8. - 14. sept. 2001
Fréttapistill vikunnar Hvatt til aðgerða gegn fátækt í Evrópu 51. ársfundur evrópuskrifstofu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar hvetur til samvinnu á sviði heilbrigðismála í álfunni og hvetur til aðgerða til að vinna að jafnrétti í heilbrigðismálum. Gro Harlem Brundtland, framkvæmdastjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, lagði á ársfundinum áherslu á að segja yrði þeim systrum fátækt og veikindum stríða á hendur í Evrópu. "Bilið milli þeirra sem eiga og þeirra sem allslausir eru er hvergi eins mikið og einmitt í Evrópu. Verkefni aðildarlandanna er að brúa þetta bil," sagði Brundtland á Madrídfundinum þar sem saman voru komnir 300 fulltrúar frá 48 Evrópulöndum. Fundurinn var dagana 10. til 13. september. Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, ávarpaði ársfundinn og lagði í máli sínu áherslu á mikilvægi Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar fyrir Ísland og dró fram nokkra þá þætti í starfi samtakanna sem gagnast hafa Íslendingum. MEIRA... Ráðherra vottar samúð Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, ritaði nafn sitt í minningabók í bandaríska sendiráðinu í dag í samúðarskyni við þá sem eiga um sárt að binda vegna hermdarverkanna i New York og Washington í Bandaríkjunum. Nýr framkvæmdastjóri Sjúkrahússapóteksins Valgerður Bjarnadóttir hefur verið ráðin í stöðu framkvæmdastjóra Sjúkrahússapóteksins og hefur störf 1. nóvember. Valgerður útskrifaðist úr Viðskiptafræðideild H.Í. árið 1975. Hún var forstöðumaður hagdeildar Flugleiða 1981 til 1985, hún starfaði hjá Association of European Airlines frá 1986 til 1991 og síðan sem sjálfstæður ráðgjafi í Brussel til 1993. Frá þeim tíma hefur hún verið skrifstofustjóri á skrifstofu EFTA í Brussel. Apótek Landspítalans voru tvö árið 2000, staðsett í Fossvogi og við Hringbraut, og seldu samanlagt lyf fyrir tæpar 833 milljónir króna. Undir lok ársins 2000 var ákveðið að sameina lyfjaverslanirnar í Sjúkrahúsapótekið efh. Nýtt apótek er hlutafélag í eigu Landspítala - háskólasjúkrahúss og eru starfsmenn þess um 50 talsins. Ráðning annarra stjórnenda samkvæmt nýju skipuriti Sjúkrahúsapóteksins verður gerð í framhaldi af því að nýr framkvæmdastjóri tekur til starfa. Ráðherra heimsækir Lyfjastofnun Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, heimsótti í dag Lyfjastofnun í fylgd embættismanna fjármálaskrifstofu heilbrigðis-og tryggingmálaráðuneytisins. Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, tók á móti ráðherra og kynnti fyrir honum starfsemi stofnunarinnar og það sem efst er á baugi í starfsemi hennar. Starfshópi falið að gera tillögur um eflingu heilsugæslunnar í landinu Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað starfshóp og falið honum að gera tillögur um hvernig efla megi heilsugæsluna í landinu. Þetta kom fram í ávarpi ráðherra sem flutt var á ráðstefnunni Framtíðarsýn innan heilsugæsluhjúkrunar: hvert ætlum við að stefna og haldin var í gær, 14. september. Starfshópnum er ætlað að leggja sérstaka áherslu á eftirfarandi þætti: Að bæta stöðu heilsugæslunnar sem frumþjónustu í heilbrigðisþjónustu - efla starf heilsugæslunnar að heilsuvernd og forvörnum - stuðla að fjölgun heimilislækna og tryggja góða mönnun fagfólks í heilsugæslu - auðvelda aðgengi og tryggja bætta þjónustu heilsugæslunnar í Reykjavík og nágrannabyggðum - tryggja öflunga þjónustu heilsugæslunnar á landsbyggðinni. Hátt á þriðja hundrað manns á ráðstefnu um framtíðarsýn innan heilsugæsluhjúkrunar Rannsóknarstofnun í hjúkrunarfræði og heilsugæslunnar í Reykjavík hélt í gær, 13. september, ráðstefnu undir yfirskriftinni Framtíðarsýn innan heilsugæslunnar - hvert ætlum við að stefna. Hátt á þriðja hundrað manns sóttu ráðstefnuna og fylgdust með fjölbreyttri dagskrá. Meðal umfjöllunarefna tengdri framtíðarsýn í heilsugæslu voru geðheilbrigðismál, framtíðarstefna innan skólahjúkrunar, fjölskyldur langveikra barna, heilsubæir og heilsuefling, nýjungar í hjúkrunarmeðferð við langvinn veikinda einstaklinga og fjölskyldna, umönnun aldraðra, fræðsla og þróun þjónustu varðandi ung- og smábarnavernd o.m.fl. Ráðstefnan var tileinkuð minningu Dr. Guðrúnar Marteinsdóttur, en Guðrún lauk BS prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1977 og MS prófi frá háskólanum í Boston í Bandaríkjunum árið 1980 með áherslu á heilsugæslu. Hún var að ljúka doktorsnámi við háskólann á Rhode Island í Bandaríkjunum þegar hún lést árið 1994. Guðrún kenndi við námsbraut í hjúkrunarfræði frá 1980 og til dauðadags og markaði mikilsverð spor í þróun hjúkrunarmenntunar og hjúkrunarfræði. Mál barnsins - okkar mál Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, setti í morgun, 11. september, námskeið á vegum Talþjálfunar Reykjavíkur sem ber yfirskriftina Mál barnsins - okkar mál. Námskeiðið er ætlað fagfólki og foreldrum og er þar fjallað um talröskun frá mörgum hliðum. Um 40 talmeinafræðingar eru í Félagi talkennara og talmeinafræðinga. Í ávarpi sem ráðherra flutti við setningu námskeiðsins kom fram að nú er í undirbúningi lagasetning um málefni þeirra sem eiga við talmein, heyrnarskort eða heyrnarleysi að glíma. Frumvarpsdrög liggja fyrir og er verið að leita umsagna við þau. Sagði ráðherra að hann hyggðist leggja frumvarpið fram á Alþingi nú á haustþingi og að hann vænti þess að samstaða yrði um að afgreiða það sem fyrst. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir víðtæku samstarfi þeirra fjölmörgu sem að þessum málum koma. Ávarp ráðherra... LSH - nefnd stofnuð til að fjalla um stöðu og framtíð ferliverka á sjúkrahúsinu Framkvæmdastjórn Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur sett á laggirnar nefnd til að fjalla um stöðu og framtíð ferliverka í starfsemi spítalans. Tildrög þess eru meðal annars skýrsla Ríkisendurskoðunar í júní 2001 um ferliverk á sjúkrahúsum 1990-2000, viðræður við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið um ferliverk, mismunandi tilhögun á ferliverkum milli Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítala og óskir fjölda lækna um að mörkuð verði stefna um tilhögun ferliverka í starfi Landspítala - háskólasjúkrahúss. Nefndinni er ætlað að gera framkvæmdastjórn grein fyrir meginatriðum athugunar sinnar og mótuðum tillögum um tilhögun þessara mála í lok nóvember 2001. MEIRA... 35 milljónum danskra króna varið til velferðaráætlunar Norrænu ráðherranefndarinnar Er til samnorrænt líkan á sviði velferðarmála, hvernig er það og hverju þarf að breyta? Þetta er meðal spurninga sem leitað verður svara við með velferðaráætlun Norrænu ráðherranefndarinnar sem verið er að hrinda í framkvæmd. Reynt verður að kortleggja fyrirkomulag velferðarmála á Norðurlöndunum svo unnt sé að bera það við evrópsk iðnríki. Mikilvægt þykir að fá svör við því hvernig norræna líkanið verður best lagað að nútímanum, breyttum efnahagslegum og félagslegum forsendum, og hvernig megi styrkja velferðarkerfið á öllum sviðum. Ráðgert er að verja 35 milljónum danskra króna til velferðaráætlunar Norrænu ráðherranefndarinnar. Ráðherraráðið á sviði félags- og heilbrigðismála ber ábyrgð á áætluninni. Blóðbankinn reiðubúinn að senda blóð til Bandaríkjanna Blóðbankinn hefur tilkynnt utanríkisráðuneytinu að unnt sé að senda blóð til Bandaríkjanna verði þess óskað. Í kjölfar hörmunganna þar safna Bandaríkjamenn nú blóði um allt land og búist er við að þeir leiti liðveislu annarra þjóða. Að sögn Sveins Guðmundssonar, forstöðulæknis blóðbankans er hugmyndin sú að bjóða fram 300 einingar af varabirgðum og verði það þegið sé einnig fyrirhugað átak til að safna um 600 einingum á tveimur til þremur dögum. Helming þess mætti einnig senda til Bandaríkjanna en hinn hlutinn yrði áfram varabirgðir hér. Dreifibréf ráðuneytisins um lyfsöluleyfisveitingar Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisið hefur sent frá sér dreifibréf þar sem veittar eru upplýsingar og leiðbeiningar um lyfsöluleyfisveitingar, s.s. hvaða gögn þurfa að liggja fyrir við stofnun nýrrar lyfjabúðar og um eigendaskipti lyfjabúðar. Af gefnu tilefni og í ljósi tíðra breytinga á handhöfum lyfsölueyfa starfandi lyfjabúða vill ráðuneytið ítreka að lyfsöluleyfishafi ber ábyrgð á að skipulag nýrrar lyfjabúðar eða breytingar á eldri lyfjabúðum. Dreifibréfið er aðgengilegt hér sem pdf. skjal. SKOÐA DREIFIBRÉF...
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
14. september 2001 |