Hoppa yfir valmynd
29. maí 2002 Innviðaráðuneytið

Breyting á lögum um húsnæðismál

Breytingarlög nr. 86/2002 á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, tóku gildi við birtingu laganna, þ.e. hinn 23. maí sl. Vegna þessara lagabreytingar hefur ráðuneytið ákveðið að veita nokkrar leiðbeiningar.

Á vegum félagsmálaráðherra hefur starfað nefnd um húsnæðismál sveitarfélaga í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga sem hefur haft það hlutverk að fylgja eftir tillögum um húsnæðismál sveitarfélaga sem unnar hafa verið, samræma aðgerðir og fylgjast með framkvæmd laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Unnið var sérstaklega að því hlutverki nefndarinnar að gera tillögur um breytt hlutverk og fjármögnun varasjóðs viðbótarlána og að hrinda í framkvæmd tillögum sem unnar hafa verið á vegum félagsmálaráðuneytisins um lausn á vanda sveitarfélaga vegna innlausnaríbúða í félagslega íbúðakerfinu. Frumvarp það sem nú verður að lögum er byggt á þeirri vinnu sem unnin var í nefnd þessari.

Meginbreytingar eru eftirfarandi: 1. Stofnun varasjóðs húsnæðismála, 2. Afskrift íbúða vegna ástands þeirra og 3. Afnám kaupskyldu. Vakin er athygli á því að félagsmálaráðherra samþykkir afnám kaupskyldu og forkaupsréttar í viðkomandi sveitarfélagi að fenginni ósk sveitarfélagsins um slíkt og að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Varasjóður húsnæðismála
Með 1. gr. og 4. gr. laganna er breytt X. kafla og ákvæði til bráðabirgða VIII laga um húsnæðismál. Aðalbreytingin snýr að X. kafla laga um húsnæðismál. Nafni varasjóðs viðbótarlána er breytt í varasjóð húsnæðismála, skipuð er sérstök ráðgjafarnefnd og hlutverk hins nýja sjóðs er aukið frá því sem gilti um varasjóð viðbótarlána. Varasjóður húsnæðismála fær ný verkefni og er þannig ætlað að koma þeim sveitarfélögum til aðstoðar sem átt hafa í fjárhagsvanda vegna félagslegra íbúða sem þau hafa ekki getað losað sig við og aðstoða sveitarfélögin við rekstur íbúðanna, sölu þeirra og í undantekningartilvikum afskriftir þeirra. Með lögunum eru engar efnislegar breytingar gerðar á þeim sjóði sveitarfélaganna sem stendur til tryggingar viðbótarlánum (45. gr.).

Hlutverk varasjóðs húsnæðismála verður eftirfarandi :
1. Að veita rekstrarframlög til sveitarfélaga vegna hallareksturs félagslegra leiguíbúða eða íbúða sem hafa staðið auðar í lengri tíma. Rekstrarframlög til sveitarfélaga skulu reiknuð út í samræmi við sérstakt reiknilíkan.
2. Að veita framlög til sveitarfélaga vegna sölu félagslegra eignar- og leiguíbúða á almennum markaði. Sjóðurinn skal taka þátt í niðurgreiðslu við sölu á innleystum félagslegum íbúðum á almennum markaði í þeim tilvikum þar sem innlausnarverð er hærra en markaðsverð íbúðanna. Heimild þessi tekur einnig til félagslegra leiguíbúða sem sveitarfélagið hefur áður innleyst en breytt síðan í félagslegar leiguíbúðir.
3. Að hafa umsýslu með varasjóði viðbótarlána skv. 45. gr. laga um húsnæðismál. Varasjóður húsnæðismála skal taka við öllum eignum, réttindum og skyldum eldri varasjóðs samkvæmt lögum um húsnæðismál.
4. Að hafa umsýslu með Tryggingarsjóði vegna byggingargalla skv. 53. gr. Varasjóður húsnæðismála skal taka við öllum eignum, réttindum og skyldum Tryggingarsjóðs vegna byggingargalla.
5. Að gera tillögur til Íbúðalánasjóðs um að afskrifa að hluta eða að öllu leyti útistandandi veðkröfur Íbúðalánasjóðs á ákveðnum félagslegum leiguíbúðum sveitarfélaga í þeim tilvikum þar sem leiguíbúðir sem standa að veði fyrir viðkomandi kröfum verða ekki leigðar út vegna slæms ástands þeirra, sbr. nýja afskriftaheimild Íbúðalánasjóðs.
6. Að veita ráðgjöf og leiðbeiningar þeim sveitarfélögum sem vilja breyta um rekstrarform félagslegra leiguíbúða eða hagræða í rekstri þeirra.
7. Að sjá um upplýsingavinnslu og úttekt á árangri af verkefnum sjóðsins.

Fjárhagsáætlun verkefnisins byggist á rammasamkomulagi félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkisins, og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem undirritað var 4. apríl sl. Í samkomulaginu er kveðið á um verkefni sjóðsins og skiptingu fjárframlaga til einstakra þátta verkefnisins. Í félagsmálaráðuneytinu er nú unnið að gerð reglugerðar um varasjóð húsnæðismála. Sú reglugerð mun koma í stað núgildandi reglugerðar um varasjóð viðbótarlána, nr. 72/1999, og kveða nánar á um hin nýju verkefni varasjóðs húsnæðismála.

Afskrift íbúða vegna ástands
Með 2. gr. laganna er bætt við nýrri málsgrein er verður 3. mgr. 47. gr. laga um húsnæðismál. Með breytingunni fær stjórn Íbúðalánasjóðs heimild til að afskrifa að hluta eða að öllu leyti útistandandi veðkröfur sjóðsins á félagslegri leiguíbúð sveitarfélags. Skilyrði þessa er að eign sú sem stendur að veði fyrir viðkomandi kröfu verði ekki leigð út vegna slæms ástands og verði afskrifuð, svo sem með niðurrifi, þar sem að mati sérfróðra matsmanna verður ekki talið hagkvæmt að endurbyggja hana í ljósi stöðu á fasteignamarkaði sveitarfélagsins. Einnig er sett sem skilyrði afskriftar að beiðni hafi borist frá ráðgjafarnefnd varasjóðs húsnæðismála og sé unnið í samráði við viðkomandi sveitarfélag. Viðkomandi sveitarfélag þarf að setja a.m.k. jafnháa upphæð á móti Íbúðalánasjóði.

Afnám kaupskyldu
Með 3. gr. laganna er breytir ákvæði til bráðabirgða IV laganna er sveitarfélögum nú heimilað að falla frá kaupskyldu á félagslegum eignaríbúðum að fenginni staðfestingu félagsmálaráðherra.

Eftir gildistöku laganna geta sveitarfélög óskað eftir því við félagsmálaráðherra að aflétt verði kaupskyldu og forkaupsrétti þeirra. Slík framkomin ályktun sveitarfélags verður að taka til allra félagslegra íbúða innan viðkomandi sveitarfélags svo jafnræðis meðal íbúa sveitarfélaganna verði tryggt. Ráðherra staðfestir síðan þá ósk sveitarfélags enda séu öll skilyrði uppfyllt. Hafi sveitarfélag fengið slíka staðfestingu ráðherra getur eigandi félagslegrar eignaríbúðar farið fram á að kaupskylda og forkaupsréttur sveitarfélags verði ekki virk og selt íbúð sína á almennum markaði. Áður en félagsleg íbúð er seld á almennum markaði skal eigandi íbúðarinnar greiða upp áhvílandi veðskuldir við framkvæmdaraðila og þau lán sem veitt hafa verið af Byggingarsjóði verkamanna.

    Í beiðni sveitarfélags þar sem óskað er eftir því við félagsmálaráðherra að hann aflétti kaupskyldu og forkaupsrétti í sveitarfélaginu þarf að koma fram:
    1. Að vilji meirihluta borgarstjórnar, bæjarstjórnar, eða hreppsnefndar er að aflétta kaupskyldu og forkaupsrétti í viðkomandi sveitarfélagi samkvæmt heimild í nýsettu bráðabirgðaákvæði IV laga um húsnæðismál.
    2. Að slík ályktun taki bæði til kaupskyldu og forkaupsréttar félagslegra íbúða.
    3. Að slík ályktun sveitarfélags taki til allra félagslegra eignaríbúða innan sveitarfélagsins.

    Heimildarákvæði þetta hefur ekki áhrif á rétt eigenda félagslegra eignaríbúða til að óska sérstaklega eftir því að sveitarfélög leysi til sín félagslegar eignaríbúðir sem kaupskylda samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða I og II í lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, og 83. og 84. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993, með síðari breytingum, hvílir á. Réttur eigenda félagslegra eignaríbúða til að óska sérstaklega eftir því að sveitarfélag innleysi eign þeirra sem kaupskylda sveitarfélagsins hvílir á verður því áfram fyrir hendi. Það sama á við þegar um nauðungarsölu á félagslegum eignaríbúðum er að ræða (gildir í 15 ár).
    Félagsmálaráðuneyti, 24. maí 2002




    Efnisorð

    Hafa samband

    Ábending / fyrirspurn
    Ruslvörn
    Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

    Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

    Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta