15. - 21. sept. 2001
Lyfjakostnaður eykst stöðugt og stefnir í 25% aukningu á þessu ári Lyfsala ársins 2000 nam 10,4 milljörðum króna en stefnir í 13 milljarða króna á þessu ári sem er 25% aukning. Þetta kemur fram í nýjum upplýsingum frá skrifstofu lyfjamála hjá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Fjárhæðir eru reiknaðar út frá hámarksverði úr apóteki með virðisaukaskatti samkvæmt lyfjaverðskrá. Sem fyrr eykst kostnaður vegna tauga- og geðlyfja mest og er reiknað með að kostnaður vegna þeirra aukist um 700 m.kr. á þessu ári, sem nemur 25 prósentum. Næst koma hjarta- og æðasjúkdómalyf en kostnaður vegna þeirra eykst um 370 m.kr. (29%) og í þriðja sæti eru æxlishemjandi lyf þar sem kostnaður eykst um 370 m.kr. (80%). Lyfjanotkun eykst stöðugt og er áætlað að hún verði fimm prósentum meiri í ár en í fyrra, en það er svipuð aukning milli ára og verið hefur undanfarin fjögur til fimm ár. Sjá súlurit:lyf-1989-2001 (pdf.skjal) Þjóðverjar leita til Íslands í tengslum við undirbúning þýskrar löggjafar um verndun erfðafræðiupplýsinga Hópur þýskra þingmanna heimsótti heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið í dag (föstudag) til að kynna sér ýmsa þætti er lúta að rannsóknum á heilbrigðissviði hér á landi. Þingmennirnir sitja í nefnd sem falið hefur verið að afla upplýsinga og veita þýska þinginu ráðgjöf í tengslum við undirbúning löggjafar um verndun erfðafræðiupplýsinga. Í heilbrigðisráðuneytinu var þeim kynnt íslensk löggjöf á þessu sviði, s.s. lög um réttindi sjúklinga, reglugerð um vísindarannsóknir, lög um lífsýnabanka, lög um tæknifrjóvgun og lög um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Þýsku þingmennirnir sýndu mikinn áhuga á þeirri vinnu sem unnin hefur verið hér á landi á sviði löggjafar varðandi vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. Tilboði í 3. áfanga Barnaspítalans tekið með bókunum Byggingarnefnd Barnaspítala Hringsins hefur tekið tilboði fyrirtækisins Ólafs og Gunnars ehf. í þriðja verkáfanga barnaspítalans. Samþykkt byggingarnefndar fylgdu bókanir, m.a. ósk um að nefndinni sé gerð reglubundin grein fyrir gangi framkvæmda og að Framkvæmdasýsla ríkisins (FSR) haldi uppi öflugu eftirliti. Einnig segir í bókun að byggingarverktakanum hafi verið kynnt mikilvægi þess að verkáætlunin standist vegna áætlana Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH) um sameiningu sjúkradeilda og sérgreina sem séu háðar því að byggingunni sé skilað á réttum tíma. Verktakanum hafi verið gerð grein fyrir því mikla tjóni sem LSH verði fyrir ef skil dragast. Á fundi forsvarsmanna verktakafyrirtækisins með fulltrúum FSR og LSH þann 12. september lýsti verktakinn því yfir að hann setji Barnaspítalann í forgang. Samkvæmt tilboði fyrirtækisins kostar verkið 595 milljónir króna sem nemur 83,1 prósenti af kostnaðaráætlun. MEIRA... Breytt fyrirkomulag barnabólusetninga Þann 1. júlí sl. voru gerðar nokkrar breytingar á bólusetningum barna á Íslandi. Bólusetning með þrígildu bóluefni gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum sem áður var gefið börnum við átján mánaða og níu ára aldur, verður framvegis gefin við átján mánaða og tólf ára aldur. Þau börn sem fengið hafa seinni bólusetninguna níu ára gömul þurfa hins vegar ekki að fá hana endurtekna við tólf ára aldur. Þá hefur kerfisbundnum mótefnamælingum gegn rauðum hunduð hjá tólf ára stúlkum verið hætt. NÁNAR Á VEF LANDLÆKNIS... Málþing um jafnrétti í samstarfi foreldra við fæðingu barns Þriðji hluti málþings Jafnréttisstofu um jafnrétti í samstarfi foreldra við fæðingu barns var haldið í Stykkishólmi í dag. Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra setti þingið. Meðal umfjöllunarefna á þinginu voru nýlega samþykkt lög um fæðingar- og foreldraorlof, en með samþykkt þeirra fluttist löggjöf á þessu sviði frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu til félagsmálaráðuneytisins.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
21. september, 2001 |