.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið B, alls fjóra eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi risíbúðar. Ágreiningur er um hvort ákvörðun um viðhaldsframkvæmdir hafi verið tekin með lögmætum hætti.

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að ákvörðun húsfundar um steiningu á öllu húsinu og múrframkvæmdir verði talin ólögmæt sem og samningur við verktaka sem byggir á ákvörðuninni.

Í álitsbeiðni kemur fram að á húsfundi sumarið 2012 hafi verið fjallað um endurbætur á húsinu. Meðal þess sem kom fram hafi verið þörf á að laga skyggni yfir inngang 1. og 2. hæðar og að lagfæra þyrfti steypuskemmdir á tröppum. Ákveðið hafi verið að eigandi 2. hæðar myndi fá tilboð í framkvæmdirnar. Í lok fundar hafi verið ákveðið að fyrst að aflað væri tilboða á annað borð, að fá einnig tilboð í steinun hússins. Á næsta fundi sem haldinn hafi verið um haustið hafi eigandi 2. hæðar kynnt tvö tilboð um steiningu á öllu húsinu en ekkert tilboð um lagfæringar á skyggni, sem þó hafi verið niðurstaða fyrri fundar.

Eigandi 2. hæðar og kjallara hafi verið fylgjandi þessum framkvæmdum, þ.e. að steina allt húsið. Álitsbeiðandi hafi verið á móti framangreindum framkvæmdum vegna skorts á getu til að greiða sinn hluta að minnsta kosti næstu tvö árin. Á fundinum hafi eigandi kjallara fullyrt að nægilegt væri að hafa einfaldan meirihluta fyrir ákvörðun sem þessari og þar með væri ákveðið að skoða málið betur og funda aftur í byrjun nóvember. Eigendur kjallara, 1. og 2. hæðar hafi fundað á ný um málið 8. nóvember 2012 þar sem tekin hafi verið sú ákvörðun að ráðast í þær framkvæmdir að steina allt húsið. Álitsbeiðandi hafi verið upplýstur um ákvörðun gagnaðila í bréfi sem dagsett hafi verið 26. nóvember 2012.

Í 30. gr. laga um fjöleignarhús komi fram að sé um byggingu, endurbætur eða framkvæmdir sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu þá verði ekki í hana ráðist nema allir eigendur samþykki, ef um sé að ræða verulega breytingu á sameign, þar á meðal útliti hússins. Steining á öllu húsinu sé veruleg breyting á sameign og telji álitsbeiðandi að ákvörðun sé þar af leiðandi ólögmæt. Framkvæmdin gjörbreyti útliti hússins og kosti um 6.000.000 kr. Augljóslega sé um verulega breytingu eða framkvæmd að ræða. Álitsbeiðandi bendir jafnframt á að þó framkvæmdin hefði verið óveruleg þá hefði þurft að boða nýjan fund þar sem álitsbeiðandi hafi ekki verið viðstaddur, sbr. 42. gr. fjöleignarhúsalaganna.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að í ágúst 2012 hafi allir eigendur hússins haldið fund í garði hússins. Tilgangur fundarins hafi meðal annars verið að ræða nauðsynlegar endurbætur og viðhald á garði og húseigninni sjálfri, stofna formlegt húsfélag og ræða gjald í hússjóð. Eigandi íbúðar á 2. hæð hafi lagt fram skjal sem hann hafi kallað „Framkvæmdir sameign B, 2012-2013?“ Niðurstaða fundarins hafi verið að fela eiganda íbúðar á 2. hæð að taka garðinn í gegn og leita álits múrarameistara og leita tilboða í múrviðgerðir og steinun á húsinu. Lögð hafi verið áhersla á að skýrt kæmi fram í áliti og tilboðum, annars vegar umfang og kostnaður á múrviðgerðum og hins vegar steinun. Eiganda íbúðar 1. hæðar hafi verið falið að stofna formlega húsfélag með kennitölu og stofna reikning fyrir hússjóð og halda utan um væntanlegar framkvæmdir. Skömmu eftir þennan fund hafi álitsbeiðandi flutt úr húsinu og leigt út íbúð sína.

Eigandi íbúðar á 2. hæð hafi gert þær umbætur og fegrun á garðinum sem um hafi verið rætt. Jafnframt hafi hann leitað álits og tilboða tveggja múrarameistara sem fengist höfðu við múrviðgerðir og steinun á húsum í hverfinu eins og óskað hafði verið eftir á fundinum. Báðir múrarameistararnir hafi brugðist vel við, grandskoðað allan múr og metið skemmdir, sem hafi reynst vera umfangsmeiri en talið hafi verið, enda hafi nánast engar múrviðgerðir farið fram á húsinu frá byggingu þess. Tvær álitsgerðir eða tilboð hafi borist. Þegar þessi tilboð hafi legið fyrir hafi eigandi íbúðar á 2. hæð sent öllum eigendum hússins afrit af tilboðunum og boðað til fundar 27. október 2012.

Allir eigendur hússins hafi mætt á fundinn. Á fundinum hafi framangreindar álitsgerðir og tilboð verið rædd. Á fundinum hafi álitsbeiðandi lýst sig andsnúinn öllum meiriháttar kostnaðarsömum endurbótum og framkvæmdum á húseigninni. Álitsbeiðandi hafi lagt fram ósk um hvort ekki yrði hægt að skipta verkinu þannig að múrviðgerðir færu fyrst fram og síðar steinun eftir um tvö ár. Jafnframt hafi álitsbeiðandi óskað eftir að fá að kanna tilboðin nánar og leita álits annarra múrarameistara og leggja fram á næsta fundi. Það hafi verið samþykkt. Jafnframt hafi verið boðað til framhaldsfundar hálfum mánuði síðar á sama stað eða 8. nóvember 2012.

Eftir fundinn hafi borist tölvupóstur frá álitsbeiðanda þar sem hann hafi ítrekað andstöðu sína og að hann vildi fá framkvæmdunum frestað í allt að tvö ár þar sem hann hafi sjálfur staðið í umfangsmiklum lóðarkaupum og breytingum á öðru húsnæði sem hann hafi verið fluttur í. Í millitíðinni hafi eigandi íbúðar á 2. hæð fengið frest á því tilboði sem lægra hafi verið til 9. nóvember 2012. Hann hafi athugað hvort hægt væri að skipta verkinu eins og álitsbeiðandi hefði óskað eftir en það hafi múrarameistarinn talið hafa í för með sér verulega aukinn kostnað, eins ef verkinu yrði í heild seinkað um tvö ár. Jafnframt hafi verið athugað að fá greiðslufrest á hluta álitsbeiðanda og hafi múrarameistarinn tekið jákvætt undir þá bón. Til að liðka fyrir hafi eigandi íbúðar 2. hæðar jafnframt boðið álitsbeiðanda að hluti 2. hæðar yrði greiddur allur í upphafi verks svo álitsbeiðandi gæti notið greiðslufrests.

Álitsbeiðandi hafi ekki mætt á fundinn en sent eiganda íbúðar 2. hæðar þau skilaboð að betra væri að aðrir eigendur myndu ræða um framkvæmdirnar innbyrðis og ná niðurstöðu og að því loknu myndi álitsbeiðandi ræða við þau. Auk þess hafi álitsbeiðandi sent tölvupóst á aðra eigendur þess efnis að hann myndi ekki mæta á fundinn þar sem hann hefði áhyggjur af því að ef hann myndi mæta myndi það leiða til þess að ekki kæmist niðurstaða í málið. Hann teldi það betra að aðrir eigendur ræddu sín á milli og létu hann vita hvað þau legðu til. Fundurinn hafi verið haldinn með þremur af fjórum eigendum sem eigi 81,3% af eigninni. Á fundinum hafi verið ákveðið að taka tilboði þess sem lægra bauð og eigendum 1. og 2. hæðar falið að ræða við tilboðsgjafa og ganga frá samningum um múrviðgerðir og steinun á húsinu.

Formaður húsfélagsins hafi upplýst álitsbeiðanda um þessa ákvörðun og staðfest framangreinda ákvörðun með bréfi þar sem álitsbeiðandi hafi auk þess verið áminntur um ógreiddan reikning fyrir endurbótum á garði sem lagður hafi verið fram á fundinum 27. október 2012.

Öll umræða um ferlið við endurbætur á húseigninni hafi verið opin, vel kynnt og skráð. Fundir hafi verið boðaðir með lögmætum hætti og ákvarðanir teknar samhljóða af 75% eigenda sem eigi 81,3% eignarhlut. Álitsbeiðandi hafi hins vegar kosið að hundsa löglega boðaðan fund og ekki lagt fram nein gögn um mat á fyrirliggjandi tilboðum eins og honum hafi verið falið að afla milli funda.

Álitsbeiðandi telji að hér sé verið að ráðast í umfangsmiklar og kostnaðarsamar útlitsbreytingar og vísi þar til 30. gr. laga um fjöleignarhús. Staðreyndin sé hins vegar sú að hlutar hússins liggi undir skemmdum vegna tæringa og sprungu í múr og kominn sé tími á múrviðgerðir og steinun. Hvorki standi til að fara í stórframkvæmdir né miklar útlitsbreytingar á húseigninni, aðeins venjulegt viðhald á múr og steinun. Tilboðið sem samþykkt hafi verið sé að mati sérfróðra mjög hagstætt og framangreindar úrbætur knýjandi. Meirihlutinn sætti sig ekki við að álitsbeiðandi, sem sé eigandi minnihluta og búi ekki í húsinu, komi í veg fyrir almennt og knýjandi viðhald.

Í athugasemdum álitsbeiðanda mótmælir álitsbeiðandi því að ekki standi til að fara í stórframkvæmdir eða miklar útlitsbreytingar á húseigninni. Formaður húsfélagsins hafi sjálfur haldið því fram á húsfundi að ástand steypunnar á húsinu væri gott og að eingöngu þyrfti að lagfæra skyggni og útitröppur. Ekki sé um að ræða nauðsynlegar viðgerðir og telur álitsbeiðandi sig geta sýnt fram á það. Álitsbeiðandi telji að helsta ástæða framkvæmdanna sé sú að nágrannar hafi steinað sín hús og því líti umrædd húseign illa út í samanburði. Auk þess bendir álitsbeiðandi á að flestir myndu telja framkvæmdir sem kosti um 6.000.000 til 7.000.000 kr. stórframkvæmdir. Því telji álitsbeiðandi að allir eigendur verði að samþykkja slíkar framkvæmdir lögum samkvæmt. Álitsbeiðandi hafni því að um sé að ræða nauðsynlegt viðhald sem ekki megi bíða í nokkur ár. Formaður húsfélagsins haldi því fram að haldinn hafi verið fundur þar sem honum hafi verið falið að leita álits múrarameistara og fá tilboð í múrviðgerðir og steinun á húsinu. Álitsbeiðandi segir þetta ekki hafa verið niðurstöðu fundarins. Niðurstaðan hafi verið sú að formanninum hafi verið falið að afla tilboða í lagfæringu á steypuskemmdum á skyggni og útitröppum. Það hafi verið samþykkt af öllum á fundinum, þar á meðal álitsbeiðanda. Í lok fundar hafi svo verið ákveðið að þar sem til hafi staðið að leita tilboða á annað borð þá væri gott að fá hugmynd um hvað það myndi kosta að steina allt húsið. Þegar haldinn hafi verið fundur í október hafi komið í ljós að hann hafði ekki gert það sem honum hafi verið falið, þ.e. að afla tilboða í viðgerðir á skyggni og útitröppum, heldur eingöngu aflað tilboða í steinun á öllu húsinu. Á þeim fundi hafi aðrir fundarmenn staðfest að niðurstaða fyrri fundar hafi fyrst og fremst verið að afla tilboða í skyggni og útitröppur en ekki endursteinun á húsinu. Í þessu samhengi bendir álitsbeiðandi á að formaðurinn hafi ekki lagt fram fundargerðir fyrri fundar.

Formaður gagnaðila hafi sagt að álitsbeiðandi vilji fá framkvæmdunum frestað í allt að tvö ár þar sem álitsbeiðandi stæði sjálfur í umfangsmiklum sumarhúsalóðum og breytingum á öðru húsnæði sem álitsbeiðandi sé nú fluttur í. Álitsbeiðandi segir að formaður gagnaðila sé að gefa í skyn að álitsbeiðandi vilji ekki taka þátt í framkvæmdunum vegna þess að hann vilji eyða peningunum í annað. Álitsbeiðandi segir þetta ekki rétt þar sem öll útgjöld sem hafi átt sér stað hafi verið fyrir fundinn þar sem lagt hafi verið til að steina allt húsið. Sumarlóðakaupin, sem hafi tafist í um hálft annað ár vegna lánamála hjá seljanda hafi verið framkvæmd stuttu eftir að ákvörðun hafi verið tekin á fundi gagnaðila í júlí um að láta gera við skyggni og lagfæra tröppur. Álitsbeiðandi hafi flutt í nýtt húsnæði með tilheyrandi kostnaði í lok júlí. Margt þurfti að gera í hinu nýja húsnæði sem leiddi til útgjalda fyrir álitsbeiðanda. Svo sé boðað til húsfundar í október þar sem skyndilega séu lögð fram tvö tilboð um að endursteina allt húsið en ekkert um lagfæringar á skyggni og tröppum. Síðan þá hafi álitsbeiðandi stöðvað allar framkvæmdir og stendur eftir með hálfklárað eldhús í hinu nýja húsnæði. Skyndilega breytt afstaða húsfélagsins hafi sett öll áform álitsbeiðanda í uppnám og tímasetning fyrirhugaðra framkvæmda mögulega orðið þess valdandi að setja álitsbeiðanda í greiðsluþrot. Álitsbeiðandi sé hins vegar viljugur til að samþykkja umræddar framkvæmdir þegar hann hafi fjárhagslega burði til þess.

Formaður húsfélagsins hafi margendurtekið að ¾ hlutar eigenda hafi samþykkt framkvæmdirnar. Hann hafi þó ekki tekið fram að eigandi 1. hæðar hafi sagt á októberfundinum að tímasetningin kæmi sér illa. Sjá megi af gögnum málsins að í kjölfar fundar í nóvember, sem sé eini fundurinn sem álitsbeiðandi hafi verið boðaður á og ekki verið viðstaddur, hafi eigendur 1. og 2. hæðar gengið frá samningi við verktaka án nokkurs samráðs við álitsbeiðanda. Ekki hafi verið boðaður fundur innan 14 daga líkt og mælt sé fyrir um í 42. gr. laga um fjöleignarhús og álitsbeiðandi ekki fengið neitt um framkvæmdirnar að segja. Fyrir liggi textaskilaboð þar sem álitsbeiðandi óski eftir að eigendur ræði saman í kjölfar fundarins og hins vegar tölvupóstur þar sem álitsbeiðandi óskar eftir því að vera látinn vita af því hvað aðrir eigendur leggi til. Hins vegar hafi ekki verið boðað til annars fundar og gengið hafi verið til samninga við verktaka án þess að álitsbeiðandi hafi nokkuð fengið að segja um málið.

Formaður gagnaðila hafi sagt að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn eða endurmat á tilboðunum sem honum hafi verið falið að gera. Á sama tíma hafi formaður gagnaðila lagt fram gögn sem sýna að hann hafi verið upplýstur um að álitsbeiðandi myndi ekki mæta á fundinn. Þau gögn sýni einnig að málið snúist frekar um tímasetningu framkvæmdarinnar en að tilboðunum sjálfum.

Í athugasemdum gagnaðila segir að umræddar framkvæmdir myndu í engum tilfellum rúmast innan A-liðar 1. mgr. 41. gr. laga um fjöleignarhús og telur gagnaðili fráleitt að halda því fram að samþykki allra eigenda þurfi í þessu tilfelli.

Ákvörðun um endurbætur hafi verið tekin á löglega boðuðum húsfundi þann 8. nóvember 2012 og verið studd atkvæðum nægilegs fjölda húseigenda bæði miðað við eignarhluta og eignarhlutfall. Andmælum álitsbeiðanda sem varði umræður á fyrri húsfundum sé vísað frá enda séu þau ekki studd neinum gögnum og hafi enga þýðingu í þessu máli.

Fullyrðingum álitsbeiðanda er varði afstöðu annarra húseiganda en hans sjálfs, og ekki séu studd neinum gögnum, svo sem fundargerðum eða bréfum, sé harðlega mótmælt. Álitsbeiðanda sé ekki fært að lýsa huglægri afstöðu annarra eigenda hússins.

Þeim skilningi álitsbeiðanda að boða hafi átt til framhaldsfundar eftir húsfundinn 8. nóvember sé hafnað enda hafi skilyrðum 1. mgr. 42. gr., sbr. 41. gr. laga um fjöleignarhús, verið mætt bæði hvað varði mætingu á fundinn og meirihluta fyrir ákvörðun.

Í viðbótarathugasemdum álitsbeiðanda fordæmir álitsbeiðandi framsetningu upplýsinga frá gagnaðila. Umræða um múrviðgerðir hafi farið fram á þremur fundum. Þetta hafi verið staðfest af báðum aðilum. Álitsbeiðandi telji að um sé að ræða framkvæmdir sem leiði til verulegra breytinga á sameign sem gjörbreytir útliti alls hússins. Þar sem ekki sé um nauðsynlegar viðgerðir að ræða heldur fyrst og fremst útlitsbreytingu telji álitsbeiðandi að ákvörðun um framkvæmdir sé ólögmæt nema að fengnu samþykki allra eigenda. Álitsbeiðandi ítrekar að ekki hafi verið boðað til framhaldsfundar eftir að ákvörðun hafi verið tekin á fundi þann 8. nóvember líkt og 42. gr. laga um fjöleignarhús mæli fyrir um.  

 

III. Forsendur

Allir hlutaðeigandi eigendur eiga óskoraðan rétt á að taka þátt í öllum ákvörðunum er varða sameignina, bæði innan húss og utan, sbr. 39. gr. laga nr. 26/1994. Sé ákvörðun tekin án samráðs við alla eigendur eða án þess að öllum sé gefinn kostur á að vera með í ákvarðanatöku, getur sá aðili, sem ekki var með í ákvarðanatökunni, krafist þess að framkvæmd verði stöðvuð og neitað að greiða hlutdeild í kostnaði vegna hennar, sbr. 2. mgr. 40. gr. laganna.

Í 41. gr. laga nr. 26/1994, um fjöleignarhús, er að finna reglur um töku ákvarðana. Meginreglan kemur fram í D-lið 41. gr., þ.e. að til allra annarra ákvarðana en greinir í liðum A–C þurfi samþykki einfalds meirihluta eigenda bæði miðað við fjölda og eignarhluta á húsfundi. Í 42. gr. laganna er að finna kröfur um fundarsókn. Húsfundur getur tekið ákvarðanir skv. C-, D- og E-liðum 41. gr. án tillits til fundarsóknar enda sé hann löglega boðaður og haldinn. Sé hins vegar um að ræða ákvarðanir sem falla undir B-lið 41. gr. þá verður a.m.k. helmingur eigenda bæði miðað við fjölda og eignarhluta að vera á fundi og tilskilinn meiri hluti þeirra að greiða atkvæði með tillögu.

Í málinu liggur fyrir fundargerð húsfundar frá 27. október 2012. Samkvæmt henni var álitsbeiðandi mættur á fundinn. Í fundargerðinni kemur fram að nokkur umræða hafi orðið um framkvæmdirnar, einkum hvort rétt væri að skipta þeim, þ.e. að fyrst yrði farið í nauðsynlegar viðgerðir en steinun hússins frestað. Samkvæmt mati verktakanna væru steypuskemmdir meiri en eigendur töldu og viðgerðir því umfangsmeiri en upphaflega hafi verið gengið út frá. Almennt hafi fundarmenn því verið sammála um að tilboð C væri aðgengilegra og var meðal annars ákveðið að óska eftir því að tilboðið myndi gilda til 9. nóvember. Ákveðið var að halda næsta fund 8. nóvember. Í málinu liggur fyrir tölvupóstur frá álitsbeiðanda frá 8. nóvember 2012 þar sem hann tilkynnir að hann muni ekki mæta á húsfundinn og tekur meðal annars fram að hann telji í ljósi afstöðu sinnar að aðrir eigendur ræði stöðuna sín á milli og láti hann vita hvað þeir leggi til.

Í málinu liggur fyrir fundargerð frá 8. nóvember 2012. Samkvæmt henni mættu allir eigendur hússins á fundinn nema álitsbeiðandi. Í fundargerðinni er tekið fram að aðalefni fundarins hafi verið tilboð C. Fyrir fundinum hafi legið bréf frá álitsbeiðanda þar sem hann leggst gegn því að farið verði í framkvæmdir á næsta vori. Niðurstaða fundarins hafi verið sú að ganga til samninga við C og kanna möguleika á skiptingu verksins eða seinkun þess og hvort slíkar breytingar hefði kostnaðarhækkun í för með sér. Þá kemur fram í fundargerðinni að tveir eigendur hafi hitt C mánudaginn 12. nóvember og hann hafi sagt að óhjákvæmilega yrði kostnaðarauki af því að skipta verkinu og gat ekki staðfest sambærilegt verð ef verkinu yrði frestað. Því hafi tilboðið verið samþykkt og reiknað með að verkið hæfist í febrúar. Með bréfi, dags. 26. nóvember 2012, var álitsbeiðanda tilkynnt að á framhaldsfundi húsfélagsins sem haldinn var 8. nóvember 2012 hefði verið ákveðið af meiri hluta eigenda, þ.e. kjallara, 1. og 2. hæðar, að fara í múrviðgerðir og steinun á húsinu á komandi vetri eins og til umræðu hafi verið á fyrri fundinum sem álitsbeiðandi setti sig á móti. Ákveðið hafi verið að taka lægra tilboðinu og búið væri að undirrita verksamning. Að öðru leyti var vísað til fundargerðar þess fundar.

Í málinu liggja ekki fyrir fundarboð húsfunda sem haldnir voru 27. október 2012 og 8. nóvember 2012. Hins vegar liggur fyrir að á húsfundi sem haldinn var 27. október 2012 sem álitsbeiðandi mætti á voru lögð fram tilboð í umræddar framkvæmdir og samþykkt að óska eftir því við C að tilboð hans myndi gilda til 9. nóvember 2012 en annar fundur yrði haldinn 8. nóvember 2012. Má því ljóst vera að til stóð að taka ákvörðun um tilboðið á þeim fundi. Kærunefnd telur ljóst að fundarboðun og ritun fundargerða sé að einhverju leyti ábótavant. Hins vegar er óumdeilt að á fundi 27. október 2012 var í raun boðað til nýs fundar 8. nóvember 2012. Þá er ljóst að samþykki annarra eigenda en álitsbeiðanda sem eiga meira en 2/3 hluta í húsinu bæði miðað við fjölda og eignarhluta eru samþykkir umræddum framkvæmdum.

Kærunefnd telur ljóst að umræddar framkvæmdir séu ekki þess eðlis að þær útheimti samþykki allra eigenda hússins. Hins vegar verður ekki af gögnum málsins ráðið hvort um sé að ræða framkvæmdir sem útheimti samþykki í samræmi við B- eða D- lið 41. gr., enda ekki þörf á því að taka afstöðu til þess álitaefnis enda nægi óumdeilanlega samþykki annarra eigenda hússins en álitsbeiðanda. Að öllu þessu virtu er það álit kærunefndar að lögmæt ákvörðun hafi verið tekin um múrviðgerðir og steiningu hússins.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að lögmæt ákvörðun hafi verið tekin um múrviðgerðir og steiningu hússins.

 

Reykjavík, 8. maí 2013

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
Karl Axelsson
Ásmundur Ásmundsson


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta