Hoppa yfir valmynd
20. júní 2022 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 86/2022 Úrskurður 20. júní 2022

Mál nr. 86/2022                    Millinafn:       Worms

                                              

 

 

Hinn 20. júní 2022 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 86/2022 en erindið barst nefndinni 7. júní.

Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt millinafn þurfa öll skilyrði 6. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn, að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:

  • millinafn skal dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa áunnið sér hefð í íslensku máli en má þó ekki hafa nefnifallsendingu.
  • ·nöfn sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna, eru ekki heimil sem millinöfn.
  • millinafn skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
  • millinafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama

Auk þess má nafnið ekki vera ættarnafn í skilningi 7. gr. mannanafnalaga.

Millinafnið Worms telst ekki dregið af íslenskum orðstofni og uppfyllir þess vegna ekki skilyrði 2. mgr. 6. gr. laga um millinöfn. Aftur á móti er kveðið á um í 3. mgr. 6. gr. laganna, um að „millinafn, sem víkur frá ákvæðum 2. mgr., er heimilt þegar svo stendur á að eitthvert alsystkini þess sem á að bera nafnið, foreldri, afi eða amma ber eða hefur borið nafnið sem eiginnafn eða millinafn.“

Samkvæmt orðanna hljóðan telur ákvæði þetta upp með tæmandi hætti hvaða nöfn koma til greina á þessum lagagrundvelli. Þrátt fyrir ótvíræðan skýrleika lagaákvæðisins þarf túlkun mannanafnanefndar á efnislegu inntaki þess að taka mið af fyrirliggjandi dómafordæmum um beitingu einstakra ákvæða mannanafnalaga, þ.m.t. með tilliti til þess hvort einstök ákvæði laganna samrýmast grundvallarreglum um friðhelgi einkalífs, sbr. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, eins og því ákvæði var breytt með 9. gr. stjórnarskipunarlaga, nr. 97/1995, sem og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög, nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu.

Við úrlausn þessa máls þarf því óhjákvæmilega að líta til óáfrýjaðs dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 24. apríl 2015 í máli nr. E-3607/2014 (millinafnið Gests) en þar var talið að eins og atvikum máls væri háttað, ætti að horfa framhjá texta 3. mgr. 6. gr. mannanafnalaga þar eð ákvæðið bryti í bága við áðurnefnd ákvæði um friðhelgi einkalífs í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.

Af þessu leiðir að mannanafnanefnd þarf í sínum störfum að beita sömu túlkunarreglum og dómstólar gera en líta verður svo á að þegar íslenska ríkið áfrýi ekki niðurstöðum héraðsdóms í málum af þessu tagi þá sé beiting lagareglna í óáfrýjuðum héraðsdómum sú sem nefndinni ber að fara eftir.

Langafi umsækjanda bar nafnið Worm og amma hennar var Wormsdóttir. Þá hafa skyldmenni hennar borið nafnið og hún kveðst hafa verið skírð nafninu í votta viðurvist en það ekki skilað sér í skráningu til Þjóðskrár. Mannanafnanefnd telur að skýra beri 3. mgr. 6. gr. laganna rúmri túlkun með vísan til grundvallarreglna um friðhelgi einkalífs og að heimila beri umsækjanda að bera millinafnið Worms þegar af þeirri ástæðu að langafi hennar bar nafnið. Um frekari rökstuðning má einnig benda á úrskurði nefndarinnar í málum nr. 67/2016 (Veigu) 96/2016 (Vídó), 16/2017 (Nínon), 29/2017 (Gasta), 28/2019 (Jette) og 35/2020 (Haveland) þar sem umsækjendur töldust hafa sýnt fram á með fullnægjandi hætti að þeir hefðu mikilvæga persónulega hagsmuni af því að nota viðkomandi millinöfn og fengu samþykkt sem sérstök millinöfn í hverju tilviki fyrir sig.

 

Úrskurðarorð:

 

Á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn er fallist á beiðni XXX um að nota millinafnið Worms. Nafnið skal hins vegar ekki fært á mannanafnaskrá.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta