Hoppa yfir valmynd
22. maí 2001 Forsætisráðuneytið

A-118/2001 Úrskurður frá 22. maí 2001

ÚRSKURÐUR



Hinn 22. maí 2001 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-118/2001:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 12. mars sl., kærði […] bæjarstjóri [sveitarfélagsins A] synjun hreindýraráðs, dagsetta 15. febrúar sl., um að veita sveitarfélaginu aðgang að upplýsingum um skiptingu hreindýraarðs í [A] vegna hreindýraveiða árið 2000.

Með bréfi, dagsettu 30. mars sl., var kæran kynnt hreindýraráði og því veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 11. apríl sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit þeirra gagna, er kæran lýtur að, innan sama frests. Umsögn hreindýraráðs, dagsett 9. apríl sl., barst úrskurðarnefnd hinn 16. s.m. ásamt tölvuskrám um alla úthlutun hreindýraarðs fyrir árið 2000.

Eiríkur Tómasson vék sæti við meðferð og úrskurð í kærumáli þessu. Sæti hans tók Steinunn Guðbjartsdóttir varamaður.

Málsatvik

Samkvæmt 4. mgr. 14. gr. laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar villtra fugla og villtra spendýra, sbr. 1. gr. laga nr. 100/2000, er hreindýraráði falið að selja leyfi til að veiða hreindýr og skipta arði af sölu þeirra og afurða felldra dýra. Samkvæmt 6. mgr. sömu greinar setur ráðherra nánari reglur um framkvæmd laganna, m.a. um skiptingu arðs af hreindýraveiðum. Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 454/2000, um skiptingu arðs af hreindýraveiðum, skal hreindýraráð ráðstafa arði þessum innan hvers sveitarfélags til þeirra sem verða fyrir ágangi af völdum hreindýra á jörðum sínum. Af hverju felldu dýri rennur tiltekin krónutala til ábúenda eða umráðenda þeirrar jarðar, sem dýrið er fellt á, en að öðru leyti er eftirstöðvunum skipt í ákveðnum hlutföllum samkvæmt fasteignamati og landstærð annars vegar og eftir mati á ágangi hins vegar. Mati hreindýraráðs má vísa til umhverfisráðherra til úrskurðar. Þeir sem ekki leyfa veiðar á jörðum sínum njóta ekki hlutdeildar í arðgreiðslum þessum.

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að kærandi fór með bréfi til hreindýraráðs, dagsettu 8. febrúar sl., fram á það f.h. bæjarstjórnar [A] að vera látnar í té upplýsingar um skiptingu hreindýraarðs vegna hreindýraveiða í [A] á árinu 2000. Hreindýraráð synjaði beiðni bæjarstjórnarinnar með bréfi, dagsettu 15. febrúar 2000 (sic), með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Í erindi ráðsins kom fram að synjun þess væri byggð á því mati ráðsins að um svo viðkvæmar upplýsingar væri að ræða, að þær ættu ekki erindi við almenning.

Í kæru til nefndarinnar, dagsettri 12. mars sl., hefur bæjarstjóri [A] gert grein fyrir þrenns konar ástæðum þess að bæjarstjórnin fari fram á að fá aðgang að upplýsingum um úthlutun arðsins. Í fyrsta lagi eigi sveitarfélagið hagsmuni af því að fá aðgang að þessum upplýsingum í krafti eignarhalds síns á jörðum í [B] þar sem ágangur hreindýra sé hvað mestur. Í öðru lagi hafi sveitarfélagið kostað öll fjallskil í sveitarfélaginu vegna eyðijarða án þess að innheimta fyrir þau nokkurt gjald. Hafi það verið rökstutt með því að hluti hreindýraarðsins væri notaður til þess. Nú muni sveitarfélagið hins vegar hefja innheimtu fyrir þessa þjónustu og því sé því nauðsynlegt að fá upplýsingar um þá sem fá greiddan hreindýraarð í sveitarfélaginu. Í þriðja lagi sé nauðsynlegt fyrir sveitarfélagið að fá þessar upplýsingar til að taka ákvörðun um hvort endurmeta skuli fasteignamat jarða með tilliti til þeirra hlunninda sem í arðgreiðslunum felast.

Í umsögn hreindýraráðs til nefndarinnar, dagsettri 9. apríl sl., kemur fram að ráðið hafi þurft að leita eftir upplýsingum um jarðeigendur á Austurlandi, kennitölur þeirra og eignarhlutföll í viðkomandi jörðum úr fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins til að geta úthlutað arði af hreindýraveiðum á árinu 2000 í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 454/2000. Umsögn ráðsins fylgdi afrit af svari fasteignamatsins, dagsettu 30. nóvember 2000, við beiðni þess þar að lútandi. Þar kemur fram að stofnunin hafi leitað umsagnar tölvunefndar um beiðnina. Í umsögn nefndarinnar komi fram að það sé skilningur hennar að eingöngu verði unnið með umbeðin gögn í þeim tilgangi að koma arðgreiðslum jarðeigenda til skila í samræmi við settar réttarreglur. Nefndin geri því ekki athugasemdir við að umbeðnar upplýsingar verði veittar. Á þeim grundvelli lét fasteignamatið umbeðnar upplýsingar í té að því tilskildu að meðferð þeirra yrði hagað í samræmi við tilgang beiðninnar og að öðru leyti í samræmi við þágildandi lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, nr. 121/1989.

Í umsögn hreindýraráðs til úrskurðarnefndar er skírskotað til framangreindra skilyrða sem ráðinu voru sett við öflun þeirra upplýsinga, sem því voru nauðsynlegar til að úthluta hreindýraarði á síðasta ári. Þar sé um að ræða persónuupplýsingar sem ráðið telji sér ekki vera heimilt að láta öðrum í té. Þá veiti skrár um úthlutun arðsins upplýsingar um fjármál og tekjur einstaklinga sem ráðið telji óheimilt að veita aðgang að á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga. Að auki bendir ráðið á að allir landeigendur eða umráðamenn lands, sem þess hafi óskað, hafi fengið afhentar allar upplýsingar og forsendur fyrir úthlutun arðs til sín. Þeir sem telji sig þurfa að fá mat á því hvort þeim sé mismunað miðað við aðra sem fá arð greiddan, geti leitað úrskurðar umhverfisráðherra þar um.

Umsögn hreindýraráðs fylgdu á tölvudisklingi skrár um úthlutun hreindýraarðs á árinu 2000. Í skránum er að finna upplýsingar um jarðarheiti, tegund jarðar, eignarnúmer, eiganda eða ábúanda ásamt kennitölu og eignar- eða umráðahlut í viðkomandi jörð, fasteignamat jarðar, landstærð, ágang miðað við hagagöngu, felld dýr á jörðinni og útreikning arðs miðað við fasteignamat, landstærð og ágang, svo og heildarsummuna af öllu þessu saman lögðu. Upplýst er í málinu að eingöngu skrár auðkenndar [C] og [D] varða úthlutun arðs til jarðeigenda eða umráðamanna jarða í [A] og að þær tilheyri báðar sama úthlutunarsvæði.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.

Umbeðnar skrár hafa að geyma safn persónuupplýsinga í skilningi 2. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Um gildissvið þeirra laga gagnvart upplýsingalögum segir nú í 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 83/2000 að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nema óskað sé eftir aðgangi að skjölum eða öðrum gögnum sem 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga tekur til. Í því ákvæði er inntak upplýsingaréttar almennings skilgreint á þann hátt að aðgangur almennings taki til gagna í máli sem er eða hefur verið til meðferðar hjá stjórnvöldum og liggja fyrir hjá þeim. Að jafnaði myndi það leiða til þess að upplýsingalögin taki ekki til skráa sem stjórnvöld halda um úrlausn fleiri en eins máls.

Skrár þær sem hér um ræðir eru hins vegar eingöngu færðar í þeim tilgangi að úthluta arði sem til verður við sölu veiðileyfa fyrir tiltekið tímabil og afurða felldra dýra eftir hlutlægum reglum, sbr. reglugerð nr. 454/2000. Allir landeigendur, sem verða fyrir ágangi hreindýra og leyfa veiðar á jörðum sínum, eiga rétt til úthlutunar úr þessum sjóði. Af úthlutunarreglum má ráða að leitast er við að úthluta arði í samræmi við þann ágang sem hver og einn landeigandi verður fyrir. Að verulegu leyti er ákvörðun um það komin undir mati hreindýraráðs. Þá er um að ræða greiðslu sem miðast við hvar dýr er fellt. Að þessu virtu er það mat nefndarinnar að líta verði á úthlutun arðs á hverju svæði fyrir sig sem eitt mál í skilningi 3. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt því ber að taka beiðni um aðgang að nefndum skrám til efnislegrar úrlausnar á grundvelli upplýsingalaga.
2.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr. upplýsingalaga. Skrár þær sem hér um ræðir hafa að geyma upplýsingar um skiptingu svonefnds hreindýraarðs milli einstakra landeigenda sem verða fyrir ágangi af völdum hreindýra og þar sem þau eru veidd. Að þessu athuguðu kemur til álita hvort upplýsingar um greiðslur til einstakra landeigenda úr þessum sjóði og skipting hans varði einhverja þá hagsmuni sem njóta verndar skv. fyrri málsl. 5. gr. upplýsingalaga, en samkvæmt því ákvæði er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari.

Við mat á því ber til þess að líta, að skipting þess arðs sem hér um ræðir fer fram samkvæmt settum reglum sem öllum eru aðgengilegar. Af þeim má ráða hverjir eigi rétt til hlutdeildar í þeim sjóði, sem myndast að loknu hverju veiðitímabili, og hvaða viðmiðanir eru lagðar til grundvallar úthlutunar úr honum. Samkvæmt þeim ræðst hún af tölu felldra dýra á hverri jörð, fasteignamati hennar, stærð lands og mati á því fyrir hversu miklum ágangi viðkomandi jörð verður af völdum hreindýra. Greiðslum úr sjóðnum má því í raun jafna til bóta fyrir það tjón sem ágangur dýranna er líklegur til að hafa valdið á hverri jörð um sig. Upplýsingar um úthlutun greiðslna af þessu tagi gefa engar vísbendingar um aflahæfi þeirra sem þær fá og fjárhæðir þeirra veita ekki nema óverulegar upplýsingar um fjárhags- eða eignastöðu viðkomandi. Að þessu virtu er það álit úrskurðarnefndar að upplýsingar um skiptingu arðs af hreindýraveiðum í umbeðnum skrám og viðtakendur hans njóti ekki verndar skv. fyrri málsl. 5. gr. upplýsingalaga. Að fenginni þeirri niðurstöðu á sama við um aðrar upplýsingar, sem þar koma fram, s.s. kennitölur og fasteignarmat einstakra jarða. Samkvæmt þessu ber að veita bæjarstjórn [A] aðgang að umbeðnum upplýsingum um úthlutun arðs af hreindýraveiðum á árinu 2000 í sveitarfélaginu.

Úrskurðarorð:

Hreindýraráði er skylt að veita kæranda, bæjarstjórn [A], aðgang að skrám um úthlutun arðs af hreindýraveiðum á árinu 2000 í sveitarfélaginu.



Valtýr Sigurðsson, formaður
Elín Hirst
Steinunn Guðbjartsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta