Ísland í efsta sæti alþjóðlegrar lífeyrisvísitölu
Íslenska lífeyriskerfið er í fyrsta sæti samkvæmt alþjóðlegri lífeyrisvístölu Mercer - CFA Institute. Lífeyrisvísitalan er gefin út árlega og byggist á heildareinkunn út frá ýmsum þáttum lífeyriskerfsins. Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í mælingunni, en alls tóku 43 lönd í öllum heimsálfum þátt í samanburðinum. Fast á hæla Íslands voru lífeyriskerfi Hollands og Danmerkur.
Í vísitölunni er litið til þriggja grunnþátta – nægjanleika kerfis, sjálfbærni og trausts og hlaut Ísland hæstu einkunn í tveimur þeirra, nægjanleika kerfis og sjálfbærni þess, en mældist sjöunda hæst þegar kemur að trausti til kerfisins.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:
„Þetta er ánægjuleg niðurstaða og til marks um það hve sterkt lífeyriskerfi okkur hefur tekist að byggja upp hér á landi. Áfram blasa þó við okkur ýmsar áskoranir, m.a. samhliða öldrun þjóðarinnar, sem við þurfum að takast á við á komandi árum til að vera áfram í fremstu röð.“
Hér má sjá grunnþættina þrjá sem mynda vísitöluna, í hverju þeir felast og hvernig þeir vega hlutfallslega inn í heildarmatið:
Við mat á þáttunum fæst heildareinkunn um stöðu lífeyriskerfis hvers lands fyrir sig og löndunum skipað í A til E flokk eftir einkunnagjöf. Flokkur A er skilgreindur sem fyrsta flokks lífeyriskerfi með góðan lífeyri, sjálfbærni til langs tíma sem nýtur trausts á meðan flokkur E er skilgreindur sem mjög ófullkomið lífeyriskerfi á fyrstu stigum þróunar eða ekkert lífeyriskerfi yfir höfuð. Í ár eru þrjú lönd í A flokki: Ísland, Holland og Danmörk. Ísland hlaut samanlagt 84,2 stig (e. overall index value), Holland 83,5 stig og Danmörk 82 stig.
Í niðurstöðum eru eftirtalin þrjú atriði talin getað hækkað lífeyrisvísitölu Íslands enn frekar:
- að lækka skuldir heimila sem hlutfall af vergri landsframleiðslu
- að hækka lífeyrisaldur eftir því sem lífslíkur halda áfram að aukast
- að lækka skuldir ríkisins sem hlutfall af vergri landsframleiðslu
Þá er í skýrslu Mercer að finna sérstakan kafla um kynjamun í lífeyriskerfum og er Ísland í fjórða sæti í þeim samanburði með um 13,2% mun á milli kynja.
Mercer-CFA Institute er ráðgjafafyrirtæki sem stendur fyrir árlegri útgáfu á alþjóðlegri vísitölu fyrir lífeyriskerfi. Um er að ræða staðlaðan samanburð á lífeyriskerfum mismunandi landa þar sem gefin er heildareinkunn út frá fjölmörgum þáttum. Greining byggir bæði á alþjóðlegum gögnum sem og innlendum.
Þeir aðilar sem standa að samningi við Mercer-CFA Insitute fyrir Íslands hönd eru Landssamtök lífeyrissjóða, fjármála- og efnahagsráðuneytið og Seðlabanki Íslands. Samtökin koma fram sem formlegur aðili að samningnum og annast skil á innlendum gögnum.Samningurinn er til þriggja ára.