Nr. 394/2019 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 22. ágúst 2019 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 394/2019
í stjórnsýslumáli nr. KNU19050052
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 28. maí 2019 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. maí 2019, um að synja honum um ótímabundið dvalarleyfi.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn hans til efnislegrar meðferðar.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi á Íslandi fyrir maka Íslendings þann 10. febrúar 2016 og var leyfið endurnýjað tvisvar, nú síðast með gildistíma til 1. febrúar 2019. Þann 14. desember 2018 lagði kærandi fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. maí 2019, var umsókn kæranda synjað. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 21. maí 2019 og 28. maí sl. kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála en kæru fylgdi greinargerð kæranda. Kærunefnd óskaði eftir upplýsingum frá ríkissaksóknara með tölvupósti dags. 6. ágúst 2019 og fékk svar við því erindi samdægurs. Kæranda var veitt tækifæri til að koma að andmælum vegna svars ríkissaksóknara þann 15. ágúst 2019 en ekki barst svar frá umboðsmanni hans.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar voru skilyrði fyrir útgáfu ótímabundins dvalarleyfis rakin, sbr. 58. gr. laga um útlendinga. Meðal skilyrða væri að útlendingur ætti ekki ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann væri grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi, sbr. e-lið 1. mgr. 58. gr. Fram kom að samkvæmt upplýsingum frá Lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra frá 10. maí 2019 væri kærandi með ólokin mál í refsivörslukerfinu. Þar sem kærandi uppfyllti ekki fyrrnefnt skilyrði e-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga var umsókn hans um ótímabundið dvalarleyfi synjað.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð vísar kærandi til þess að hann hafi verið kærður til lögreglu fyrir [...]. Hafi rannsókn máls gagnvart honum hafi verið hætt þann 27. maí sl. með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Sé því ljóst að kærandi eigi ekki lengur ólokin mál í refsivörslukerfinu og uppfylli þannig skilyrði e-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Hafi umboðsmaður kæranda sent tölvupóst á Útlendingastofnun þann 28. maí sl. með upplýsingum um niðurfellingu máls hans hjá héraðssaksóknara og jafnframt óskað eftir því að stofnunin endurskoðaði ákvörðunina.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í 58. gr. laga um útlendinga er fjallað um ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Eins og að framan greinir hefur kærandi dvalið hér á landi samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins leyfis síðan 10. febrúar 2016.
Frekari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis eru m.a. tilgreind í stafliðum a-e í 1. mgr. 58 gr. laga um útlendinga. Samkvæmt e-lið er það skilyrði að útlendingur eigi ekki ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi.
Samkvæmt tilkynningu embættis héraðssaksóknara, dags. 27. maí 2019, ákvað embættið að hætta rannsókn máls gagnvart kæranda með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála. Í niðurlagi tilkynningarinnar vísaði héraðssaksóknari til þess að ákvörðun embættisins um að hætta rannsókn væri kæranleg til ríkissaksóknara innan eins mánaðar frá því að tilkynnt væri um ákvörðunina, sbr. 6. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála, sbr. 10. gr. laga nr. 47/2015. Í greinargerð er því haldið fram að vegna niðurfellingar málsins hjá héraðssaksóknara sé kærandi ekki grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi í skilningi e-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga.
Samkvæmt upplýsingum sem kærunefnd aflaði frá embætti ríkissaksóknara, dags. 6. ágúst 2019, var fyrrgreind ákvörðun héraðssaksóknara kærð til ríkissaksóknara þann 26. júní sl. og er málið til meðferðar hjá embættinu en það hefur skv. fyrrgreindum upplýsingum þrjá mánuði til að taka afstöðu til kærunnar eftir að hún barst. Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga um meðferð sakamála og er hluti af refsivörslukerfinu. Að mati kærunefndar er ljóst að þar sem mál kæranda er til meðferðar hjá ríkissaksóknara eigi hann ólokið mál í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi í skilningi e-liðar 1. mgr. 58. gr. Kærandi uppfyllir því ekki ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis og verður hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.
Samkvæmt 6. mgr. 58. gr. laga um útlendinga hafði kærandi heimild til dvalar hér á landi á meðan á málsmeðferð umsóknar hans um ótímabundið leyfi stóð. Eins og að framan greinir hefur málsmeðferðinni nú verið lokið með synjun umsóknarinnar og hefur kærandi því ekki lengur heimild til dvalar hér á landi. Kærunefnd ítrekar leiðbeiningar í ákvörðun Útlendingastofnunar um að kæranda sé leiðbeint um að sækja um dvalarleyfi á öðrum grundvelli innan 15 daga frá móttöku synjunarinnar eða að öðrum kosti yfirgefa landið. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann sækir ekki um dvalarleyfi á öðrum grundvelli eða yfirgefur ekki landið kann að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Anna Tryggvadóttir
Gunnar Páll Baldvinsson Anna Valbjörg Ólafsdóttir