Hoppa yfir valmynd
3. janúar 2025 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 1/2025 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 3. janúar 2025 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 1/2025

í stjórnsýslumáli nr. KNU24100193

 

Endurteknar umsóknir [...] og barns hennar

  1. Málsatvik

    Með úrskurði nr. 170/2024, dags. 7. mars 2024, staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 26. september 2023, um að taka umsóknir [...], fd. [...], ríkisborgara Nígeríu (hér eftir kærandi), og barns hennar [...], fd. [...], ríkisborgara Nígeríu (hér eftir A), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa þeim frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda sama dag.

    Hinn 13. mars 2024 lagði kærandi fram beiðni um frestun á framkvæmd, sbr. lokamálslið 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Með úrskurði kærunefndar nr. 316/2024, dags. 4. apríl 2024, var kröfu kæranda hafnað. Kærandi lagði fram frestun á framkvæmd að nýju 8. apríl 2024. Þá bárust kærunefnd endurteknar umsóknir kæranda og barns hennar 11. apríl 2024. Með úrskurði kærunefndar nr. 541/2024, dags. 13. júní 2024, var endurteknum umsóknum kæranda og barns hennar vísað frá auk þess sem beiðni hennar um frestun réttaráhrifa var hafnað. Kærandi lagði fram endurteknar umsóknir að nýju 29. október 2024. Upplýsingar um málsmeðferð í máli kæranda bárust frá Útlendingastofnun, heimferða- og fylgdadeild Ríkislögreglustjóra og Vinnumálastofnun 30. og 31. október 2024. Þá bárust frekari upplýsingar frá Útlendingastofnun 20. desember 2024.

    Af beiðni kæranda um endurteknar umsóknir má ráða að þær byggi á 35. gr. a laga um útlendinga nr. 80/2016.

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Í beiðni kæranda um endurteknar umsóknir kemur m.a. fram að hún telji að aðstæður sínar hafi breyst verulega. Kærandi vísar til þess að hún hafi misst barn hér á landi auk þess sem A sé í skóla og taki virkan þátt í íþróttastarfi þrisvar í viku. Kærandi telji að endursending þeirra myndi valda A tilfinningalegu álagi og erfiðleikum. Kærandi telji að endursending til heimaríkis myndi stofna öryggi hennar og A í hættu þar sem þar í landi séu einstaklingar sem gætu skaðað hana.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga skal endurtekinni umsókn vísað frá. Þó skal taka endurtekna umsókn til meðferðar að nýju ef umsækjandi er staddur hér á landi og nýjar upplýsingar liggja fyrir í máli hans sem leiða til þess að sýnilega auknar líkur séu á því að fallist verði á fyrri umsókn hans samkvæmt 24. gr. laganna.

Samkvæmt upplýsingum sem bárust frá Útlendingastofnun 31. október 2024 eru kærandi og A stödd hér á landi og er því fyrra skilyrði 1. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga uppfyllt.

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland Dyflinnarreglugerðina, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Hinn 3. júlí 2023 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hennar um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda á Ítalíu, sbr. 1. mgr. eða 3. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í svari frá ítölskum yfirvöldum, dags. 24. ágúst 2024, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli 1. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi var með gilt dvalarleyfi þar í landi.

Við rekstur máls sem fer samkvæmt fyrirkomulagi Dyflinnarreglugerðarinnar þurfa stjórnvöld að gæta að tilteknum tímafrestum, sbr. m.a. 1. og 2. mgr. 29. gr. reglugerðarinnar sem fjallar um fyrirkomulag og fresti. Í því ákvæði felst m.a. að flutningur á umsækjanda skal fara fram innan sex mánaða frá því að lokaákvörðun var tekin um kæru eða endurskoðun. Þó er heimilt í undantekningartilvikum að framlengja frest til flutnings í að hámarki 18 mánuði ef hlutaðeigandi einstaklingur hleypst á brott (e. abscond). Ef umræddir frestir líða leiðir það til þess að ábyrgð á viðkomandi umsókn um alþjóðlega vernd færist sjálfkrafa yfir til þess aðildarríkis sem leggur fram beiðni, sbr. til hliðsjónar dómur Evrópudómstólsins í máli Shiri, C-201/16, frá 25. október 2017 (26.-34. mgr. dómsins). Ef frestir samkvæmt 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar líða er íslenskum stjórnvöldum því ekki lengur heimilt að krefja viðkomandi ríki um viðtöku einstaklings í skilningi c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í úrskurði kærunefndar í máli nr. 237/2019 ákvað kærunefnd að þegar mál hefur verið kært til kærunefndar og réttaráhrifum frestað yrði upphafstími þessa frests miðaður við dagsetningu birtingar úrskurðar kærunefndar. Eins og að framan greinir samþykktu ítölsk stjórnvöld endurviðtökubeiðni íslenskra stjórnvalda 24. ágúst 2023. Þá var endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi birt fyrir kæranda 7. mars 2024. Rann því upphaflegur sex mánaða frestur til þess að flytja kæranda úr landi út 7. september 2024.

Hinn 17. desember 2024 óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun í tengslum við áætlaðan flutning kæranda og A til Ítalíu, þ. á m. um hvort 6 mánaða frestur til flutnings hafi verið framlengdur. Í svari Útlendingastofnunar, dags. 20. desember 2024, kemur fram að stofnunin hafi ekki tilkynnt um frestun á flutningi, samkvæmt 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Samkvæmt framangreindu er frestur til að flytja kæranda til viðtökuríkis liðinn samkvæmt 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Af því leiðir að ábyrgð á umsóknum kæranda og A um alþjóðlega vernd fluttist yfir á íslensk stjórnvöld þegar umræddur frestur leið og því er ekki lengur hægt að krefja viðtökuríkið um að taka við þeim á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Í ljósi alls framangreinds, samfelldrar dvalar kæranda og A hér á landi síðan þau lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd og þeirrar staðreyndar að þau séu stödd á landinu, er það mat kærunefndar að nýjar upplýsingar liggi fyrir í máli þeirra sem leiði til þess að sýnilega auknar líkur séu á því að fallist verði á fyrri umsóknir þeirra samkvæmt 24. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga. Er það því niðurstaða kærunefndar að fella ákvarðanir Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir kæranda og A um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Endurteknar umsóknir kæranda og barns hennar eru teknar til meðferðar.

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi og lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda og barns hennar til efnismeðferðar.

 

The appellant‘s subsequent applications shall be examined.

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate shall examine the merits of the appellant‘s and her child‘s applications for international protection in Iceland.

 

F.h. kærunefndar útlendingamála,

 

Valgerður María Sigurðardóttir, varaformaður.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta