Nr. 1141/2024 Úrskurður
Hinn 20. nóvember 2024 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 1141/2024
í stjórnsýslumáli nr. KNU24060008
Kæra [...]
á ákvörðun Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 3. júní 2024 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Spánar ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. maí 2024, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í fjögur ár.
Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Hinn 3. mars 2020 skráði kærandi fyrst dvöl sína hér á landi og þá var hann skráður úr landi 26. nóvember 2021. Kærandi hefur ekki skráð sig aftur hjá Þjóðskrá Íslands sbr. 89. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt sakavottorði, útgefnu af ríkissaksóknara 31. október 2024, hefur kærandi hlotið tvo refsidóma hér á landi vegna brota gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og umferðarlögum nr. 77/2019. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-7420/2023, dags. 17. janúar 2024, var kærandi dæmdur til sjö mánaða fangelsisrefsingar fyrir 12 þjófnaðarbrot, sbr. 244. gr. almennra hegningarlaga á tímabilinu 22. júlí 2022 til 19. september 2023, samtals að verðmæti 1.790.735 kr. Með sama dómi var kærandi sakfelldur fyrir fíkniefnaakstur og akstur án ökuréttinda í fjögur skipti á tímabilinu 31. júlí 2023 til 19. september 2023, sbr. 1., sbr. 2. mgr. 50. gr. og 1. mgr. 58. gr., sbr. 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-3491/2024, dags. 3. september 2024, var kærandi dæmdur til átta mánaða fangelsisrefsingar fyrir 27 fullframin þjófnaðarbrot, sbr. 244. gr. almennra hegningarlaga á tímabilinu 14. mars 2023 til 15. mars 2024, samtals að verðmæti 4.508.735 kr. Með sama dómi var kærandi sakfelldur fyrir hylmingu, sbr. 254. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa haft í vörslum sínum þýfi að andvirði samtals 4.000 evrur og 740.000 kr. Var kærandi sakfelldur fyrir tilraun til þjófnaðar 7. mars 2024, sbr. 244. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga, að verðmæti 870.000 kr. Kærandi var jafnframt sakfelldur fyrir tvö umferðarlagabrot án ökuréttinda, annars vegar hraðakstur 18. september 2023, og hins vegar fíkniefnaakstur 29. september 2023, sbr. sbr. 2. mgr. 37. gr., 1. og 2. mgr. 50. gr., sbr. 1. mgr. 58. gr. og 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga. Framangreindu til viðbótar hefur kærandi sætt einni viðurlagaákvörðun og gert fimm lögreglustjórasáttir vegna umferðarlagabrota, á tímabilinu 29. september 2021 til 27. júlí 2023, en sektir kæranda voru 2.390.000 kr. að samtölu.
Með bréfi Útlendingastofnunar, dags. 14. febrúar 2024, var kæranda tilkynnt að til skoðunar væri að brottvísa honum og ákvarða endurkomubann með vísan til allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis, sbr. 1. og 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga. Í bréfinu vísaði Útlendingastofnun til áðurnefnds dóms Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-7420/2023 en vísaði jafnframt til áðurnefndra lögreglustjórasátta og viðurlagaákvörðunar. Þar að auki kom fram að lögregla hefði haft ítrekuð afskipti af kæranda, allt frá 16. júlí 2020. Samkvæmt upplýsingum lögreglu væri kærandi skráður sakborningur í 37 málum sem vörðuðu 80 meint brot gegn almennum hegningarlögum, þar af væru 15 opin mál gegn honum vegna 21 ætlaðra brota gegn almennum hegningarlögum. Við birtingu bréfsins 3. mars 2024, lýsti kærandi því yfir að hann hygðist leggja fram greinargerð vegna málsins en ekki voru lögð fram andmæli af hálfu kæranda við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. maí 2024, var kæranda vísað brott frá Íslandi á grundvelli 1. og 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga og honum ákveðið endurkomubann til landsins í fjögur ár. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda 31. maí 2024, með aðstoð túlks. Með tölvubréfi, dags. 3. júní 2024, var ákvörðunin kærð til kærunefndar útlendingamála og með fylgdu röksemdir kæranda. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 6. nóvember 2024, var lagt fyrir kæranda að leggja fram frekari gögn og upplýsingar vegna málsins en honum var veittur frestur til og með 11. nóvember 2024. Beiðni kærunefndar laut að börnum kæranda, en ekkert í gögnum málsins né skráningu kæranda í Þjóðskrá Íslands benti til þess að hann ætti börn hér á landi. Frekari gögn voru ekki lögð fram vegna málsins.
Kærandi er ríkisborgari Spánar og nýtur dvalarréttar hér á landi eftir ákvæðum XI. kafla laga um útlendinga. Með hliðsjón af framangreindu frestaði stjórnsýslukæra réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar á meðan málið er til meðferðar hjá kærunefnd, sbr. 3. málsl. 3. mgr. 103. gr. laga um útlendinga. Þá gilda ákvæði XI. kafla laga um útlendinga um stjórnsýslumál þetta að öðru leyti.
III. Málsástæður og rök kæranda
Í röksemdum kæranda er því mótmælt að skilyrðum 1. og 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga sé fullnægt, enda takmarkist heimild til brottvísunar af ákvæðum 97. gr. laga um útlendinga. Framangreind ákvæði byggjast á tilskipun Evrópusambandsins, með hliðsjón af þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands vegna aðildar ríkisins að EES og Schengen samstarfinu. Kærandi telur framferði hans ekki fela í sér raunverulega og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins svo að telja megi nauðsynlegt að vísa honum úr landi. Kærandi telur ákvörðun Útlendingastofnunar fela í sér brot gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, enda sé hann EES-borgari og njóti réttar til frjálsrar farar og dvalar og takmörk á þeim rétti beri að túlka þröngt.
Kærandi vísar til athugasemda við lög nr. 64/2014 um breytingu á þágildandi lögum um útlendinga, nr. 96/2002, þar sem fram komi að mat þurfi að fara fram á heildaraðstæðum þegar ákvörðun um brottvísun skuli tekin og meta þurfi hvort ákvæði um brottvísun eigi yfir höfuð við í hvert skipti þar sem aðstæður hvers og eins séu einstaklingsbundnar. Ávallt skuli litið til meðalhófsreglu, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, í ljósi íþyngjandi áhrifa slíkrar stjórnvaldsákvörðunar á aðila málsins. Skilyrðum brottvísunar sé ekki fullnægt í málinu og að brot hans eða framferði verði ekki túlkað með þeim hætti að þau feli í sér alvarlega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins. Í því samhengi telur kærandi að brot gegn umferðarlögum geti ekki eitt og sér verið ógn við allsherjarreglu eða almannaöryggi, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga og 2. mgr. 27. gr. tilskipunar um frjálsa för.
Kærandi vísar til þess að einnig þurfi að hafa í huga ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar, og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu. Vísar kærandi til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu um þá viðurkenndu meginreglu þjóðaréttar að ríki hafi, með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar sínar, rétt til að stjórna aðgengi erlendra ríkisborgara að landssvæði sínu og dvöl þeirra þar. Kærandi vísar til sjónarmiða sem dómstóllinn hefur lagt til grundvallar skerðingar á friðhelgi einkalífs fjölskyldu í samræmi við lög og nauðsyn í lýðræðislegu þjóðfélagi. Sjónarmiðin varði t.a.m. eðli brots sem viðkomandi hefur gerst sekur um, lengd dvalar í ríki, ásamt félagslegum, menningarlegum, og fjölskyldutengslum viðkomandi við dvalarríki og heimaríki, sbr. t.d. mál Balogun gegn Bretlandi, (nr. 60286/09), frá 4. október 2013. Kærandi vísar einkum til hagsmuna barna hans hér á landi, sem njóti verndar framangreindra ákvæða stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi tilgreinir sérstaklega dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Amrollahi gegn Danmörku, (nr. 56811/00), frá 11. október 2002. Í dóminum hafi dómstóllinn sett fram þrenns konar viðmið, í fyrsta lagi þurfi ráðstöfun sem gripið er til að vera í samræmi við lög, í öðru lagi þurfi hún að stefna að lögmætu markmiði, og í þriðja lagi þurfi ráðstöfunin að vera nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi, með hliðsjón af hagsmunamati. Að mati kæranda sé byggt á því að skilyrðum 95. gr. laga um útlendinga sé ekki fullnægt og að Útlendingastofnun hafi ekki litið til meðalhófssjónarmiða með nægjanlega góðum hætti. Að mati kæranda stafi ekki af honum raunveruleg, yfirvofandi eða nægilega alvarleg ógn gegn grundvallarhagsmunum samfélagsins.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í samræmi við 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, hefur tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna verið tekin upp í íslenskan rétt, sbr. m.a. XI. kafla laga um útlendinga sem felur í sér sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
Í 95. gr. laga um útlendinga er fjallað um brottvísun EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar er heimilt að vísa EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans úr landi ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis. Í 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga segir að brottvísun samkvæmt 1. mgr. 95. gr. sé heimil ef framferði viðkomandi feli í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins. Ákvörðun um brottvísun skuli ekki eingöngu byggjast á almennum forvarnaforsendum. Ef viðkomandi hafi verið dæmdur til refsingar eða sérstakar ráðstafanir ákvarðaðar sé brottvísun af þessari ástæðu því aðeins heimil að um sé að ræða háttsemi sem geti gefið til kynna að viðkomandi muni fremja refsivert brot á ný. Fyrri refsilagabrot nægi ekki ein og sér til þess að brottvísun sé beitt.
Líkt og fram kemur í málavaxtalýsingu skráði kærandi dvöl sína hér á landi 3. mars 2020 en samkvæmt sakavottorði var kæranda gert að sæta viðurlagaákvörðun 29. september 2021, sem markar upphaf brotaferils kæranda hér á landi. Í júlí 2022 hófst hrina afbrota en frá því tímamarki og til mars 2024, hafði kærandi gerst sekur um 47 refsiverð afbrot, sem lauk með uppkvaðningu tveggja refsidóma um óskilorðsbundna fangelsisrefsingu, en vegna síðari dómsins var kæranda gerður hegningarauki að hluta. Samtala auðgunarbrota kæranda hafi verið 6.299.470 kr., þar af voru 870.000 kr. vegna tilraunarbrots. Til viðbótar við framangreint hafi kærandi í eitt skipti framið hylmingarbrot en 4.000 evrur og 740.000 kr. voru gerðar upptækar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-3491/2024. Fimm refsiverðra brota kæranda hafi lotið að fíkniefnaakstri án ökuréttinda, eitt að hraðakstri án ökuréttinda en að auki hafi kærandi gert fimm lögreglustjórasáttir vegna umferðarlagabrota en samtala sekta vegna sátta og viðurlagaákvörðunar er 2.390.000 kr. Samkvæmt tímalínu málsins er þó ljóst að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-3491/2024 var kveðinn upp eftir að kæranda var ákvörðuð brottvísun og endurkomubann, en varðar að öllu leyti refsiverð brot sem framin voru fyrir töku ákvörðunarinnar. Þá athugast að brot samkvæmt ákærulið 26 var framið sama dag og kæranda var birt tilkynning um hugsanlega brottvísun en brot samkvæmt ákæruliðum 27-31 voru framin eftir birtingu tilkynningarinnar. Þau brot sem kærandi var sakfelldur fyrir í dóminum eiga sér þó skírskotun í tilkynningu um hugsanlega brottvísun og hina kærðu ákvörðun, með hliðsjón af ítrekuðum afskiptum lögreglu af kæranda og þeim brotum sem lögregla hafði til meðferðar, sbr. bréf lögreglu til Útlendingastofnunar, dags. 2. febrúar 2024. Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun ríkisins var kærandi í samfelldri afplánun frá 17. mars 2024 til 21. október 2024. Frá þeim tíma hafi honum verið veitt reynslulausn, skilorðsbundið í tvö ár, á 232 daga eftirstöðvum refsingarinnar.
Við mat á því hvort framferði kæranda sé þess eðlis að skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga um útlendinga sé uppfyllt, sbr. 27. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38, verður einkum að líta til þess að kærandi var tvívegis dæmdur til fangelsisrefsingar fyrir ítrekuð brot yfir langvarandi tímabil. Af brotaferli kæranda verður jafnframt ráðið að tíðni brotanna hafi aukist eftir því sem leið á og verðmæti einstakra þjófnaðarbrota sífellt farið hækkandi. Þar að auki hefur kærandi verið sakfelldur, og gert lögreglusáttir, vegna ítrekaðs ökuréttindalauss aksturs undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna. Af umræddum úrlausnum verði þó ekki ráðið að tjón hafi hlotist af síðastnefndum brotum kæranda en um er að ræða almannahættubrot sem eru einstaklega alvarleg og í háttseminni felst mikið skeytingarleysi og hætta gegn lífi og velferð annarra vegfarenda. Þá verður jafnframt lagt til grundvallar að ekki hafi orðið hlé á brotahegðun kæranda fyrr en við upphaf afplánunar en afplánun hófst tveimur dögum frá síðasta broti sem kærandi var sakfelldur fyrir með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-3491/2024. Með vísan til framangreinds gefur háttsemi kæranda til kynna að hann muni fremja refsiverð afbrot á ný, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga.
Í málatilbúnaði sínum vísar kærandi til þess að afbrot hans séu ekki af slíkum alvarleika að stjórnvöldum sé heimilt að beita brottvísun, m.a. með hliðsjón af rétti kæranda til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkja EES-svæðisins. Kærunefnd áréttar að einstök brot gegn almennum hegningarlögum og umferðarlagabrot fela ekki sjálfkrafa í sér alvarlega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins. Þvert á móti þarf mat stjórnvalda á 1. og 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga að endurspegla háttsemi og brotahegðun málsaðila í víðara samhengi. Með vísan til tíðni afbrota kæranda og auknum alvarleika þeirra er það niðurstaða kærunefndar að skilyrðum fyrir brottvísun samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga um útlendinga sé fullnægt. Þegar litið er til eðlis brota kæranda, sem varða ítrekuð þjófnaðarbrot, ásamt hylmingu, ítrekaðan akstur undir áhrifum áfengis- og fíkniefna, án ökuréttinda, felur framferði kæranda í sér raunverulega og yfirvofandi ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins í skilningi 2. mgr. 95. gr. sömu laga. Lítur kærunefnd einnig til þess að brotahegðun kæranda hafi hafist skömmu, eða um einu og hálfu ár, eftir að hann fluttist til landsins.
Samkvæmt Þjóðskrá Íslands skráði kærandi dvöl sína hér á landi 3. mars 2020 og hefði í fyrsta lagi getað notið ótímabundins dvalarréttar, sbr. 87. gr. laga um útlendinga, 3. mars 2025. Þar að auki var lögheimili kæranda skráð úr landi 26. nóvember 2021 og nýtur hann því ekki verndarsjónarmiða sem lögfest eru í a- og b-lið 1. mgr. 97. gr. laga um útlendinga. Í 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga koma fram takmarkanir á heimild til brottvísunar samkvæmt 95. gr. laganna. Í ákvæðinu segir að brottvísun skuli ekki ákveða ef það með hliðsjón af málsatvikum og tengslum EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans við landið mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart viðkomandi eða nánustu aðstandendum hans. Við matið skuli m.a. taka mið af lengd dvalar á landinu, aldri, heilsufari, félagslegri og menningarlegri aðlögun, fjölskyldu og fjárhagsaðstæðum og tengslum viðkomandi við heimaland sitt, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga.
Í röksemdum sínum til kærunefndar bar kærandi fyrir sig að eiga börn hér á landi og því feli hin kærða ákvörðun í sér skerðingu á rétti til fjölskyldulífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ekkert í gögnum málsins né skráningu kæranda í Þjóðskrá Íslands bendir til þess að hann eigi börn hér á landi. Með tölvubréfi, dags. 6. nóvember 2024, lagði kærunefnd fyrir kæranda að færa fram frekari gögn og upplýsingar um meint börn, svo sem gögn um forsjá, lögheimili, dvöl, og tengsl við kæranda að öðru leyti. Kærandi lagði ekki fram frekari gögn eða skýringar. Að framangreindu virtu verður ekki lagt til grundvallar að kærandi eigi börn eða aðra nánustu aðstandendur hér á landi, í skilningi 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga. Í málatilbúnaði sínum vísar kærandi einnig til réttar til frjálsrar farar og dvalar í skilningi tilskipunar Evrópusambandsins um frjálsa för. Framangreind tilskipun, með hliðsjón af fjórfrelsi Evrópusambandsins, grundvallast á sjónarmiðum um efnahagslega virkni. Ákvæði XI. kafla laga um útlendinga endurspegla þetta m.a. með þeim hætti að réttur til dvalar grundvallast á atvinnuþátttöku, veitingu þjónustu, eða innritun í viðurkennda námsstofnun en í öllu falli þurfi rétthafi að geta framfært sjálfum sér og aðstandendum sínum. Samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra var kærandi fyrst skráður í staðgreiðslu í desember 2019. Alls hefur kærandi verið skráður í staðgreiðslu vegna vinnu fyrir sjö fyrirtæki, lengst í þrjá mánuði í senn en staðgreiðsla kæranda varð mjög brotakennd frá árslokum 2021. Samkvæmt skránni hafi kærandi jafnframt þegið atvinnuleysisbætur að hluta frá ágúst 2020 til ársloka 2021. Að teknu tilliti til framangreinds hefur kærandi ekki haldist í stöðugri atvinnu hér á landi og er atvinnuþátttaka hans ekki til marks um félagslega eða menningarlega aðlögun í formi atvinnutengsla. Þvert á móti bendir brotaferill kæranda til þess að hann hafi reynt að sjá sér farborða með ítrekuðum auðgunarbrotum.
Að framangreindu virtu stendur 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga ekki í vegi fyrir brottvísun kæranda frá landinu. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda því staðfest.
Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga um útlendinga felur brottvísun samkvæmt 1. mgr. 95. gr. í sér bann við komu til landsins síðar. Í sama ákvæði er kveðið á um að endurkomubann geti verið varanlegt eða tímabundið en þó ekki styttra en tvö ár. Við mat á því skuli sérstaklega litið til atriða sem talin eru upp í 1. og 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga. Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda bönnuð endurkoma til Íslands í fjögur ár. Að málsatvikum virtum og með hliðsjón af tíðni og auknum alvarleika brota kæranda verður endurkomubann hans staðfest. Athygli er vakin á því að samkvæmt 2. mgr. 96. gr. laga um útlendinga er heimilt að fella endurkomubann úr gildi ef nýjar aðstæður mæla með því og rökstutt er að orðið hafi verulegar breytingar á þeim aðstæðum sem réttlættu ákvörðun um endurkomubann. Þá er athygli kæranda jafnframt vakin á því að tímabilið sem kæranda er bönnuð endurkoma til landsins hefst við framkvæmd brottvísunar.
Samantekt
Að öllu framangreindu virtu verður ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann kæranda staðfest.
Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Valgerður María Sigurðardóttir
Gunnar Páll Baldvinsson Sandra Hlíf Ocares