Mál nr. 49/2024. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 26. mars 2025
í máli nr. 49/2024:
Beiðni Sjúkratrygginga Íslands
um frestun réttaráhrifa
Lykilorð
Frestun réttaráhrifa.
Útdráttur
Hafnað var erindi Sjúkratrygginga Íslands um frestun réttaráhrifa á þeim þætti úrskurðar kærunefndar útboðsmála 1. nóvember 2024 í máli nr. 47/2023 sem laut að greiðslu stjórnvaldssektar í ríkissjóð.
Með erindi mótteknu hjá kærunefnd útboðsmála 9. desember 2024 fóru Sjúkratryggingar Íslands (hér eftir „frestbeiðandi“) þess á leit að kærunefnd útboðsmála frestaði réttaráhrifum úrskurðar í máli nr. 47/2023 að því er varðaði skyldu til greiðslu stjórnvaldssektar að fjárhæð 41.000.000 krónum þar til frestur 112. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup til höfðunar dómsmáls til ógildingar á úrskurðinum sé útrunninn og, hafi dómsmál verið höfðað til ógildingar á úrskurðinum innan þess frests, þar til dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í því ógildingarmáli liggi fyrir.
Í beiðni frestbeiðanda kemur fram að hann hafi falið lögmanni sínum að höfða mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem gerð verði sú krafa að úrskurður nefndarinnar verði felldur úr gildi. Undirbúningur þeirrar málshöfðunar standi yfir. Í máli nr. 47/2023 hafi verið uppi grundvallarágreiningur um samspil sérlaga á sviði heilbrigðismála og laga nr. 120/2016 sem og um grundvallarskilgreiningar á hugtökum sem hafi úrslitaþýðingu um niðurstöðu hvort innkaup frestbeiðanda á læknisfræðilegri myndgreiningarþjónustu séu útboðsskyld á þann hátt sem kærunefnd útboðsmála hafi komist að niðurstöðu um eða ekki. Mikilvægt sé að frestbeiðanda gefist svigrúm til að bregðast við niðurstöðu kærunefndar útboðsmála eftir atvikum með því að bera málið undir dómstóla áður en verulega íþyngjandi viðurlög í formi greiðslu hárrar stjórnvaldssektar falli til.
Frestbeiðandi sé ríkisstofnun sem markaður sé fjárhagsrammi af hálfu hins opinbera fyrir hvert ár. Skylda til greiðslu stjórnvaldssektar af því tagi sem málið varði, án þess að stofnuninni hafi gefist svigrúm til að gera ráðstafanir um greiðslu hennar innan fjárheimilda sinna, hafi neikvæð og íþyngjandi áhrif á rekstur stofnunarinnar. Með ákvörðun um greiðslu þessara fjárhæðar sé úrskurðarnefnd á vegum ríkisins, fyrir hönd ríkissjóðs, að heimta greiðslu frá ríkisstofnun sem renna eigi til ríkissjóðs sem aftur fjármagni að öllu leyti starfsemi stofnunarinnar. Ekki verði séð að sérstakir hagsmunir geti staðið því í móti að réttaráhrifum úrskurðarins um skyldu til þessarar greiðslu sé frestað þar til fyrir liggur annað hvort að um endanlega niðurstöðu sé að ræða eða þar til fengist hafi úrlausn dómstóls um gildi hennar. Þessu til viðbótar bendi frestbeiðandi á að samkvæmt 3. mgr. 118. gr. laga nr. 120/2016 sé það í höndum Ríkisskattstjóra að annast innheimtu stjórnvaldssekta á borð við þá sem lögð hafi verið á frestbeiðanda en ekki kærunefnd útboðsmála.
Í lögum um opinber innkaup sé ekki að finna ákvæði sem tryggi með beinum hætti rétt aðila til frestunar réttaráhrifa. Af óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins og 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 leiði á hinn bóginn að stjórnvald hafi efnislega heimild til að fjalla um slíka beiðni og taka afstöðu til hennar, sbr. m.a. álit umboðsmanns Alþingis í málum nr. 3298 og 3299/2021. Í öllu falli sé þess farið á leit að gjalddagi á greiðslu sektarinnar verði færður til hæfilegrar dagsetningar eftir að niðurstaða kærunefndar útboðsmála um erindi þetta liggi fyrir sem og að greiðsluboð berist frá réttum innheimtuaðila.
Niðurstaða
Með úrskurði kærunefndar útboðsmála 1. nóvember 2024 í máli nr. 47/2023 var frestbeiðandi meðal annars úrskurðaður til að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 41.000.000 krónur í ríkissjóð. Í máli þessu er til úrlausnar krafa frestbeiðanda um að réttaráhrifum þessa þáttar úrskurðarins verði frestað en frestbeiðandi hefur lýst því yfir að hann muni höfða mál fyrir dómstólum og krefjast þar ógildingar úrskurðarins.
Kærunefnd útboðsmála hefur lagt til grundvallar að henni sé heimilt á grundvelli ólögfestra reglna að fresta réttaráhrifum úrskurða þegar beðið sé úrlausnar dómstóla um gildi þeirra, sbr. ákvarðanir nefndarinnar í málum nr. 27/2021 og 32/2021. Í ákvörðunum kom þó fram að svigrúm kærunefndarinnar að þessu leyti væri takmarkað með hliðsjón af lögum nr. 120/2016 um opinber innkaup og nefndin ætti aðeins að fresta réttaráhrifum meðan beðið væri úrlausnar dóms í algjörum undantekningartilvikum. Í umræddum ákvörðunum var meðal annars litið til þess hvort afleiðingar úrskurðar væru svo sértækar og mikilsverðar fyrir málsaðila að réttlætt geti frestun með hliðsjón af almennu gildi þeirra lögfræðilegu álitamála sem uppi væru.
Svo sem fyrr segir er krafa frestbeiðanda einskorðuð við þann þátt úrskurðar í máli nr. 47/2023 sem laut að greiðslu stjórnvaldssektar. Að mati kærunefndar útboðsmála verður ekki séð að afleiðingar þessa þátta úrskurðarins séu svo mikilsverðar og sértækar fyrir frestbeiðanda, sem er opinber aðili, að réttlætt geti frestun með hliðsjón af almennu gildi þeirra lögfræðilegu álitamála sem uppi eru, sbr. fyrrgreindar ákvarðanir nefndarinnar. Að þessu og öðru framangreindu gættu verður að hafna kröfu frestbeiðanda.
Krafa frestbeiðanda um að gjalddagi greiðslu sektarinnar verði færður til hæfilegrar dagsetningar verður í raun og sanni skilin sem beiðni um frestun réttaráhrifa. Þeirri beiðni er því hafnað á sömu forsendum og raktar eru að framan.
Ákvörðunarorð:
Kröfu frestbeiðanda, Sjúkratrygginga Íslands, um að kærunefnd útboðsmála fresti réttaráhrifum þess þáttar úrskurðar nefndarinnar 1. nóvember 2024 í máli nr. 47/2023 sem laut að greiðslu stjórnvaldssektar í ríkissjóð, eða færi gjalddaga sektarinnar til hæfilegrar dagsetningar, er hafnað.
Reykjavík, 26. mars 2025.
Reimar Pétursson
Kristín Haraldsdóttir
Auður Finnbogadóttir