Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2001 Forsætisráðuneytið

A-112/2001 Úrskurður frá 25. janúar 2001

ÚRSKURÐUR



Hinn 25. janúar 2001 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-112/2001:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 5. janúar sl., kærði […] hrl., f.h. [A], synjun ríkissaksóknara um að veita umbjóðanda hennar aðgang að tveimur bréfum til hans. Annars vegar að bréfi frá dr. [B], sálfræðingi, dagsettu 25. nóvember 1999, og hins vegar að bréfi frá dr. [C], sálfræðingi, dagsettu 10. desember 1999.

Með bréfi, dagsettu 11. janúar sl., var kæran kynnt ríkissaksóknara og honum veittur frestur til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 22. janúar sl. Í ljósi svarbréfa hans til kæranda, dagsettra 19. desember og 3. janúar sl., var þess sérstaklega óskað að í umsögn um kæruna kæmu fram viðhorf til þess, á hvaða lagagrundvelli bæri að leysa úr beiðni kæranda. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit af þeim gögnum, sem kæran laut að, innan sama frests. Umsögn ríkissaksóknara, dagsett 22. janúar sl., barst innan tilskilins frests ásamt umbeðnum gögnum.

Varamennirnir Arnfríður Einarsdóttir og Ólafur E. Friðriksson tóku sæti Valtýs Sigurðssonar og Elínar Hirst við meðferð og úrskurð í kærumáli þessu.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að við meðferð sakamáls í héraði var sálfræðingunum, dr. [B] og dr. [C], falið sem sérfræðingum að rannsaka kæranda sem brotaþola, m.a. með tilliti til þroska hennar og heilbrigðisástands. Skiluðu sálfræðingarnir skýrslum sem lagðar voru fram í málinu. Þegar málið var til meðferðar fyrir Hæstarétti lagði verjandi ákærða fram sérfræðiálit, sem hann hafði aflað, frá [D], lækni og sérfræðingi í taugalækningum, [E], geðlækni, og dr. [F], sálfræðingi, þar sem fjallað er um persónu og heilsufar brotaþola, þ.e. kæranda, með hliðsjón af skýrslum sálfræðinganna tveggja og framburði þeirra fyrir héraðsdómi. Eftir að dómur var kveðinn upp í Hæstarétti 28. október 1999 fékk kærandi aðgang að framangreindum gögnum á grundvelli 14. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 163. laga nr. 19/1991.

Með bréfi, dagsettu 3. nóvember 1999, leitaði ríkissaksóknari eftir athugasemdum dr. [C] við bréf verjandans til dr. [F], dagsett 18. ágúst 1999, bréf hennar til verjandans, dagsett 24. ágúst 1999, ásamt fylgiskjölum, svo og við bréf [D], dagsett 29. ágúst 1999. Með bréfi, dagsettu 8. nóvember 1999, leitaði ríkissaksóknari jafnframt eftir athugasemdum dr. [B] við álitsgerð [E], geðlæknis. Athugasemdir dr. [B] bárust ríkissaksóknara með bréfi, dagsettu 25. nóvember 1999, og athugasemdir dr. [C] með bréfi, dagsettu 10. desember 1999.

Umboðsmaður kæranda fór í upphafi fram á að fá aðgang að síðastgreindum bréfum sálfræðinganna tveggja með vísun til 3. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 48. gr. laga nr. 36/1999, svo fram kemur í bréfi til ríkissaksóknara, dagsettu 8. desember sl. Ríkissaksóknari synjaði þessari beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 19. desember sl., á þeim grundvelli að bréfin, sem hefðu að geyma athugasemdir sálfræðinganna, hefðu ekki verið gögn í hæstaréttarmálinu. Í ljósi þessarar niðurstöðu leitaði umboðsmaður kæranda á ný eftir aðgangi að sömu gögnum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. bréf, dagsett 22. desember sl. Með bréfi ríkissaksóknara, dagsettu 3. janúar sl., var kæranda enn synjað um aðgang að gögnunum, að þessu sinni með vísun til þess að þeim mætti jafna til gagna, sem undanþegin væru aðgangi skv. 1. tölul. 2. mgr. 9. gr. upplýsingalaga, sbr. 2. tölul. 4. gr. laganna. Jafnframt væri í bréfum sálfræðinganna að finna athugasemdir þeirra við trúnaðargögn sem afhent hefðu verið með því skilyrði að um þau yrði ekki fjallað á opinberum vettvangi.

Í kæru til nefndarinnar er á því byggt að kærandi teljist aðili í skilningi 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga þar eð umbeðin gögn varði hana persónulega. Þá kemur fram að landlæknir hafi til meðferðar kæru hennar á hendur [E], geðlækni. Væntir kærandi þess að umbeðin gögn geti m.a. varpað ljósi á réttmæti athugasemda geðlæknisins við álit sálfræðinganna tveggja í fyrrgreindu dómsmáli, m.a. um persónu og trúverðugleika kæranda.

Í umsögn ríkissaksóknara eru áréttuð þau sjónarmið sem hann hafði áður fært fyrir synjun sinni. Í henni kemur ennfremur fram að ríkissaksóknari hafi ekki óskað eftir athugasemdum sálfræðinganna tveggja eða þær verið gerðar í þeim tilgangi að þær yrðu lagðar fram í dómsmáli, heldur einungis til upplýsingar og fróðleiks í framhaldi af dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 28. október 1999.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.


Niðurstaða

1.

Með 2. gr. laga nr. 76/1997 voru skýrslur sálfræðinga og félagsráðgjafa felldar undir þágildandi lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, nr. 121/1989, og þar með teknar undan gildissviði upplýsingalaga, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Hinn 1. janúar sl. tóku gildi lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sem felldu úr gildi lög nr. 121/1989, þ. á m. umrætt sérákvæði um skýrslur sálfræðinga og félagsráðgjafa. Þær skýrslur falla því að nýju undir gildissvið upplýsingalaga, eftir því sem við getur átt.

Enginn vafi leikur á því að þau lög taka til ríkissaksóknara og embættis hans, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Hins vegar gilda lögin ekki um "rannsókn eða saksókn í opinberu máli", eins og tekið er fram í niðurlagi 1. mgr. 2. gr. þeirra.

Af hálfu ríkissaksóknara hefur því verið lýst yfir, eins og fram kemur í kaflanum um málsatvik hér að framan, að bréf þau, sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að, hafi hvorki verið lögð fram í dómsmáli né þeirra verið aflað í því skyni. Af því verður dregin sú ályktun að bréfin tengist ekki rannsókn á ætlaðri refsiverðri háttsemi eða saksókn vegna hennar. Þar af leiðandi ber að beita ákvæðum upplýsingalaga við úrlausn þessa máls, enda var bréfanna ekki aflað í tengslum við stjórnsýslumál, þar sem tekin hefur verið stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Málið hefur því verið réttilega borið undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna.

Í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan." Í bréfum þeim, sem kærandi hefur farið fram á að fá aðgang að, er að finna athugasemdir sálfræðinga, sem varða þroska og heilbrigðisástand hennar, og eiga rætur að rekja til sakamáls þar sem hún hafði réttarstöðu brotaþola. Þar með lítur úrskurðarnefnd svo á að hin umbeðnu gögn hafi að geyma upplýsingar um hana sjálfa í skilningi 1. mgr. 9. gr. og því falli beiðni um aðgang að þeim undir III. kafla upplýsingalaga.

2.

Samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 9. gr. upplýsingalaga gilda ákvæði 1. mgr. ekki "um þau gögn sem talin eru í 4. gr." Í 2. tölul. 4. gr. laganna segir að réttur til aðgangs að gögnum taki ekki til "bréfaskipta stjórnvalda við sérfróða menn til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað".

Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, segir orðrétt um þetta ákvæði: "Að baki undanþágu 2. tölul. býr það sjónarmið að hið opinbera, á sama hátt og hver annar aðili að dómsmáli, geti leitað ráðgjafar sérfróðra aðila án þess að þær upplýsingar, sem þannig er aflað, komist til vitundar gagnaðila. Undanþágunni verður aðeins beitt um gögn sem verða til eða aflað er gagngert í þessu skyni og tekur því t.d. ekki til álitsgerða eða skýrslna sérfræðinga sem aflað er við meðferð stjórnsýslumála almennt."

Af þessum ummælum má draga þá ályktun að ákvæði 2. tölul. 4. gr. upplýsingalaga eigi fyrst og fremst við einkamál þar sem aðilar máls eru jafnt settir fyrir dómi. Í ákvæðinu sjálfu er það jafnframt gert að skilyrði, svo að því verði beitt, að bréf þau, sem um er að ræða, verði lögð fram í dómsmáli eða a.m.k. sé ætlunin að gera það ellegar að þau lúti að athugun á því hvort dómsmál skuli höfðað.

Eins og fram kemur í umsögn ríkissaksóknara, óskaði hann ekki eftir athugasemdum sálfræðinganna tveggja í því skyni að þær yrðu lagðar fram í dómsmáli. Sem fyrr segir verður heldur ekki séð að þeirra hafi verið aflað við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfða, heldur einungis til upplýsingar og fróðleiks í framhaldi af tilteknum hæstaréttardómi. Með skírskotun til þessa verður umræddu ákvæði í 2. tölul. 4. gr. upplýsingalaga ekki beitt í þessu máli, hvorki samkvæmt orðanna hljóðan né heldur með rýmkandi lögskýringu eða lögjöfnun, enda er hér um að ræða undantekningarákvæði frá meginreglum 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 9. gr. laganna, sbr. 1. tölul. 2. mgr. þeirrar greinar.

Því hefur verið haldið fram af hálfu ríkissaksóknara að synja beri kæranda um aðgang að bréfum sálfræðinganna tveggja vegna þess að í þeim séu gerðar athugasemdir við trúnaðargögn. Þessi röksemd fær ekki staðist af þeirri ástæðu að kærandi hefur þegar fengið aðgang að þeim gögnum. Ekki verður talið að hagsmunir annarra af því að halda upplýsingum í bréfunum leyndum vegi þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá að kynna sér þær, sbr. 3. mgr. 9. gr. upplýsingalaga.

Með vísun til þess, sem að framan greinir, er skylt að verða við beiðni kæranda um aðgang að hinum umbeðnu gögnum.

Úrskurðarorð:

Ríkissaksóknara er skylt að veita kæranda, [A], aðgang að bréfum dr. [B] og dr. [C] til hans sem dagsett eru 25. nóvember og 10. desember 1999.


Eiríkur Tómasson, formaður
Arnfríður Einarsdóttir
Ólafur E. Friðriksson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta