Hoppa yfir valmynd
4. desember 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 49/2008

Fimmtudaginn 4. desember 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 10. september 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 4. september 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 4. júní 2008 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„A fékk fæðingarstyrk foreldris utan vinnumarkaðar þar sem þáverandi námsyfirlit frá B-háskóla sýndi ekki nægar einingar fyrir haust 2007 né starf tengdu námi hennar þótti nægilegt til að fá úthlutað fæðingarstyrk námsmanna (50% í fimm mánuði).

Sú ákvörðun að úthluta fæðingarstyrk utan vinnumarkaðar í stað fæðingarstyrks námsmanna fyrir foreldri í fullu námi er tilefni kærunnar.

A var í 50% starfi sem tengdist meistaranámi hennar við B-háskóla frá febrúar 2008 til maí 2008 eða 5 mánuði sem nær því miður ekki alveg upp í sex mánuðina sem fæðingarorlofssjóðurinn krefst. Eftir langa bið hefur B-háskóli breytt námsyfirliti mínu og sýnir það nú þegar 24 af 30 einingum haust 2007 (80%) og 22 af 30 einingum af vormisseri 2008 (73.33%) og síðan sex einingar hvora önn eða 20% fyrir meistaraverkefni sem er ekki búið að bókfæra sem mun þá gefa 100% haust 2007 og 93.33% vor 2008.

Með þessum breytingum tel ég mig hafa fullan rétt til þess að fá greiddan fæðingarstyrk fyrir foreldra í fullu námi frekar en minni fæðingarstyrkinn eins og fæðingarorlofssjóður fer fram á þar sem þeir voru ekki með þessar nýjar upplýsingar frá B-háskóla.“

 

Með bréfi, dagsettu 10. september 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 22. september 2008. Í greinargerðinni segir:

„Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 4. júní 2008, var henni tilkynnt að samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra væri ráðið að hún uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Ekki er ágreiningur um þá synjun heldur snýr kæra þessi að því að kærandi hafi ekki verið afgreiddur með fæðingarstyrk námsmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur kemur fram að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Einstök námskeið teljast ekki til fulls náms. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda fæddist þann X. júní 2008 og verður því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá X. júní 2007 fram að fæðingardegi barnsins.

Samkvæmt námsferilsáætlun frá B-háskóla, dags. 27. maí 2008, stundaði kærandi nám við skólann á haustönn 2007 og vorönn 2008. Var kærandi skráður í 9 einingar (18 ECTS) á haustönn 2007 og lauk 9 einingum eða 60% námsframvindu. Á vorönn 2008 var kærandi skráður í 23 einingar (46 ECTS) og hafði lokið 5 einingum þegar vottorðið var gefið út. Að auki lauk kærandi 3 einingum (6 ECTS) í sumarprófi 2007 en sumarönn er ekki kennd við B-háskóla.

Með kæru kæranda barst ný námsferilsáætlun frá B-háskóla, dags. 9. september 2008. Í samræmi við breytingu á einingakerfi B-háskóla eru nú allar einingar helmingi fleiri en áður var. Teljast t.d. 3 einingar vera 6 einingar nú. Á hinni nýju námsferilsáætlun kemur nú fram að kærandi lokið sumarprófinu í september 2007 eða 6 einingum (áður 3 einingar). Kærandi lauk 18 einingum á haustönn 2007 af 30 (áður 9 einingar af 15) eða 60% námsframvinda. Á vorönn 2008 er skráð að kærandi hafi lokið 16 einingum af 30 (áður 8 einingum af 15) eða 53% námsframvinda. Í texta á námsferilsáætluninni segir svo orðrétt: A lauk 24 einingum af 30 á haustmisseri 2007 og 22 af 30 á vormisseri 2008. Hún á að auki útistandandi 6 einingar frá F-skóla sem hún tók á vormisseri 2008. (6 einingar á hvoru misseri í framvindu rannsóknarverkefnis hafa ekki verið færðar til bókar en staðfestar af leiðbeinanda).

Ekki verður séð að kærandi hafi lokið 24 einingum á haustmisseri 2007 heldur 18 einingum eins og báðar námsferilsáætlanirnar votta. Ekki er hægt að telja próf frá sumri 2007 (6 einingar) með á haustmisseri 2007. Jafnframt verður ekki séð að kærandi hafi lokið 22 einingum á vorönn 2008 heldur 16 einingum í samræmi við námsferilsáætlun.

Þegar um er að ræða nám við háskóla teljast 15 einingar á önn vera 100% nám og því teljast 11-15 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggja um námsframvindu kæranda lítur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. 6 mánuði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað og að kærandi eigi þess í stað rétt á greiðslu fæðingarstyrks til foreldra utan vinnumarkaðar.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 30. september 2008, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust með bréfi kæranda dagsettu 15. október 2008. Í bréfinu segir meðal annars:

 „Það virðist sem Vinnumálastofnun er ekki að taka tillit til verkefnis sem undirrituð vann haustið 2007 og vorið 2008 sem hefur ekki verið bókfært eins og kemur fram í texta í námsyfirliti frá B-háskóla þann 9. september 2008. Vegna rannsóknarvinnu minnar á D og E á Íslandi sem hófst haustið 2007 og vorönnina 2008. Vinnumálastofnun virðist telja að þessar einingar eigi ekki að telja til fulls náms fyrr en þær koma inn á haustönn 2008. Sú túlkun tel ég of þrönga þar sem undirliggjandi vinna fór fram haustönnina 2007 og fram til vorannar 2008, B-háskóli lítur á þetta sem fullt nám samanber námsferilsskrá.“

Þá segir í athugasemdum kæranda:

 „Samkvæmt námsferilsskrá frá B-háskóla dagsett þann 9. september 2008 kemur fram að ég lauk 24 einingum af 30 á haustmisseri 2007 og 22 af 30 á vormisseri 2008. Það er jafnframt staðfest að eftir er að taka tillit til 6 eininga frá F-skóla sem hluta af námi mínu í B-háskóla. Engin ástæða er fyrir Vinnumálastofnun að efast um gildi staðfestrar námsskráar frá B-háskóla.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl, sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Barn kæranda er fætt þann X. júní 2008. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. er því tímabilið frá X. júní 2007 fram að fæðingu barns. Kærandi var á þeim tíma í meistaranámi í H - og I-fræði við B-háskóla. Fullt nám við B-háskóla er nú talið 30 einingar á misseri. Fullt nám í skilningi ffl. er samkvæmt því 22–30 einingar, sbr. 4. mgr. 7. gr. ffl.  

Fyrir liggur nýtt námsferilsyfirlit frá B-háskóla dagsett 15. október 2008. Á yfirlitinu eru skráðar 6 einingar í september 2007 og 18 einingar í desember 2007. Í maí 2008 eru skráðar 16 einingar og 6 einingar í september 2008. Í skýringum með yfirlitinu segir: „A lauk 24 einingum af 30 á haustmisseri 2007 og 28 af 30 á vormisseri 2008 (Annað nám 6 einingar sep 2008 tilheyra vori 2008). Í vottorði mínu dags. 9. september 2008 er talning heildarfjölda eininga röng, 73, en eiga að vera 79. Þetta var vegna tæknilegs galla í kerfinu (sem er nýtt), eitt námskeið var vantalið- G – bæði námskeiðin með sama númeri áttu að teljast. Ennfremur hefur A lokið 6 einingum í rannsóknarverkefni sínu á hvoru misseri, staðfest af leiðbeinanda, en hafa enn ekki verið færðar til bókar af öðrum tæknilegum ástæðum kerfisins. Það verður gert á föstudaginn kemur, 17. október 2008.“

Að mati úrskurðarnefndarinnar felur námsferilsyfirlitið ásamt skýringum sem því fylgja í sér nægilega staðfestingu á því að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um a.m.k. sex mánaða fullt nám á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Með hliðsjón af framanrituðu er hrundið hinni kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er hrundið. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta