Hoppa yfir valmynd
11. október 2001 Forsætisráðuneytið

A-131/2001 Úrskurður frá 11. október 2001

Úrskurður



    Hinn 11. október 2001 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-131/2001:

    Kæruefni

    Með bréfi, dagsettu 13. september sl., kærði […], til heimilis að […], synjun Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, dag-setta 21. ágúst sl., um að veita honum aðgang að fundargerðum stjórnar sjóðsins í mánuðunum maí, júní og júlí árið 1999.

    Með bréfi, dagsettu 24. september sl., var kæran kynnt Nýsköpunarsjóði og sjóðnum veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 4. október sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit umbeðinna gagna innan sama frests. Umsögn sjóðsins, dagsett 3. október sl. og undirrituð af […] hrl., barst innan tilskilins frests, ásamt umbeðnum gögnum.

    Málsatvik

    Samkvæmt gögnum málsins fór kærandi fram á það, með bréfi til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, dagsettu 3. ágúst sl., að fá aðgang að fundargerðum stjórnar sjóðsins frá því í maí, júní og júlí 1999.

    Með bréfi Nýsköpunarsjóðs til kæranda, dagsettu 21. ágúst sl., var erindi hans synjað. Í bréfinu segir m.a.: "Það er mat Nýsköpunarsjóðs að hann hafi ekki skyldu eða heimild, hvorki samkvæmt stjórnsýslulögum né gildandi lögum um upplýsingaskyldu að afhenda utanaðkomandi aðila afrit af fundargerðum sjóðsstjórnar. Öðru máli gegnir, með ákveðnum fyrirvörum, ef aðili óskar eftir upplýsingum um eitthvað tiltekið mál og óskar eftir að fá afrit fundargerða eða þess hluta þeirra, þar sem um hið tiltekna mál er fjallað." Af bréfi Nýsköpunarsjóðs til kæranda verður jafnframt ráðið að hann hafi leitað eftir fyrirgreiðslu sjóðsins til þess að fjármagna gerð tiltekinnar kvikmyndar. Í tilefni af fyrirspurn hans voru honum því látin í té endurrit af þeim hluta fundargerða verkefnisstjórnar vöruþróunar- og markaðsdeildar frá 25. maí 1999 og stjórnar sjóðsins frá 28. sama mánaðar, þar sem greint er frá afgreiðslu þeirrar umsóknar.

    Í umsögn Nýsköpunarsjóðs til úrskurðarnefndar, dagsettri 3. október sl., eru fyrr-greind sjónarmið sjóðsins áréttuð. Síðan segir þar orðrétt: "Eðli málsins samkvæmt eru viðkvæmar upplýsingar um fjárhag einstaklinga og fyrirtækja oft uppi á borðum hjá stjórn NSA og því mikilvægt að fullur trúnaður sé milli sjóðsins og þeirra sem við hann skipta. Það varðar aðila sem skipta við NSA afar miklu að óviðkomandi geti ekki í krafti upplýsingalaga nálgast fjárhagslegar og/eða markaðslegar upplýsingar um þá, sérstaklega þar sem um er að ræða nýsköpunarverkefni sem eðli málsins samkvæmt geta orðið að engu ef upplýsingar um þau liggja á lausu." Að öðru leyti er vísað til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og II. kafla laganna.

    Niðurstaða

    1.

    Í upphafi 1. gr. laga nr. 61/1997 um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins segir orðrétt: "Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins." Sjóðurinn fellur því undir gildissvið upplýsingalaga skv. 1. mgr. 1. gr. þeirra laga.

    Í 2. gr. laga nr. 61/1997 er að finna svohljóðandi ákvæði: "Hlutverk Nýsköpunarsjóðs er að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingarverkefnum á sviði nýsköpunar og styðja við þróunar- og kynningarverkefni. Í þessu skyni er sjóðnum heimilt að leggja fram hlutafé eða veita lán, ábyrgðir eða styrki. Þá starfrækir sjóðurinn tryggingardeild útflutningslána skv. II. kafla. – Í starfsemi sinni er sjóðnum heimilt að leita samstarfs við aðra aðila á sviði áhættufjármögnunar."

    Svofellt ákvæði er að finna í 16. gr. laganna: "Stjórnendur Nýsköpunarsjóðs og aðrir þeir sem vinna fyrir sjóðinn eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirboðara eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi." Þar eð hér er um að ræða almennt ákvæði um þagnarskyldu takmarkar það ekki, eitt og sér, rétt til aðgangs að gögnum í vörslum sjóðsins samkvæmt upplýsingalögum, sbr. niðurlag 3. mgr. 2. gr. þeirra laga.

    Ekki verður séð, hvorki af beiðni kæranda né kæru hans til úrskurðarnefndar, að fundargerðir þær, sem hann hefur óskað eftir aðgangi að, hafi að geyma upplýsingar um hann sjálfan í merkingu 9. gr. upplýsingalaga. Af þeim sökum ber að leysa úr beiðni hans á grundvelli II. kafla laganna.

    2.

    Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4. - 6. gr." Ennfremur segir í 1. mgr. 10. gr. laganna: " Sá sem fer fram á aðgang að gögnum skal tilgreina þau gögn sem hann óskar að kynna sér. Þá getur hann óskað eftir að fá að kynna sér upplýsingar um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn sem málið varða."

    Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, er síðarnefnda ákvæðið skýrt með eftirgreindum hætti: "Beiðni um aðgang að gögnum er annaðhvort hægt að binda við tiltekin skjöl eða önnur gögn, sem aðili óskar eftir að fá að kynna sér, eða gögn tiltekins máls. Þegar óskað er eftir að fá aðgang að gögnum tiltekins máls á hlutaðeigandi rétt á að fá aðgang að öllum þeim gögnum sem talin eru upp í 2. mgr. 3. gr., enda standi ákvæði 4.- 6. gr. því ekki í vegi. – Í beiðni verður að tilgreina gögnin eða málið með það glöggum hætti að stjórnvöldum sé fært að hafa uppi á gögnunum eða málinu. – Það leiðir af 1. mgr. að ekki er hægt að biðja um gögn í öllum málum af ákveðinni tegund eða frá tilteknu tímabili. Í frumvarpinu er gengið út frá sömu tilhögun og fram kemur í norsku og dönsku upplýsingalögunum um þetta efni, þ.e. að tilgreina verður þau gögn eða það mál sem beiðni beinist að."

    Nýsköpunarsjóður hefur m.a. synjað kæranda um aðgang að fundargerðunum, sem mál þetta snýst um, á þeirri forsendu að hann geti ekki, á grundvelli upplýsingalaga, farið fram á aðgang að þeim í heild sinni, heldur verði beiðni hans að vera einskorðuð við tiltekið mál sem þar sé fjallað um. Þessi skilningur á sér ekki stoð í orðalagi 1. mgr. 10. gr. laganna, þar sem segir að beiðni geti ýmist beinst að ákveðnum gögnum, sem tilgreina beri, eða tilteknu stjórnsýslumáli, án þess að tilgreina þurfi einstök gögn sem málið varða. Af athugasemdunum, sem vitnað er til að framan, verður hins vegar ráðið að setja verði beiðni um aðgang að gögnum vissar skorður.

    Með hliðsjón af 3. gr. upplýsingalaga hefur úrskurðarnefnd skýrt umrætt ákvæði í 1. mgr. 10. gr. svo að aðgangur sé að öðru jöfnu heimill að skjali eða sambærilegu gagni þótt þar sé að finna upplýsingar um fleiri en eitt stjórn-sýslumál. Á hinn bóginn hefur nefndin talið að ekki sé unnt, í sömu beiðni, að fara fram á aðgang að miklum fjölda skjala úr fleiri en einu máli, þótt þau séu nægilega tilgreind. Þegar um er að ræða skjöl eins og fundargerðir, þar sem fjallað er um fleiri en eitt mál, verður samkvæmt framansögðu að setja því einhverjar skorður, til hversu margra slíkra skjala beiðni geti tekið.

    Beiðni kæranda er afmörkuð við þrjá mánuði, þ.e. tímabilið frá 1. maí til 31. júlí 1999. Á þeim tíma voru haldnir fjórir fundir í stjórn Nýsköpunarsjóðs og eru fundargerðirnar, sem hann óskar eftir aðgangi að, því fjórar talsins. Þótt þar sé greint frá umfjöllun stjórnarinnar um fleiri en eitt stjórnsýslumál á hverjum fundi eru sumar bókanirnar þess eðlis að óheimilt er að veita almenningi aðgang að þeim, eins og gerð er grein fyrir í kafla 3 hér á eftir. Að teknu tilliti til þessa er það álit úrskurðarnefndar, með vísun til þess sem að framan greinir, að beiðnin fullnægi þeim skil-yrðum sem sett eru í 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga.
    3.

    Með skírskotun til þeirrar meginreglu um rétt almennings til aðgangs að gögnum í vörslum hins opinbera, sem fram kemur í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, hefur verið litið svo á að stjórnvöldum beri að veita aðgang að upplýsingum um úthlutun fjár úr opinberum sjóðum í formi styrkja eða annarra óafturkræfra framlaga, sbr. dóm Hæstaréttar 1998, bls. 3096 í dómasafni réttarins.

    Önnur sjónarmið eiga við um lánveitingar opinberra sjóða og þátttöku þeirra í atvinnu-rekstri. Í 5. gr. upplýsingalaga er þannig svo fyrir mælt að óheimilt sé að veita almenningi "aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila … sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á." Sömu takmarkanir gilda um "aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga".

    Samkvæmt 2. gr. laga nr. 61/1997 er það hlutverk Nýsköpunarsjóðs að taka þátt í fjárfestingarverkefnum á sviði nýsköpunar og styðja við þróunar- og kynningarverkefni, m.a. með því að leggja fram hlutafé eða veita lán. Í hluta af fundargerðum þeim, sem mál þetta snýst um, er fjallað um þátttöku sjóðsins í einstökum fjárfestingarverkefnum, þar sem m.a. er að finna upplýsingar um fjárhagsmálefni þeirra fyrirtækja sem í hlut eiga. Með vísun til 5. gr. upplýsingalaga er þessi hluti fundargerðanna undanþeginn upplýsingarétti. Sama gildir um upplýsingar sem þar koma fyrir og varða fjárhagsmálefni nafngreinds einstaklings.

    Þá er í fundargerð frá stjórnarfundi 6. maí 1999 fjallað um umsóknir um starf framkvæmdastjóra sjóðsins. Með vísun til 4. tölul. 4. gr. og 5. gr. upplýsingalaga er þessi hluti fundargerðarinnar jafnframt undanþeginn upplýsingarétti, að undanskildum nöfnum og starfsheitum umsækjenda.

    Að mati úrskurðarnefndar fellur ekkert annað efni fundargerðanna undir undantekningarákvæðin í 4.–6. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt 7. gr. laganna ber því sjóðnum að veita kæranda aðgang að þeim að öðru leyti en að framan greinir. Ljósrit af fundargerðunum fylgir því eintaki úrskurðarins, sem sent verður sjóðnum, þar sem merkt hefur verið við þá hluta sem kærandi á, samkvæmt framansögðu, ekki rétt til aðgangs að.

    Úrskurðarorð:

    Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins er skylt að veita kæranda, […], aðgang að fundargerðum stjórnar sjóðsins frá maí, júní og júlí árið 1999, að hluta, eftir því sem nánar er kveðið á um hér að framan.

    Eiríkur Tómasson, formaður
    Elín Hirst
    Valtýr Sigurðsson


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta