Hoppa yfir valmynd
14. júní 2001 Forsætisráðuneytið

A-119/2001 Úrskurður frá 14. júní 2001

ÚRSKURÐUR



Hinn 14. júní 2001 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-119/2001:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 27. apríl sl., kærði […] hdl., f.h. […] ehf. fasteignasölu, synjun húsnæðisnefndar Reykjavíkur um að veita kæranda aðgang að upplýsingum um sölu íbúða á vegum nefndarinnar á tímabilinu frá 4. júní 1999 til 10. febrúar 2001.

Eins og mál þetta er vaxið, taldi úrskurðarnefnd ekki ástæðu til að leita umsagnar húsnæðisnefndar Reykjavíkur um kæruna, sbr. 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Málsatvik

Samkvæmt lýsingu umboðsmanns kæranda á málsatvikum eru þau í stuttu máli þessi: Í kjölfar útboðs á vegum Ríkiskaupa tók kærandi að sér, ásamt annarri fasteignasölu, að annast sölu á íbúðum Íbúðalánasjóðs og íbúðum í félagslega kerfinu í umdæmum sýslumannanna í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði eftir ákvörðun húsnæðisnefnda í sveitarfélögum er tilheyra þessum umdæmum. Þrátt fyrir þetta hafi húsnæðisnefnd Reykjavíkur ekki falið kæranda að selja íbúðir sem hún hefur leyst til sín. Telur kærandi að það hafi bakað honum fjárhagslegt tjón sem Reykjavíkurborg beri bótaábyrgð á.

Af þessum sökum leitaði umboðsmaður hans eftir svofelldum upplýsingum með bréfi til húsnæðisskrifstofu Reykjavíkur, dagsettu 13. febrúar sl.:
"1. Hvað hefur húsnæðisnefnd Reykjavíkur selt margar íbúðir á tímabilinu frá 4. júní 1999 til 10. febrúar 2001?
2. Hvert er heildarverðmæti hverrar íbúðar fyrir sig?
3. Hvenær voru viðkomandi íbúðir seldar?
4. Um hvaða eignir er að ræða og er óskað upplýsinga um götuheiti og húsnúmer allra seldra íbúða á tímabilinu."

Húsnæðisnefnd Reykjavíkur synjaði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 30. mars sl. Í svari nefndarinnar kemur fram að afstaða hennar byggist á því að ákvæði upplýsingalaga feli ekki í sér heimild til að krefjast þess að stjórnvald vinni tilteknar skýrslur eða gefi skýringar, eins og kærandi hafi óskað eftir. Ekki sé til nein samantekt á því hversu margar íbúðir húsnæðisnefnd hafi selt á nefndu tímabili og því sé ekki unnt að verða við beiðninni.

Auk framangreindra hagsmuna af því að geta metið umfang fyrrgreinds fjártjóns byggir kærandi kröfur sínar á því að umbeðnar upplýsingar hljóti að koma fram í sölusamningum um þær íbúðir sem um sé að ræða. Þeim sé öllum þinglýst og þeir þannig opinberir öllum. Gerir kærandi þá kröfu fyrir úrskurðarnefnd að hin kærða synjun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir húsnæðisnefnd Reykjavíkur að veita honum hinar umbeðnu upplýsingar, en til vara að nefndin afhendi honum afrit af öllum sölusamningum um íbúðarhúsnæði á vegum húsnæðisskrifstofu Reykjavíkur á ofangreindu tímabili, þ.e. frá 4. júní 1999 til 10. febrúar 2001.

Kærandi hefur fært frekari rök fyrir kærunni. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þeim röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.

Samkvæmt 3. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, með þeim undantekningum sem fram koma í 4.–6. gr. laganna, að veita almenningi aðgang að skjölum og öðrum gögnum í vörslum sínum. Stjórnvöldum ber hins vegar ekki skylda til þess samkvæmt lögunum að láta í té upplýsingar með öðrum hætti, t.d. með því að útbúa ný gögn, sem ekki eru fyrirliggjandi, þegar óskað er eftir aðgangi að upplýsingum.

Í því máli, sem hér er til úrlausnar, fer kærandi fram á að fá upplýsingar um sölu á íbúðum á vegum húsnæðisnefndar Reykjavíkur á all löngu tímabili. Af svari nefndarinnar til hans verður ráðið að upplýsingar þessar hafi ekki verið teknar saman, þannig að þær séu aðgengilegar á einum stað. Með vísun til þess, sem að framan segir, ber þar með að staðfesta synjun nefndarinnar um að veita honum hinar umbeðnu upplýsingar.

2.

Sá sem fer fram á aðgang að gögnum, verður að miða beiðni sína við tiltekin gögn með því að tilgreina þau gögn eða það mál, sem hann óskar að kynna sér, sbr. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd hefur skýrt þetta ákvæði laganna svo að ekki sé unnt í sömu beiðni að fara fram á aðgang að miklum fjölda skjala úr fleiri en einu stjórnsýslumáli, jafnvel þótt skjölin séu nægilega tilgreind.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar hefur kærandi gert þá kröfu að fá aðgang að öllum sölusamningum um íbúðarhúsnæði á vegum húsnæðisskrifstofu Reykjavíkur á tímabilinu frá 4. júní 1999 til 10. febrúar 2001. Eins og fram kemur í gögnum þeim, sem fylgdu kærunni, er hér um að ræða mikinn fjölda samninga, sem gerðir hafa verið á tæplega tveggja ára tímabili.

Samkvæmt framansögðu lítur úrskurðarnefnd svo á að ekki sé unnt, á grundvelli upplýsingalaga, að fara fram á aðgang að svo miklum fjölda skjala úr jafn mörgum stjórnsýslumálum, því að sala hverrar íbúðar fyrir sig telst ótvírætt sérstakt stjórnsýslumál í skilningi laganna. Ber þar af leiðandi að hafna umræddri varakröfu kæranda og staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Úrskurðarorð:

Staðfest er synjun húsnæðisnefndar Reykjavíkur um að veita kæranda, […] ehf. fasteignasölu, aðgang að upplýsingum um sölu íbúða á vegum nefndarinnar, þar með töldum sölusamningum, á tíma-bilinu frá 4. júní 1999 til 10 febrúar 2001.


Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta