Hoppa yfir valmynd
15. mars 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ábyrgðarmenn námslána felldir brott

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra - mynd

Frumvarp um breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Frumvarpinu er ætlað að bregðast við annmörkum núverandi laga og byggir á skýrslu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra þar sem unnið var úr athugasemdum sem borist höfðu um Menntasjóðinn. Meðal þess sem lagt er til í frumvarpinu er að ábyrgðarmannakerfi námslána verði fellt úr gildi að fullu og að skilyrði fyrir námsstyrk verði rýmkuð.

Menntasjóði námsmanna var komið á fót árið 2020 og leysti hann Lánasjóð íslenskra námsmanna af hólmi. Með nýja sjóðnum eiga námsmenn möguleika á að hluta láns þeirra verði breytt í styrk ef þeir uppfylla svokallaða námsframvindukröfu. Þessi krafa hefur þótt ósveigjanleg og valdið óánægju hjá námsmönnum. Þar að auki þykir umsýslukostnaður Menntasjóðsins hár, en regluverk námslána kostar um 20% af öllum framlögum ríkisins til námsaðstoðar í gegnum sjóðinn.

Í lögum um Menntasjóð námsmanna er kveðið á um lögin skuli endurskoðuð innan þriggja ára frá því að þau komu til framkvæmda. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kynnti skýrslu um mat á endurskoðun á lögunum í desember 2023. Við gerð skýrslunnar var unnið úr athugasemdum sem borist höfðu frá hagaðilum, auk þess sem lögð var könnun fyrir stúdenta um viðhorf þeirra til stuðnings frá Menntasjóði. Jafnframt var óskað eftir áhættumati á nýju og eldra lánasafni námslána til að meta hvort markmið laganna um sjálfbærni sjóðanna hefði náð fram að ganga.

Ábyrgðarmannakerfið lagt niður að fullu

Kallað hefur verið eftir því að fella alfarið niður ábyrgðarmannakerfi námslána, sem bitnar verst á þeim sem höllustum fæti standa. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hefur haft til skoðunar ýmsar leiðir til að koma til móts við umrætt ákall, en í því sambandi þarf að horfa til eldri lána Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem voru með ábyrgðarmenn. Með gildandi lögum var ábyrgðamannakerfi fellt niður á þeim lánum sem voru í skilum við gildistöku laganna. Upphæð lána í skilum með sjálfsskuldarábyrgð ábyrgðarmanna nemur um 1,1 milljarði króna í dag. Á undanförnum árum hafa endurheimtur á lánum gagnvart ábyrgðarmönnum verið sáralitlar. Svo dæmi sé tekið voru þær 16 milljónir króna á árinu 2021.

Frumvarpið sem nú er í samráðsgátt stjórnvalda fellir alfarið niður ábyrgðarmannakerfi lána. Eftir breytinguna yrði ekki kallað eftir því að lánþegar afli ábyrgða hjá þriðja aðila og núverandi ábyrgðir samkvæmt eldri og gildandi lögum felldar niður. Skilyrði til lántöku verða útfærð þannig að sjóðurinn beri ekki skaða af brotthvarfi ábyrgðarmanna. Samkvæmt upplýsingum frá Menntasjóðnum eru svokallaðir „ótryggir“ lánþegar sárafáir og áhrifin af niðurfellingu ábyrgða vegna þeirra því lítil sem engin.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra segist vita til þess að niðurfelling ábyrgðarmannakerfisins að fullu muni skipta fólk máli. Dæmi eru um einstaklinga sem beri ábyrgð á námslánum fólks sem það er jafnvel í engum tengslum við. „Með breytingunni er verið að færa ábyrgðina þangað sem hún á heima. Það er bæði sanngjarnt og réttlætanlegt að klára þetta skref enda ættu námsmenn sjálfir að standa skil á greiðslu námslánanna sinna,“ segir Áslaug Arna.

Sveigjanleiki aukinn

Núverandi fyrirkomulag styrkveitinga hamlar námsmönnum að færa sig á milli námsbrauta því skilyrði fyrir styrkveitingu miðar við skipulag þeirrar námsbrautar sem er á endanum lokið. Þetta hefur mætt nokkurri gagnrýni, þar sem tiltölulega algengt er að námsmenn skipti um námsbraut að loknu fyrsta ári í námi.

Þá velja námsmenn í auknum mæli að stunda nám á ólíkum brautum og fræðasviðum, sem samræmist ekki kröfum núverandi laganna um styrkveitingar. Frumvarpi þessu er ætlað að mæta þessari gagnrýni með rýmkun á skilyrðum fyrir styrkveitingum.

Frumvarpið kveður á um að námsmenn geti áunnið sér styrk vegna eininga af tveimur námsleiðum í stað einnar áður. Nemendur sem hefja nám í einni grein geti þannig skipt yfir í annað nám en notið réttinda til námsstyrks í fyrra náminu samhliða nýja náminu. Svo dæmi sé tekið getur nemandi sem lokið hefur fyrsta ári í lyfjafræði ákveðið að hefja nám í hjúkrunarfræði. Með því að ljúka því námi í samræmi við skipulag námsins, auk fyrsta ársins í lyfjafræðinni, nær 30% niðurfellingin bæði til lyfjafræði- og hjúkrunarfræðinámsins.  Þessi réttur gildir aðeins einu sinni á þeim tíma sem lánþegi þiggur lán hjá Menntasjóðnum.

Frumvarpinu er ætlað að bregðast við helstu annmörkum núverandi laga sem fram hafa komið á síðustu árum. Áætlað er að heildarendurskoðun fari fram síðar á árinu, að teknu tilliti til þeirra athugasemda sem fram hafa komið í mati á endurskoðun laga um Menntasjóð. Nánari upplýsingar um frumvarpið má finna í samráðsgátt stjórnvalda.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta