Aukinn stuðningur við varnir Úkraínu
Ísland mun styðja við innkaup Tékklands á skotfærum fyrir Úkraínu og leggja fjármuni í kaup á búnaði fyrir konur í úkraínska hernum. Lítið framboð hefur verið af skotfærum og hefur Tékkland, í samvinnu við helstu samstarfsríki Íslands, tekið að sér að útvega skotfæri fyrir stórskotalið Úkraínu sem gegnir lykilhlutverki við varnir landsins. Gert er ráð fyrir að um tveimur milljónum evra verði varið til verkefnisins af Íslands hálfu.
„Það er brýnt að halda áfram að styðja Úkraínu af krafti, en þannig leggjum við ekki aðeins okkar af mörkum til varnar íbúum landsins, heldur sömuleiðis alþjóðalögum í stærra samhengi og okkar eigin öryggishagsmunum. Stefna um stuðning við Úkraínu sem nú liggur fyrir Alþingi mun ramma þennan stuðning inn til lengri tíma, en á sama tíma ætlum við áfram að hreyfa okkur hratt og styðja við frumkvæðisverkefni af þessu tagi,“ segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra.
Þá mun Ísland styðja innkaup á búnaði fyrir konur í úkraínska hernum. Hlutfall kvenna í hernum hefur vaxið mjög á síðustu árum, sérstaklega eftir að innrás Rússa hófst. Til að koma til móts við þarfir kvenkyns hermanna er lagt upp með að útvega einkennisföt, skotheld vesti, læknis- og hreinlætisvörur fyrir 75 milljónir króna.