Hoppa yfir valmynd
24. júní 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 165/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 165/2016

Föstudaginn 24. júní 2016

A

gegn

Íbúðalánasjóði


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 26. apríl 2016, kærir B hdl., f.h. A til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun Íbúðalánasjóðs frá 7. mars 2016.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með erindi til Íbúðalánasjóðs þann 16. febrúar 2016 óskaði kærandi eftir að sjóðurinn færi ítarlega yfir fasteignalán hans og tæki afstöðu til nánar tilgreindra mistaka. Kærandi tók einnig fram að hann teldi sig eiga rétt á skaðabótum frá Íbúðalánasjóði vegna mistakanna. Með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 7. mars 2016, var kröfu kæranda um skaðabætur hafnað. 

II. Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál getur málsaðili skotið ákvörðun Íbúðalánasjóðs, húsnæðisnefndar eða þeirrar nefndar á vegum sveitarfélags sem hefur verið falið verkefni húsnæðisnefndar, til úrskurðarnefndar velferðarmála. Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Til þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar þarf því að liggja fyrir stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er einungis að ræða hafi stjórnvald tekið ákvörðun um rétt eða skyldu tiltekins aðila í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þær ákvarðanir stjórnvalda sem ekki eru teknar í skjóli stjórnsýsluvalds, t.d. þær sem eru einkaréttarlegs eðlis, teljast ekki stjórnvaldsákvarðanir.

Að mati úrskurðarnefndarinnar er krafa kæranda, um skaðabætur vegna mistaka Íbúðalánasjóðs, einkaréttarlegs eðlis og varðar sjóðinn ekki sem stjórnvald. Að því virtu verður ákvörðun Íbúðalánasjóðs frá 7. mars 2016 ekki talin vera stjórnvaldsákvörðun. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að málið sé ekki tækt til efnismeðferðar. Kærunni er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta